Mánudagur 18. júlí 2005

199. tbl. 9. árg.

Persónuvernd sendi á dögunum frá sér álit á skyldu fjölmiðla til þess að virða einkalíf fólks, og þá einnig þess fólks sem stundum er reynt að kalla opinberar persónur, til þess að skerða einkalíf þess umfram annað fólk. Niðurstaða Persónuverndar vakti ekki sérstaka lukku hjá öllum fjölmiðlum, enda kannski ekki við því að búast, svo ríkt sem það er í fjölmiðlamönnum mörgum hverjum að telja sig eiga rétt til þess að fara sínu fram og að auki þess álits sumra fjölmiðlamanna að opinberar stofnanir hafi þá aðeins rétt fyrir sér þegar þær opna dyr fyrir fjölmiðlamönnum eða setja stjórnvöldum á einhvern hátt stólinn fyrir dyrnar. Með þessu er auðvitað ekki sagt að ekki sé oft ástæða til þess að gagnrýna opinberar stofnanir. Það er einmitt mjög oft ástæða til þess að gagnrýna það sem kemur frá aðilum eins og Persónuvernd, Samkeppnisstofnun og Umboðsmanni alþingis, svo nokkrar stofnanir séu nefndar sem mikið er oft gert með. Frá öllum þessum aðilum hafa komið ákaflega vafasamir úrskurðir og álit; hugsanlega meðal annars vegna þess hve sjaldgæft er að niðurstöður þeirra séu teknar til alvarlegrar athugunar. Ekki síst er mikilvægt að horfa með gagnrýnum augum til þeirra stofnana sem hafa fengið þá stöðu að vera „sjálfstæðar“, sem þýðir að starfsmenn þeirra geta farið sínu fram og þurfa engum að standa skil á neinu.

Það er með öðrum orðum álit Vefþjóðviljans að rétt sé að taka álitum eftirlitsstofnana, úrskurðarnefnda og annarra slíkra, með verulegum fyrirvara. Að það sé meinloka að kjörin yfirvöld séu á einhvern hátt líklegri til að misfara með vald. Að það hafi í raun líkurnar með sér að kjörin stjórnvöld hafi mun meira aðhald en allir „fagmennirnir“, sem geta komið sínum sjónarmiðum í gegn undir gervi fagmennsku en þurfa ekki að leita lýðræðislegs umboðs til eins eða neins. Þegar þetta er haft í huga, þá má á ýmsan hátt fagna því að margir fjölmiðlamenn hafi gagnrýnt álit Persónuverndar. En sú gagnrýni beinir athyglinni að öðru.

Meðal þeirra sem gagnrýndi Persónuvernd var annar ritstjóri umdeilds dagblaðs sem sagði meðal annars að Persónuvernd væri að eltast við eitthvað sem stofnunin héldi að væri almenningsálit, og fleira í sama dúr var látið fylgja. Hann myndi ekki að gera mikið með þetta álit Persónuverndar. Gott og vel, þetta er túlkun ritstjórans á álitnu. Og enginn gerði neitt veður út af því. En hvernig halda menn að umræðan hefði orðið ef stjórnmálamaður hefði sagt eitthvað slíkt um starfsmenn stofnunarinnar? Hvernig er látið ef að stjórnmálamaður efast um álit Persónuverndar, dómstóla, Umboðsmanns alþingis, Samkeppnisstofnunar, mannréttindadómstóls Evrópu, Úrskurðarnefndar skipulagsmála, Kærunefndar jafnréttismála, eða hvað þær heita nú allar stofnanirnar þar sem ókosnir fagmenn taka ákvarðanir um mál fólks og þurfa aldrei að svara neinum spurningum um störf sín. Er ekki yfirleitt krafist afsagnar? Eru ekki skrifaðir leiðarar um að brotamennirnir vilji ráða öllu einir? Hvenær er viðurkennt að stjórnmálamenn hafi sama rétt og aðrir til þess að gagnrýna hina ósnertanlegu fagmenn?

Í bók sinni Fjölmiðlum 2004 fjallar Ólafur Teitur Guðnason meðal annars af og til um það hvernig fjölmiðlamenn bregðast öðruvísi við gagnrýni stjórnmálamanna en annarra á niðurstöður opinberra stofnana:

Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu á dögunum að Íslenska útvarpsfélagið og yfirmenn Stöðvar 2 hefðu brotið jafnréttislög þegar nokkrum konum var sagt upp störfum. Sigurður [G. Guðjónsson þáverandi forstjóri] sagði um þetta í Morgunblaðinu: „Af því að þetta mál snertir egósentrískar stéttir eins og fréttamenn þá halda menn að þetta sé einhver merkileg niðurstaða. Þetta er það ekki. Ég gef ekkert fyrir þetta álit.“ Sigurður færir góð rök fyrir máli sínu og ég hallast að því að hann hafi rétt fyrir sér. En hvar er nú fjölmiðlafárið sem fór af stað þegar Björn Bjarnason gagnrýndi kærunefnd jafnréttismála fyrir fáeinum mánuðum? Hvar eru fréttaskýringarnar? Viðtölin við hvern hrópandann á fætur öðrum? Kaldhæðnu pistlahöfundarnir? Kröfurnar um afsökunarbeiðni og afsögn? Það heyrist hvorki hósti né stuna og varla að fjallað sé um málið. Finnst engum þetta dálítið skrýtið?