Miðvikudagur 13. júlí 2005

194. tbl. 9. árg.

Ífasteignablaði Morgunblaðsins er eitt og annað hnýsilegt milli auglýsinganna. Nú í vikunni var þar til dæmis opnugrein um hús sem í opinberum plöggum nefnist Garðastræti 15, en Unuhús í daglegu tali og kennt við Unu Gísladóttur sem þar réði ríkjum fyrstu áratugi síðustu aldar og seldi gistingu og hafði menn í kosti við vægu verði, svo sem frægt er í bókmenntasögunni. Þar voru skáld og listamenn tíðir gestir, í bland við aðra sem voru jafnvel enn minni borgunarmenn, og hafa mörg skáldanna launað Unu greiðann með því að geta hennar að góðu í verkum sínum. Sonur hennar, Erlendur og jafnan kenndur við hús móður sinnar, hefur einnig fengið inni í bókmenntasögunni og þá ekki síst fyrir tilverknað Halldórs Kiljans Laxness sem hafði margt um hann að segja dauðan, eða þá Þórbergs Þórðarsonar sem þekkti vel bæði Erlend og Unuhús, og færði auk þess í letur minningar Stefáns skálds frá Hvítadal um þennan tíma og nefnist Í Unuhúsi. Blaðamaður Morgunblaðsins getur þess réttilega að bæði Halldór og Þórbergur hafi verið tíðir gestir í Unuhúsi og vitnar í skrif þeirra. En þegar kemur að skrifum þeirra félaga um Unuhús, þá verður margt forvitnilegt og umfram það sem Morgunblaðið nefnir.

Morgunblaðið vitnar í Skáldatíma Halldórs Laxness, en í honum er Erlendi helgaður kafli, og endurminningabókina Sjömeistarasöguna, þar sem Halldór segir af sínum fyrstu kynnum af húsinu. Það sem Morgunblaðið hefur eftir Þórbergi er hins vegar allt tekið úr áðurnefndum minningum Stefáns frá Hvítadal, Í Unuhúsi, sem er hin skemmtilegasta bók vel að merkja. En Þórbergur Þórðarson hefur skrifað fleira sem kemur Unuhúsi, Erlendi og Halldóri Kiljan Laxness við. Eins og áður segir, þá fjallar einn kafli Skáldatíma um Erlend Guðmundsson. Það sem hins vegar er áhugavert er að sá kafli vakti ekki meiri ánægju Þórbergs, sem vel þekkti bæði Erlend og Unuhús, en svo að hann skrifaði 30 blaðsíðna ritgerð honum til andófs. Mótmælti hann þar fjölmörgu í orðum Halldórs sem hreinum rangfærslum. Ekki verður fjallað um þau atriði sérstaklega hér og nú, en í niðurlagi ritgerðar sinnar segir Þórbergur Þórðarson:

Ég hef ekki lagt í vana minn að skrifa um bækur, hef unnið það hofróðuverk aðeins tvisvar sinnum á ævinni, ef ég man rétt. En þegar ég las kapítula Halldórs í Skáldatíma um Erlend og móður hans, rann mér svo í skap, að ég gat ekki haldið aftur af mér. Þar óð uppi svo margt, er gerði mér gramt í geði sem gömlum stórvini Unuhúss og kunningja sannleikans: ónákvæmni, ósannsögli, leiðinleg tilgerð og ankannaháttur, að því litla ógleymdu, að Erlendur er gerður í aðra röndina að flóni, honum lýst sem pólitísku viðrini og allt að því glæpamanni og við hann skilið minni og leiðinlegri mann en hann var. Þetta er að sönnu ekki gert í því skyni vísvitandi að minnka Erlend og afflytja, eins og ég hef áður vikið að. Hér eru að verki annars konar vankantar höfundarins, sem hann virðist varla vera sér vitandi eða ekki vilja viðurkenna fyrir sjálfum sér, kannski óviðráðanlegir. Þess vegna verður útkoman svona afkáraleg. Ég hef ekki lyst til að fara lengra út í þá sálma. En sem gamall Unuhússmaður og vinur Erlends, vildi ég gera það, sem ég gæti, til þess að koma í veg fyrir að þessi samsetningur í Skáldatíma rótfestist í hugum fólks og yrði þeim að tálbeitu, er síðar meir kynnu að skrifa um Unuhús og þau mæðgin Erlend og Unu, þó að segja mætti kannski, að kapítulinn beri sjálfum sér nægilegt vitni, því að hann er í heild ekki vel skrifaður, hroðvirknislega saman tekinn og einhvernveginn rýr í roðinu og ber ekki á enni sér aðalsmark sannsöglinnar. Ennfremur er frásögninni spillt með pólitísku masi, sem að miklu leyti er utangátta við meginþráðinn.

Hér er auðvitað rétt að hafa í huga, að á þessum tíma var Þórbergur ósáttur við Halldór sem hafði í sömu bók loksins snúið við blaðinu og tekið afstöðu gegn áður sameiginlegum vini þeirra Þórbergs, Jósef heitnum Stalín. Vel má vera að það hafi hert Þórberg í gagnrýninni á frásagnir Halldórs af Erlendi og Unuhúsi. Það breytir ekki því, að ritgerð Þórbergs er hin athyglisverðasta á sinn hátt, enda þekkti hann ekki síður en Halldór til umfjöllunarefnisins.

En þessar hugleiðingar leiða yfir í aðrar. Halldór Kiljan Laxness lét stundum í ljós þá skoðun að setja bæri fegurðina ofar öllu. Sú krafa hans skýrir að einhverju leyti margt sem hann segir svo vel í skáldverkum sínum; krafan um hinn góða texta ber margan ávöxt í skáldverkum Halldórs Kiljans Laxness. En sú krafa kann að hafa farið illa með margt sem hann skrifaði um raunverulegri efni. Raunverulegri í þeirri merkingu að þar var fjallað um raunverulegar aðstæður og atburði en ekki atvik og persónur skáldverksins sem lúta ekki öðrum lögmálum en skáldinu detta í hug hverju sinni. Í skáldsögunni ræður höfundurinn öllu; hvað persónur gera og segja og hvers vegna þær gera það. Þegar hann fjallar svo um raunveruleg efni, þá getur krafa hans um góðan texta, eftirminnilegar setningar og svo framvegis, haft heldur slæm áhrif á niðurstöðurnar. Þetta getur verið ein skýring þess, hversu algengt það virðist vera að mönnum, sem geta skrifað frumlegar og oft skemmtilegar skáldsögur, virðast gersamlega mislagðar hendur þegar þeir taka til máls um þann raunveruleika sem ekki er innan bókaspjaldanna. Þann raunveruleika þar sem skáldunum virðist stundum gleymast að þau geta ekki ákveðið hvað snýr upp og hvað niður, hvað hefur gerst og hvers vegna. Raunveruleika þar sem fleiri kröfur eru gerðar til málavaxtalýsinga en að fegurðin skuli ríkja ein.