Laugardagur 16. júlí 2005

197. tbl. 9. árg.

H ugmyndasmiðjan Timbro í Svíþjóð gaf nýlega út rannsókn eftir Mauricio Rojas, sem er prófessor við Háskólann í Lundi og þingmaður á Ríkisdeginum, sænska þinginu. Ritið heitir Sweden after the Swedish Model — a report about the rise and fall of our welfare society og fjallar eins og nafnið bendir til um sænska módelið svo kallaða, vöxt þess og hrun. Áratugum saman, eða um það bil frá árinu 1930 til ársins 1980, trúðu því margir, og vafalaust flestir í Svíþjóð, að sænska módelið virkaði vel. Ríkið var allt í öllu, skattar voru gríðarlega háir og velferðarríkið sá um að uppfylla stóran hluta af þörfum fólks frá vöggu til grafar. Á níunda áratugnum fór fólk smám saman að átta sig á því að Svíþjóð hafði ekki fundið „þriðju leiðina“, draumaleið nútímalegra sósíalista, sem nú orðið kalla sig yfirleitt jafnaðarmenn. Svíþjóð átti þvert á móti í miklum erfiðleikum, ríkisfjármálin voru farin algerlega úr böndunum, allt of margir lifðu að of miklu leyti á kostnað skattgreiðenda og útlit var fyrir að ekki yrði við neitt ráðið.

Árið 1991 urðu þau tíðindi í Svíþjóð að hægri stjórn Carls Bildt komst til valda og hóf að takast á við velferðarríkið sem var að sliga sænskt þjóðfélag. Stjórn Bildt sat ekki lengi, aðeins í þrjú ár, en með henni varð þó viðhorfsbreyting og að sögn Rojas hafa jafnaðarmennirnir, sem tóku aftur við eftir þetta þriggja ára hlé, í meginatriðum fylgt þeirri stefnu sem stjórn Bildt markaði. Þeir tala að vísu oft ennþá eins og þeir afkomendur Olofs Palme sem þeir eru, en virðast hafa áttað sig á því að ef þeir hleypa markaðsöflunum og einkaframtakinu ekki að og halda ekki fast um ríkisbudduna fer allt aftur í sama farið — og þeir í stjórnarandstöðu á ný. En þrátt fyrir að ástandið í Svíþjóð hafi þannig skánað stórlega, meðal annars með því að hleypa einkaaðilum inn í rekstur skóla og sjúkrahúsa, glímir Svíþjóð enn við mikinn vanda. Skattheimta er enn mjög mikil þó að hún hafi lækkað mikið og enn lifa of margir á kostnað skattgreiðenda. Útgjöld hins opinbera af landsframleiðslu voru 70% árið 1993, en „aðeins“ 54% árið 2001.

Töluverð tregða er á vinstri vængnum hér á landi að hleypa einkaaðilum inn í skólakerfið, en ávísanakerfi í skólakerfinu, sem var tekið upp árið 1992, er meðal þess sem Rojas nefnir sem hvað mestu byltinguna í Svíþjóð. Þetta kerfi hafi orðið til þess að gefa borgurunum færi á að ráða sjálfir stórum hluta neyslu sinnar sem áður hafi verið í höndum ríkisins. Í þessu kerfi geta foreldrar valið á milli opinberra skóla og sjálfstæðra skóla og samkeppni milli þessara tveggja rekstrarforma hefur verið gerð möguleg og nokkuð jöfn. Rojas hefur svipaða sögu að segja um lífeyriskerfið. Áður fyrr hafi allur lífeyrir verið í gegnumstreymiskerfi, sem þýðir að ríkið notar skattfé til að greiða lífeyri fólks í stað þess að láta það safna sér lífeyri í sjóði. Þetta hefur verið að breytast og nú geta launþegar lagt hluta launa sinna í séreignarlífeyrissjóð, sem hefur gert þá að kapítalistum og aukið áhuga þeirra á gengi hlutabréfamarkaðarins.

Margar frekari umbyltingar á sænsku efnahags- og þjóðlífi eru nefndar í riti Mauricio Rojas, sem er allt hið athyglisverðasta, en þar er einnig fjallað um viðfangsefni framtíðarinnar. Rojas segir að nú sé deilt um hversu langt eigi að ganga í einkavæðingu, deilt sé um mörk efnahagslegs ójafnaðar og um takmarkanir á fjölmenningarsamfélagið, sem sé erfiðasta og umdeildasta vandamálið sem Svíþjóð og önnur Evrópuríki glími við. Síðast nefnda vandamálið segir hann að sé tvíþætt, annars vegar sé spurningin um trúfrelsi, sérstaklega þegar fengist sé við trúarbrögð sem viðurkenni ekki aðskilnað trúarlífs frá öðrum þáttum mannlífsins. Hins vegar komi upp spurningar um það sem hann kallar frelsi hópa og frelsi einstaklinga. Ef tilteknir hópar vilji ráða yfir einstaklingum innan hópanna, ekki síst börnum, segir Rojas að það geti og hafi skapað vandamál þar sem troðið sé á rétti einstaklinganna. Allt segir hann þetta tengjast alþjóðlegum átökum á milli vestrænna lýðræðisríkja og heittrúaðra Múhameðstrúarmanna. Í grunninn séu þetta átök á milli nútímans og eldri samfélagsgerða og á milli einstaklingshyggju og heildarhyggju.