Miðvikudagur 20. júlí 2005

201. tbl. 9. árg.

Í fréttum Ríkisútvarpsins í gær var greint frá því að ung íslensk kona hefði verið handtekin á flugvelli í Tel Aviv. Frétt RÚV hljóðaði svo:

Arna Ösp Magnúsardóttir, sjálfboðaliði hjá palestínskum mannúðarsamtökum, fékk óblíðar viðtökur við komuna á flugvöllinn í Tel Aviv í fyrradag. Henni var meinað að fara inn í landið og haldið í varðhaldi í 30 klukkustundir. Ísraelska öryggis- og landamæralögreglan hélt henni í yfirheyrslum í 10 klukkustundir. Reynt var að fá hana til að játa á sig tengsl við hryðjuverkamenn og með hótunum reynt að fá hana til að gefa upp nöfn palestínskra vina sinna á Vesturbakka Jórdanar þar sem hún ætlaði að vinna við hjálparstörf á vegum palestínsku læknasamtakanna. Ísraelska lögreglan neitaði henni um að hafa samband við lögfræðing og lokaði hana inni litlum klefa þegar hún krafðist réttar síns. Hún er nú á heimleið.

Það sem ekki kemur fram í frétt RÚV er að að Arna Ösp Magnúsardóttir, er sama manneskjan og gárungarnir þekkja undir nafnin Ungfrú skyr.is eftir að hún ásamt öðrum réðist á gesti á ráðstefnu um álframleiðslu á Nordica hótel fyrr í sumar. Nú er margt skynsamt sem óskynsamt fólk ósammála um rætur vandans fyrir botni Miðausturlanda og lausn hans. Vefþjóðviljinn hefur þó ekki heyrt um neinn ennþá sem telur skort á fólki sem aflar skoðunum sínum fylgis með ofbeldi þar um slóðir.

Það vekur líka athygli hversu greiðan aðgang þeir sem berjast gegn Ísraelstjórn hafa að Ríkisútvarpinu. Skyldi það vera mat fréttamanns að um mannúðarsamtök sé að ræða? Vekur það virkilega ekki upp spurningar ef að sú sem skilgreinir samtök sem mannúðarsamtök, bíði dóms á Íslandi fyrir að beita ofbeldi?

Þar sem minnst er á Ungfrú skyr.is má geta að á sama tíma og fyrrgreindir atburðir urðu í Ísrael var Herra skyr.is, Ólafur Páll Sigurðsson, önnum kafinn á Kárahnjúkum þar sem mótmælendur ullu tjóni með því að hindra lögleg störf manna með því meðal annars að hlekkja sig við vinnuvélar.