Fimmtudagur 14. júlí 2005

195. tbl. 9. árg.

Ínýjasta tölublaði Gestgjafans er fjallað stuttlega um samtök sem nefnast Slow food, og hafa þann tilgang „að hlúa að menningarlegum matvælum og varna því að sönn bragðgæði hverfi í hraða nútímans“. Meðal þess sem samtökin standa fyrir er verkefni sem hefur verið nefnt „bragðörkin“, og er ætlað til þess að safna saman matvælategundum sem þykja einkennandi fyrir tiltekin menningarsvæði og forða þeim þannig frá gleymsku. Mikið mun fara fyrir ostum í örk þessari en ostamenningu Evrópu mun nú ógnað svo um munar. Og af hverju skyldi það vera? Í Gestgjafanum segir:

Mörgum er eflaust kunnug barátta Slow Food í þágu ostagerðar í Evrópu en ströng löggjöf um ofurhreinlæti hefur komið verulega niður á bændum og minni framleiðendum í þessari atvinnugrein. Löggjöf flestra Evrópulanda hefur t.d. gert kröfu um gerilsneyðingu allrar mjólkur sem notuð er til ostagerðar. Hefðu þessar reglur náð fyllilega fram að ganga hefði ostaframleiðsla í sveitum landa Evrópu líklega algerlega lagst af en ostar eins og camenbert, gorgonzola, parmesan og fleiri eru allir, í sinni upprunalegu og bestu mynd, framleiddir úr hrámjólk, þ.e. ógerilsneyddri mjólk. Bestu ostarnir eru framleiddir í litlu magni, við náttúruleg skilyrði, samkvæmt aðferð sem á sér hefð langt aftur í aldir í viðkomandi löndum. Hér er um hreint handverk að ræða. Þróun undanfarinna ára hefur staðið litlum ostagerðum fyrir þrifum og margar þeirra hafa hreinlega lagst af, sælkerum til mikilla vonbrigða. Heimildaöflun Slow Food árið 2000 leiddi t.d. í ljós að skrásettum ostategundum á Ítalíu hafði fækkað úr 400 í rétt rúmlega 100 á 10-15 árum!

Það eru sem sagt boð og bönn mannanna sem koma hér við sögu. Auðvitað má vel vera að einhver framleiðsla hefði einnig lagst af þó ekki hefðu verið settar strangari reglur, en þessi frásögn er engu að síður athyglisverð. Það er alltaf verið að setja nýjar og nýjar reglur, fólki til verndar. Barnfóstruþjóðfélagið færir stöðugt út kvíarnar. Og flestar þessar reglur auka kostnað fyrirtækjanna sem svo leiðir til leiðinda eins og hækkaðs vöruverðs, minni framleiðslu, minni ábata, minni vöruþróunar, minni launagreiðslna og svo framvegis. En allar eiga þessar reglur að vera „neytandanum“ í hag. Hér heima hefur Samkeppnisstofnun ætt í fyrirtæki og sektað þau um hundruð þúsunda fyrir að vera ekki með nægilega marga verðmiða við útstillingar. Enginn hefur þó heyrt um kaupanda sem hefur neyðst til þess að kaupa vöru án þess að geta fengið að vita um verð hennar. Heilbrigðisgjöld eru lögð á íslensk fyrirtæki, ekki síst í Reykjavík – sveitarfélaginu þar sem yfirvöld hafa sérstaklega lofað að „lækka gjöld á borgarbúa“ – og auðvitað hafa þau sín áhrif á verðlag, og þannig mætti áfram telja.

Hvernig væri nú að menn hugsuðu aðeins sinn gang, næst þegar lögð er til ný verndarregla. Veltu jafnvel fyrir sér hvort ástæða sé til að bæta enn við barnfóstruhlutverk hins opinbera. Hvort enn hafi fundist svið þar sem fagmenn þurfa að hindra borgarann í að fara sér að voða.