Föstudagur 15. júlí 2005

196. tbl. 9. árg.
Maður þarf ekki endilega að misnota bílinn sinn, það er allt í lagi að nota hann. En fólk þarf kannski líka að velja á milli að kaupa þriðja bílinn inn á heimilið eða nota strætó. Strætó er alltaf ódýrasti valkosturinn og ég held að fólk hljóti að fara að hugsa sinn gang þegar kemur að þessum einkabílisma, þessari misnotkun einkabílsins eins og hún er á Íslandi.
– Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi R-listans og formaður stjórnar Strætó bs. í fréttum Ríkissjónvarpsins 14. júlí 2005.

Þeir eiga erfitt með að gnísta ekki tönnum, borgarfulltrúar R-listans, þegar einkabílinn ber á góma. Þó mátti merkja vissa framför í máli Bjarkar Vilhelmsdóttur í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi. Þar var hún mætt til að kynna nýtt leiðakerfi strætisvagnanna á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrsta lagi virðist hún nú viðurkenna að til sé notkun á einkabíl sem sé réttlætanleg. Það er óvenjulegt að heyra það frá borgarfulltrúa R-listans og vonandi verður Björk ekki fyrir aðkasti á næsta félagsfundi VG. Í öðru lagi virðist hún loks horfast í augu við þá staðreynd að strætó hefur tapað stórt í keppninni við einkabílinn. Björk gerir því ekki lengur kröfu um að menn noti strætó í staðinn fyrir bíl eða jafnvel bíl númer tvö á heimili heldur segir hún baráttuna standa á milli þess hvort á heimili sé bætt við þriðja bílnum eða menn taki strætó.

Þessi uppgjafarræða þegar nýtt leiðakerfi strætisvagnanna er kynnt segir sína sögu um stöðu strætisvagnanna. Því miður er það orðið þannig að menn nýta þessa þjónustu einungis í algjörri neyð. Skattgreiðendur á höfuðborgarsvæðinu greiða 4 milljónir á dag með rekstri strætisvagnanna og því er gjaldskrá vagnanna engin fyrirstaða fyrir þá sem vilja nota þá. Fullorðinn einstaklingur sem fer 40 ferðir á mánuði til og frá vinnu greiðir aðeins 88 krónur fyrir hverja ferð eða 3.500 á mánuði. Í samanburði við rekstur á bíl er slíkur kostnaður hlægilegur. Það kostar 42 þúsund krónur að nota strætó allt árið. Sú fjárhæð hrekkur fyrir tveimur smurningum og bifreiðagjöldum af venjulegum fjölskyldubíl. Það er svona tvítugfalt dýrara að eiga bíl en nota strætó. En ástæðan fyrir þessum mikla mun á kostnaði er ekki aðeins rausnarskapur skattgreiðenda við strætó.

Á meðan skattgreiðendur styðja svo rausnarlega við bakið á strætisvagnafarþegum eru bíleigendur skattpíndir, hvort sem er við kaup á bílnum sjálfum eða við rekstur hans. Aðeins áfengi og tóbak bera hærri skatta en bílar og eldsneyti. Það er því eitthvað allt annað en kostaður sem ræður því hvort menn nota bíl að strætó.

Reykjavík er alltof dreifð borg til að bera tíðar strætisvagnaferðir. Hún er raunar svo dreifbýl að það er ekkert útlit fyrir að strætó eigi sér viðreisnar von þótt útsýnið verði tekið af íbúum Laugavegar og nágrennis með því að byggja fleiri háhýsi við Skúlagötuna eða byggt verði á einhverjum opnum svæðum í grónum hverfum. R-listinn er búinn að tala um að þétta byggðina frá því hann gaf fyrst kost á sér við stjórn borgarinnar árið 1994 en engin þétting hefur átt sér stað. Fjölgun íbúa í borginni á valdatíð R-listans samsvarar íbúafjölda þeirra nýju hverfa sem hafa risið á sama tíma. Þessi lága ferðatíðni strætisvagnanna þýðir að menn verða alltaf fljótari í förum með einkabíl. Þegar við ferðir til og frá vinnu bætast svo innkaupaferðir og ferðir eftir börnum á leikskóla og í tómstundir er ekki að undra að menn kjósi „einkabílismann“. Er það misnotkun á einkabílnum að nota hann þannig að menn eigi eina eða tvær klukkustundir á dag með fjölskyldunni umfram það sem menn gætu vænst notuðu þeir strætó?

Að sætta sig við þjónustu strætó er eins og að sætta sig við að mega aðeins fara á Netið eða nota síma á heila og hálfa tímanum og þurfa þá jafnframt að fara í regnfrakka og bomsur.