Fimmtudagur 21. júlí 2005

202. tbl. 9. árg.

ÍDV í dag er fjallað um Pál Magnússon, sem sagt hefur upp störfum hjá fyrirtækinu 365 og ætlar að sækja um stöðu útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins. Í umfjöllun sinni segir DV meðal annars að ráða verði Pál Magnússon í stöðu útvarpsstjóra „ef ráðningin á að vera fagleg“. Það munar ekki um það. DV, sem raunar er gefið út af sama fyrirtæki og Páll Magnússon hefur sagt upp störfum hjá, telur að eina leiðin til að ráða „faglega“ í stöðu útvarpsstjóra sé að ráða þennan fyrrum starfsmann 365. Ef nokkur annar maður verði ráðinn hljóti sú ráðning að vera ófagleg.

Það er margt undarlegt við þessa staðhæfingu DV, þó ekki væri nema það hvernig Páll tengist útgáfufélagi DV og að staðhæfingin kemur fram án rökstuðnings og að auki í miðri frétt en ekki í leiðara þar sem slíkar staðhæfingar er oftast að finna. en látum það liggja á milli hluta. Hitt er undarlegra hvernig DV telur sig geta fullyrt að ekki verði hægt að ráða annan umsækjenda á „faglegum“ forsendum þrátt fyrir að DV hafi ekki hugmynd um hverjir muni sækja um þar sem umsóknarfrestur er ekki liðinn. Ætli DV telji það mjög „faglegt“ að ákveða fyrirfram að enginn hæfari maður muni sækja um starfið?

Umræða um „faglegar“ ráðningar er mjög oft á villigötum og iðulega einungis notuð af stjórnarandstæðingum til að slá ryki í augu fjölmiðlamanna og annarra í þeim tilgangi að skora pólitísk stig. Það er skiljanlegt, en ekki til fyrirmyndar og fjölmiðlar ættu að varast að taka þátt í þeim leik. Erfiðara er þó við að eiga þegar fjölmiðlar sjálfir ganga lengra en nokkur annar, sjást ekki fyrir í árásum sínum og hefja þær jafnvel fyrirfram. Og nú er þetta einmitt upp á teningnum. Skilaboð fjölmiðilsins eru afar skýr: Verði Páll Magnússon ekki ráðinn verður menntamálaráðherra sagður ófaglegur og má eiga von á harðri atlögu. Hvort þetta hjálpar Páli eða hvort hann þarf á þessari hjálp að halda skal ósagt látið. Það er ekki víst að öllum þyki meðmælabréf frá DV vera jákvæð meðmæli. Það verður líka látið liggja á milli hluta að spá í það hvort þetta dugar til að menntamálaráðherra hlýði. Hitt er ljóst að DV er greinilega reiðubúið til að ganga býsna langt til að Páll Magnússon verði næsti útvarpsstjóri.

Ef gefa á menntamálaráðherra ráð um það hvern hann á að ráða í stöðu útvarpsstjóra þá væri það helst að ráða einfaldlega einhvern gegnheilan og helst landskunnan vinstri mann. Það er eitthvað svo ruglingslegt að hafa hægrisinnaðan útvarpsstjóra á útvarpi þar sem aðeins vinstrimenn fá að tala í hljóðnemann.