Mánudagur 11. júlí 2005

192. tbl. 9. árg.

Undanfarið hefur nokkuð verið rætt um dóma í refsimálum, þar sem menn hafa verið dæmdir fyrir að brjóta gegn eiginkonum sínum og hafa brotin verið frá vægri líkamsárás og upp í það sem ekki þarf að rekja hér, en dæmt var fyrir í síðustu viku. Í dómum þessum var á ýmsan hátt litið til þess sem talið var liggja fyrir um forsögu glæpanna, um fyrri samskipti hjónanna og svo framvegis, og þau atvik talin sakborningunum til vissra málsbóta, þó aldrei hafi þau orðið til þess að þeir hafi verið sýknaðir eða brot þeirra á nokkurn hátt verið talin réttlætanleg. Þessir dómar hafa töluvert verið gagnrýndir, ekki síst af baráttusamtökum kvenna sem hafa látið stór orð falla um það sem þær telja vera viðhorf og „skilaboð“ dómskerfisins. Það nýjasta í umræðunni var að lögmaður einn lýsti því yfir um helgina að viðhorfin væru „karllæg“, hvað svo sem það merkir nú.

Áður en lengra er haldið vill Vefþjóðviljinn taka fram, að hann hefur enga sérstaka skoðun á efnisatriðum þeirra refsimála sem í fréttum hafa verið undanfarið. Blaðið treystir sér ekki til að láta í ljós skoðun á því hvort hinir sakfelldu menn hafi átt sér málsbætur eða þá hversu mjög slíkar málsbætur hefðu átt að hafa áhrif á refsiákvörðun. Hitt vill blaðið segja, að það þarf ekki að vera óeðlilegt þó að litið sé forsögu og annarra atvika þegar refsing er ákveðin. Hér verður að greina á milli ákvörðunar um sakfellingu og svo ákvörðunar um refsingu. Þó sagt sé að eitthvert atriði geti haft áhrif á refsiákvörðunina þá er ekki þar með sagt að það hafi nokkur áhrif á ákvörðun um sakfellingu. Eitt er að ákveða hvort maður sé sekur eða saklaus af ákæru. Sé hann sekur, þá tekur við önnur ákvörðun um það hvaða viðurlögum hann skuli sæta og þessu má ekki blanda saman.

Það er ekki einungis að það geti verið eðlilegt að líta til forsögu glæpsins við refsiákvörðun, það getur verið óeðlilegt að gera það ekki. Ætti til dæmis að taka eins á tveimur konum sem verða manni sínum að bana, ef annar eiginmaðurinn hefur alla tíð verið ágengur hrotti, drukkið illa og mikið, og verið á allan hátt hinn erfiðasti í sambúð – en hinn algert ljúfmenni sem ekkert hefur séð mikilvægara en hamingju eiginkonunnar? Mætti ekki líta svo á að fyrri konan hefði einhverjar málsbætur? Auðvitað ætti að sakfella þær báðar og refsa þeim báðum, en eru menn virkilega tilbúnir til þess að segja að ekki megi líta á forsögu glæpanna þegar sú refsing er ákveðin? Kvennahreyfingarnar vilja það greinilega ekki, því þær segja að með því sé verið að „senda þau skilaboð“ að það sé bara allt í lagi að myrða maka sína ef þeir eru leiðinlegir. Kvennahreyfingarnar segja að með því að líta á einhverja forsögu og virða hana til málsbóta, þá sé verið að gera lítið úr alvarleika ofbeldis, en ofbeldi eigi aldrei neina réttlætingu. Að vísu hefur þetta sjónarmið þeirra hingað til aðeins komið þegar karlmenn hafa verið ákærðir og dæmdir, en auðvitað er engin ástæða til að ætla að þær yrðu annarrar skoðunar ef hlutverk snerust við.

Og auðvitað hafa konur notið forsögu glæpa, rétt eins og karlar, og mætti vel rekja dæmi um það, jafnvel í manndrápsmálum, að örvinglan yfir döpru heimilislífi hafi verið virt ákærðum konum til refsilækkunar, og við það er ekkert að athuga. Þó réttvísin eigi að vera blind, þá á hún ekki að vera svo vélræn og skilningslaus að hún líti á engan hátt til þess hvað það er sem kann að hafa fengið fólk til óhæfuverka. Þó ábyrgðin verði vitaskuld að vera hjá hinum brotlega.

Auðvitað er ekkert við það að athuga að fólk ræði dóma og refsimál opinberlega. Það sem er hins vegar lakara, er sú tilhneiging sem virðist ágerast upp á síðkastið, að menn reyni að nota fjölmiðla og skipulagt almenningsálit til þess að hafa áhrif á niðurstöður dómsmála, hvort sem er til þess að reyna að þrýsta á sýknu eða sakfellingu. Niðurstöður dómsmála eiga að ráðast í dómsölum en ekki fjölmiðlum og af því sem upplýst er í málunum en ekki af því sem baráttumenn eða spunameistarar geta matreitt í fjölmiðlum.