Helgarsprokið 17. júlí 2005

198. tbl. 9. árg.

Þ að eru þrátt fyrir allt gefin út ýmis áhugaverð tímarit á Íslandi, sum æði sértæk. Eitt þeirra er Útvegurinn sem Landsamband íslenskra útvegsmanna gefur út. Þar er eins og skiljanlegt er mest fjallað um sjávarútvegsmál og horft á þau frá sjónarhóli útgerðarmanna. Nýjasta heftið er helgað Vestmannaeyjum og rætt við ýmsa sem þaðan gera út, en það gera margir þó vissulega séu Ísfélagið og Vinnslustöðin þekktust þeirra á meginlandinu. Auðlindagjaldið sem komið var á fyrir nokkrum misserum er flestum viðmælendum blaðsins ofarlega í huga og þykir Vefþjóðviljanum skiljanlegt að menn séu óánægðir með slíkan skatt sem lagður er á atvinnugrein þeirra umfram aðrar. Ekki þarf að hafa mörg orð um andstöðu Vefþjóðviljans við auðlindagjaldið, sem nú er innheimt sem minnisvarði um þann árangur sem meinlokumenn geta náð með því að vera nógu þrautseigir. Með margra ára hatrömmum áróðri, ekki síst á vegum Morgunblaðsins og krata, tókst að koma því inn hjá nægilega mörgum að sérstakt óréttlæti væri fólgið í því, að þegar nauðsyn þótti vera á því að takmarka sókn í fiskistofnana, þá yrðu heimildir til slíkrar sóknar fremur fengnar þeim sem þá höfðu gert út en þeim sem ekki höfðu gert það. Auðvitað má alltaf deila um útfærslu slíkra reglna, við hvaða tíma á að miða og svo framvegis, en einhverjar reglur þurfti að setja. Það er skýr afstaða Vefþjóðviljans að í þeim reglum sem settar voru með kvótakerfinu hafi ekki verið brotinn réttur á fólki, ekki framið rán og engum afhentar eigur annarra.

En að Útveginum. Í blaðinu er meðal annars rætt við eldri útgerðarmann, Bergvin Oddsson, en hann er skipstjóri á eigin skipi, Glófaxa VE 300. Sennilega er óhætt að segja að skoðanir Bergvins á auðlindaskattsmálum séu lýsandi fyrir þá sem reyna að stunda útgerð frá Vestmannaeyjum:

Ég tel að fiskveiðistjórnunin hér við land eigi að vera óbreytt frá því sem nú er. Ég sé ekki fyrir mér neitt betra fyrirkomulag. Ég tel hins vegar að það eigi alls ekki að skattleggja útgerðina sérstaklega eins og gert er með auðlindagjaldinu. Það á að innheimta skatt af sjávarútveginum eins og af öðrum atvinnugreinum. Við eigum ekki að þurfa að borga auðlindagjald af því að við höfum verið að álpast á sjó allt okkar líf. Ég er algerlega á móti því. Ég er hins vegar svartsýnn á að þessi skattur verði afnuminn. Það fer aldrei af sem einu sinni er komið á. Besta dæmið er Viðlagasjóðsgjaldið sem sett var á í tengslum við gosið í Vestmannaeyjum og hörmungarnar á Norðfirði. Það er á enn.

Þetta er nú eitt. Það hversu erfitt er að afnema það

Bergvin Oddsson hefur talsvert skynsamlegri skoðanir á sjávarútvegsmálum en Lúðvík sonur hans.

sem einu sinni hefur verið lagt á. Að vísu verður að virða það sem vel er gert og viðurkenna að stjórnvöld hafa nú hreinlega afnumið eignarskatt – og var það vitanlega gert án stuðnings stjórnarandstöðunnar – og svonefndur og rangnefndur hátekjuskattur hefur verið lækkaður og teknar ákvarðanir um að hann muni á tilteknum tíma hverfa – sömuleiðis án stuðnings stjórnarandstöðunnar. Raunar er þetta með viljaleysi stjórnarandstöðunnar til skattalækkana svo sterkt í henni að fáir átta sig sennilega á því. Lítið dæmi talar sínu máli. Áður en eignaskatturinn var afnuminn á síðasta ári giltu sömu lög um hann og tekjuskatt, „lög um tekju- og eignarskatt“. Þegar búið var að afnema eignarskattinn þurfti vitaskuld að breyta nafninu á lögunum. Það þurfti sérstaklega að greiða atkvæði um það og meira að segja þá litlu breytingu gat stjórnarandstaðan ekki stutt, og var þó ekki verið að breyta neinu nema nafni til staðfestingar um orðinn hlut. Stjórnarandstaðan vill ekki lækka skatta, hvað svo sem hún kann að segja fyrir kosningar. Það mega þeir vita sem fyrir kosningar fara í einfeldningshætti að reikna út hvort hægrimenn eða vinstrimenn séu að lofa meiri skattalækkunum. Vinstrimenn munu ekki efna slík loforð. Stundum komast þeir til valda eftir að hafa gefið slík loforð, eins og í Reykjavíkurborg, en þá verða útsvarshækkanir og holræsagjöld einu efndirnar.

