Fimmtudagur 16. júní 2005

167. tbl. 9. árg.

Hópur samtaka, þeirra á meðal nokkur heildarsamtök launafólks, tilkynnti í gær að hann ætli sér að styðja Mannréttindaskrifstofu Íslands til starfa á þessu ári. Þetta segjast samtökin gera vegna þess að ríkið hafi dregið úr stuðningi við stofuna. Samtökin ættu þó ekki að hafa áhyggjur af þessu því Íslandsdeild Amnesty International á aðild að Mannréttindaskrifstofu Íslands. Amnesty International telur það mikið grundvallaratriði að þiggja ekki ríkisstyrki. Það er skiljanlegt enda ætla samtökin sér að veita stjórnvöldum aðhald. Það liggur í augum uppi að það gæti reynst snúið ef þau eru á framfæri þessara sömu stjórnvalda.

Er það þá ekki fagnaðarefni að félagasamtök eins og verkalýðshreyfingin ætli sér að styðja Mannréttindaskrifstofu Íslands í stað ríkisins? Jú það væri hægt að taka undir það ef félög eins og Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna og Kennarasamband Íslands væru ekki fjármögnuð að mestu leyti með skylduaðild og nauðungargreiðslum. Fæstir félagsmanna þessara samtaka hafa verið spurðir álits á því hvort þeir kæri sig um að vera félagar. Félagafrelsi, frelsi til að ganga í og úr félögum, hefur hingað til verið talið til mannréttinda. En kannski er það að breytast því í ályktun frá samtökunum segir að vegna hraða og spennu í þjóðfélaginu þurfi að skilgreina mannréttindi upp á nýtt út frá „eðlilegum lífskjörum“.

Í hröðum þjóðfélagsbreytingum og miklum flutningum fólks milli landa er brýnt að skilgreina mannréttindi með þeim hætti að hverjum og einum séu tryggð eðlileg lífskjör og lífsskilyrði.

Sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvers vegna félög sem eru svo áhugasöm um mannréttindastarf telji félagafrelsi ekki til mannréttinda. Það hlýtur einnig að orka tvímælis fyrir Mannréttindaskrifstofu Íslands að taka við fé sem aflað er með því að taka félagafrelsi af stórum hluta launamanna. En það hefur svo sem ekki vafist fyrir stofunni að taka við ríkisstyrkjum þótt Amnesty leggist gegn því. Það verður svo ekki síst forvitnilegt að fylgjast með starfi Mannréttindaskrifstofu Íslands ef hún veitir framlagi verkalýðsfélaganna viðtöku. Ætli baráttan fyrir félagafrelsi verði ofarlega á blaði þegar skrifstofan verður orðin fjárhagslega háð því að nauðunginni sé við haldið?