Þriðjudagur 19. júlí 2005

200. tbl. 9. árg.

Líklega bera fá samtök nafn sitt betur en Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins. Samtök þessi hafa heill stofnunarinnar Ríkisútvarpsins í fyrirrúmi. Velferð stofnunarinnar, kerfisins og báknsins er þeim mikið kappsmál. Hagmunir hlustenda, áhorfenda og greiðenda afnotagjalda skipta samtökin hins vegar engu máli. Ef Hollvinir Ríkisútvarpsins hefðu snefil af áhuga á hagsmunum hins almenna hlustanda myndu þau auðvitað berjast fyrir því að losa hann undan þeirri nauðung að greiða afnotagjöld til Ríkisútvarpsins.

Samtök þessi leggja mikið upp úr því að Ríkisútvarpið sé lýðræðislegur vettvangur og „þjóðareign“ en jafnframt að þar sé staðið „faglega“ að málum. Samtökin hafa til að mynda skorað á stjórnvöld að standa „faglega“ að ráðningu útvarpsstjóra. En bíðum nú við. Hvað varð um kröfuna um lýðræðið? Er ekki rétt að lýðræðislega kjörin stjórnvöld skipi einfaldlega þann mann í stöðuna sem þau telja bestan? Hvort á að ráða ferðinni í þessu tilviki, lýðræðið eða fagmennskan? Á skólavist og reynsla af svipuðum störfum að ráða för eða eiga lýðræðislega kjörin stjórnvöld að velja þann sem þau treysta best?

Ef farið væri að ýtrustu kröfum um að Ríkisútvarpið sé lýðræðislegt væri útvarpsstjóri væntanlega kjörinn í almennri atkvæðagreiðslu. Ætli niðurstaðan úr því kjöri yrði „fagleg“. Ætli önnur sjónarmið en svonefnd fagleg hefðu ekki meiri áhrif á niðurstöðuna? Myndu kjósendur ekki láta það hafa áhrif á sig hvaða skoðanir frambjóðendur hafa á stjórnmálum, trúmálum og fleiri málum? Til dæmis er erfitt að hugsa sér að æstustu andstæðingar og fylgjendur Reykjavíkurflugvallar létu nokkuð annað mál ráða hvernig þeir greiddu atkvæði ef sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason og þingmaðurinn Kristján Möller væru í framboði til útvarpsstjóra.

Það er ekki hlaupið að því að gera ríkisrekstur bæði lýðræðislegan og faglegan. Hins vegar mætti færa valdið til fólksins með því að gefa áskrift að RÚV frjálsa. Öllu meira verður lýðræðið ekki en að hver og einn taki ákvörðun um hvort hann hafi áhuga á dagskrá RÚV. Hinir faglegu starfsmenn RÚV geta svo eignast félagið og sýnt landslýð hvernig á að reka það svo faglega að allir vilji gerast áskrifendur.