Í Útveginum er meðal annars rætt við Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar. Hann segir að auðlindagjaldið komi illa við sitt fyrirtæki:

Það kemur auðvitað ekki vel við okkur og dregur þrótt úr okkur eins og öðrum fyrirtækjum í sjávarútvegi, en skapar líka óvissu ef vel gengur. Nú erum við að hugsa um að fjárfesta og erum að skoða það að byggja ný skip. Það þýðir aukna fjárfestingu og lántökur. Við förum hins vegar ekki út í aukna fjárfestingu nema við höfum meiri framlegð út úr því, til þess að greiða niður fjárfestinguna. Hvað gerist ef þetta gengur eftir og framlegðin vex? Jú, ríkið kemur og hækkar auðlindaskattinn vegna aukinnar framlegðar. Nú reynir á það hvort ríkið stendur við þetta og fari alltaf á eftir okkur með aukinni skattheimtu, en það mun leiða til þess að fyrirtækin hætta að fjárfesta og koðna niður aftur. Í hagfræðinni var okkur kennt að auðlindaskattar væru hagkvæmir skattar, en sú staðhæfing er einungis rétt í umhverfi þar sem engin breyting verður í kjölfar skattlagningar, m.ö.o. menn geti ekki breytt hegðun sinni í kjölfarið. Um leið og komið er í dynamiska hagfræði, þar sem hugurinn bregst við því áreiti sem hann verður fyrir, í skattlagningu til dæmis, þá á fullyrðingin um hagkvæmni auðlindaskatta ekki við.
Ef við tökum dæmi má segja að flatur skattur á einstaklinga, þar á meðal skattlagning barna sé mjög hagkvæmur skattur í skilningi hagfræðinnar því menn geta ekkert flúið með barnið og breyta engu eftir að hafa átt það. Staðreyndin er hins vegar sú að ef menn skattleggja börn líka, þá hættir fólk að eignast börn, það verður svo dýrt að eiga þau. Sama á við um auðlindaskattinn, hugsunin að baki honum er röng. Með sérstakri skattlagningu sjávarútvegsins þá leita menn annað með peningana sína. Skattar eru óhagkvæmir ef þeir eru lagðir á einhverja sérstaka þætti atvinnustarfseminnar. Skattar eiga að vera almennir og sanngjarnir en ekki sértækir. Það er mörgum sem þykir það eftirsóknarvert að sitja við hliðina á næsta manni og fara í hans vasa og sækja peningana hans, í stað þess að búa þá til sjálfur. Umræðan hefur því miður snúist um þetta hvað sjávarútveginn varðar, hvernig hægt sé að ná peningum úr vasa náungans með sem auðveldustum hætti. Þetta er okkar mein og þess vegna er vægi sjávarútvegsins að minnka umfram það sem annars væri.

Eins og Sigurgeir víkur að, þá snýst áhugi margra á sjávarútvegi um það hvernig hægt sé að ná

Sigurjón Óskarsson man tímana tvenna: „Öll útgerð hefur breyst með tilkomu kvótakerfisins.“.

„réttlátum skerfi“ af hagnaði sem einhverjum öðrum hafi verið „úthlutaður“, eða jafnvel „gefinn“. Slíkum sjónarmiðum var haldið að fólki sýknt og heilagt árum saman, með þeim árangri að fjölda fólks fannst hann sérstaklega hlunnfarinn þegar útgerðin fór að bera sig. Misskilningur eins og að til sé aðili, „þjóðin“, sem í raun eigi fiskinn í sjónum í þeim skilningi sem flestir leggja í eignarhugtakið, fékk marga til þess að trúa því að eign þeirra hefði verið afhent einhverjum fáum til þess að sinna og með tímanum efnast á. Staðreyndin er sú, að þegar lög töluðu um að fiskimiðin væru eigin þjóðarinnar, þá var eingöngu átt við að þau skyldu vernduð og sóknin í þau skipulögð þannig að þau gætu um ókomin ár verið sú undirstaða sæmilegs lífs á Íslandi og þau höfðu verið. Ekki þannig að hver og einn landsmaður ætti í þeim hlutabréf, heldur þannig að verðmæti sjávarins yrðu nýtt af skynsemi um ókomin ár, sem auðvitað kemur þjóðarbúinu til góða. Eiginlega sést best hvílík meinloka var í umræðunni, þegar horft er til þess að það var einmitt í fiskveiðistjórnarlögunum sjálfum, lögunum sem komu kvótakerfinu á, sem talað var um að fiskimiðin væru sameign þjóðarinnar. Það var því með öllu fráleitt að með kvótakerfinu væri brotið gegn þeirri hugsun sem stóð að baki þeim orðum löggjafans að fiskimiðin væru sameign þjóðarinnar. En það orðalag reyndist auðvitað óheppilegt í þeim skilningi að með því var meinlokumönnum fært tilefni til misskilnings og sagan ætti að hafa kennt að slíkir menn sleppa sjaldan slíku tækifæri.

