Þriðjudagur 12. júlí 2005

193. tbl. 9. árg.
Fylgisaukning Sjálfstæðisflokksins verður ekki með því að leggja áherzlu á hægrisinnuð stefnumál í stjórnmálum. Hún verður einungis með því að leggja áherzlu á að ná til kjósendanna á miðjunni.
Það er alveg sérstaklega unga fólkið í Sjálfstæðisflokknum sem þarf að átta sig á þessum veruleika. Sá hópur hefur um nokkuð langt skeið horft til hægri en mun ekki ná árangri í borgarstjórnarkosningum með því.
– leiðari Morgunblaðsins 10. júlí 2005 um stöðu stjórnmála í Reykjavík.

Vefþjóðviljinn hefur áður sagt og þykir sjálfsagt að endurtaka það hér að nú um stundir er Morgunblaðið öflugasta miðstöð sósíalískrar hugmyndafræði á Íslandi. Það kemur ekki síst til af því að blaðið nýtur þess enn í hugum margra að hafa staðið vaktina í Kalda stríðinu. Frá því þeim deilum lauk er leitun að meiri háttar máli þar sem blaðið hefur ekki tekið afstöðu með ríkinu gegn einstaklingnum, með eyðendum gegn greiðendum, með reglum gegn frelsi og með sköttum en gegn skattalækkunum.

Í fyrrnefndum leiðara frá því á sunnudaginn er Sjálfstæðisflokknum ráðlagt að leggja í leiðangur til vinstri, yfir á miðjuna. Aðeins þannig geti flokkurinn náð til kjósenda. Kjósendur séu flestir á miðjunni og það verði „enginn meirihluti sjálfstæðismanna í borgarstjórn til nema þeim kjósendum sé sýnd full virðing.“

Líklega er leiðarahöfundur Morgunblaðsins þó ekki að miðla af eigin reynslu af vinstri beygjum því eftir að blaðið tók sveig inn á miðjuna og yfir til vinstri hefur það gerst að blaðið er ekki lengur stærsta eða víðlesnasta blað landsmanna. Kannski var lesendum ekki sýnd full virðing þegar blaðið tók vinstri beygjuna á rauðu ljósi á sama tíma og formenn þáverandi vinstriflokka.

Sú spurning hlýtur einnig að vakna við lestur leiðarans hvort grundvallarhugmyndir í stjórnmálum skipti engu máli lengur. Eiga stjórnmálaflokkarnir bara að hlaupa þangað sem þeir ímynda sér að kjósendur séu óháð því hvaða stefnu þeir taka á leiðinni? Lengst af voru stjórnmálaflokkar á Íslandi stofnaðir um hugsjónir sem menn ætluðu sér að vinna fylgi. Sá flokkur sem hafði skýrasta stefnu í upphafi og hefur lengstum haldið í grundvallarþætti hennar, að minnsta kosti í orði, hefur verið stærsti flokkur þjóðarinnar frá stofnun sinni. Í síðustu tvennum kosningum, ekki síst í kosningunum á síðasta ári, hefur verið gerð tilraun með að fara alveg öfuga leið að þessu. Samfylkingin ætlaði sér að verða stór flokkur með því að hlaupa á eftir skoðanakönnunum í stað þess að eyða tíma og orku í að sannfæra kjósendur um ákveðna stefnu.

Morgunblaðinu getur bara ekki verið alvara að halda því fram að þeir flokkar sem reyna að standa við stefnu sína séu að sýna kjósendum lítilsvirðingu á meðan flokkar sem blakta eins og strá í vindi sýni kjósendum sérstaka virðingu. Og Morgunblaðið virðist gera ráð fyrir að frambjóðendur séu almennt rúnir sjálfsvirðingu og það sé bara ekkert mál fyrir þá að taka nýja stefnu ef það færir þeim fleiri atkvæði. Vefþjóðviljinn vonar að minnsta kosti að enn séu til frambjóðendur sem þyki skárra að tapa undir eigin merkjum en að sigra með stefnu annarra.

Síðast en ekki síst verður Morgunblaðið að skýra það betur út fyrir unga fólkinu í Sjálfstæðisflokknum og öðrum áhugamönnum um afdrif flokksins í borgarstjórnarkosningum hvers vegna blaðið vill að flokkurinn beiti sömu aðferðum næsta vor og árið1994, 1998 og 2002. Í öllum þessum kosningum seildist flokkurinn óravegu inn á miðjuna; tók þátt í eyðsluloforðakeppni við R-listann í stað þess að marka sér skýra stöðu til hægri. Auðvitað og eðlilega hafði R-listinn betur í þeirri keppni. Þegar allt kemur til alls eru vinstri flokkarnir trúverðugri vinstriflokkar en Sjálfstæðisflokkurinn.