En fyrst talað er um kvótakerfið, þá má geta þess að í Útveginum kemur munurinn á því kerfi og svokölluðu sóknarkerfi, sem sumir vilja endilega notast við, til tals. Sigurjón Óskarsson, útgerðarmaður í Ósi ehf. sem gerir út skipið Þórunni Sveinsdóttur VE 401, segir mikinn mun á þessum kerfum tveimur:

Það hefur gengið mjög vel hjá okkur í vetur, það hefur verið ótrúlega mikil veiði, sérstaklega í ýsunni. Ég er alveg hissa á því hvað strákarnir hjá mér komast af með að veiða lítinn þorsk í leiðinni, hvað þeir geta stýrt veiðinni vel. Það er ekkert mál að veiða þorskinn ef menn fara út í kantana, en við viljum ekki veiða mikinn þorsk á þessum tíma, reynum að veiða hann þegar hann er verðmætastur. Það er kvótakerfið sem gerir það að verkum að við þurfum að ná sem mestum verðmætum úr aflanum. Þegar við stýrum veiðunum þannig að við reynum alltaf að ná sem mestum verðmætum úr aflanum þá berum við meira úr býtum. Áður en kvótakerfið kom til þá mokuðu menn upp aflanum á vertíðinni á 2 til 3 mánuðum, en höfðu úr litlu að spila á öðrum tímum. … Eftir að kvótakerfið kom til hefur orðið mikil breyting á, þannig að við erum að gera miklu meiri verðmæti úr fiskinum en áður var. Við veltum því alltaf fyrir okkur á hverjum tíma hvaða tegund best er að veiða með tilliti til verðmætanna og einnig hvar við eigum að veiða og hvaða stærðir ber að leggja áherslu á. … Kvótakerfið hefur sætt talsverðri gagnrýni fyrir skipti á tegundum, en ég tel að sú gagnrýni sé frá þeim fyrst og fremst sem vita ekki um hvað þetta snýst. Þeir halda gjarnan að þetta snúist allt um peninga, að menn séu að moka peningum fram og til baka. Menn eru hins vegar mest að skipta innbyrðis á tegundum sem þeir sérhæfa sig í að veiða og selja. Við fáum t.d. 3 tonn af ýsu fyrir hvert tonn af þorski. Þetta er hagstætt fyrir mig með ýsuna og væntanlega er einhver annar sem hefur ábata af því að skipta á ýsu fyrir þorsk. Ég ætla þá að báðir græði. Það er mikið hagræði af þessu.
Öll útgerð hefur breyst með tilkomu kvótakerfisins. Vertíðarstemmningin er reyndar horfin, en við getum stjórnað veiðunum mun betur en áður. Í sóknarkerfi er alltaf kapphlaup um fiskinn með tilheyrandi kostnaði, offramboði og verðlækkun á markaði. Kvótakerfi skilar okkur miklu meiru en sóknarkerfi. Kvótakerfið hefur einnig leitt til stóraukinna gæða aflans. Hér áður fyrr fengu menn lítið meira fyrir góðan fisk en vondan og hvatinn var minni til að auka aflagæðin.

Kvótakerfið hefur haft stórkostlegar breytingar í för með sér. Útgerð sem jafnan barðist í bökkum hefur orðið að atvinnuvegi svo blómlegum að víða um land ganga kratar með stórsærða réttlætiskennd sem þeir sjá varla hvernig megi græða nema þá með því að „fyrna“ aflaheimildir þeirra sem nú gera út. Sjávarútvegurinn skiptir gríðarlegu máli fyrir íslenskt efnahagslíf og það skiptir verulegu máli að þeir sem vilja feigt hagkvæmasta fiskveiðistjórnarkerfi sem vitað er um, komist ekki í aðstöðu til þess að framfylgja því sem þeir hótuðu, til dæmis fyrir síðustu kosningar.