Miðvikudagur 15. júní 2005

166. tbl. 9. árg.

Námskeið í „borgaralegu hugrekki“ var haldið á dögunum hjá „baráttuhópi“ sem heitir Náttúruvaktin. „Borgaralegt hugrekki“ er þýðing Náttúruvaktarinnar á því sem á ensku heitir civil disobedience og hefur hingað til réttilega verið þýtt borgaraleg óhlýðni. Í gær gerðist það svo að á ráðstefnu um ál sem haldin var á hóteli í Reykjavík gerðu þrír einstaklingar, einn Breti og tveir Íslendingar, árás á ráðstefnugesti og skvettu bæði yfir þá og innanstokksmuni grænu efni, sem talið er að hafi verið lituð vatnsþynnt mjólkurafurð. Í fréttum Ríkisútvarpsins var sagt frá því að fulltrúar frá Náttúruvaktinni hafi mótmælt ráðstefnunni við hótelið, en í yfirlýsingu frá „baráttuhópnum“ mun hafa komið fram að hann hafi ekkert haft með græna vökvann að gera. „Jafnframt segir í bréfinu að Náttúruvaktin voni að efnið hafi verið umhverfisvænt,“ og má því augljóst vera að „baráttuhópurinn“ tekur þessa innrás þremenninganna mjög alvarlega og þykir illt að baráttan skuli hafa þróast út í árásir á saklausa ráðstefnugesti.

Borgaraleg óhlýðni getur átt fyllilega rétt á sér við ákveðnar aðstæður, sérstaklega ef að stjórnvöld misbeita valdi sínu og borgurunum er meinað að hafa áhrif á stjórnvöld eða koma skoðunum sínum á framfæri. Þá geta mótmæli með áberandi en friðsamlegum hætti verið eina úrræðið og má vísa til ýmissa aðgerða sem gripið hefur verið til í harðstjórnarríkjum í þessu sambandi. Borgaraleg óhlýðni á hins vegar ekkert skylt við þá iðju að ráðast á almenna borgara og skaða þá sjálfa eða skemma eigur þeirra. Það að hópur manna hafi orðið undir í stjórnmálaátökum um tiltekið mál gefur honum engan rétt til að ráðast gegn öðrum borgurum sem ekkert hafa til saka unnið annað en að nýta rétt sinn til athafna lögum samkvæmt. Þeir sem telja sig geta unnið skemmdarverk á eigum annarra borgara eða unnið þeim mein í nafni borgaralegrar óhlýðni eru á villigötum. Þeir menn sem haga sér með þessum hætti eru skemmdarvargar eða þaðan af verra og geta ekki búist við því að verða meðhöndlaðir sem hugsjónamenn eða hugrakkir borgarar.

Náttúruvaktin svokallaða hefur auglýst að til standi að slá upp alþjóðlegum tjaldbúðum við Kárahnjúka síðar í þessum mánuði og að þær muni „verða vettvangur fyrir fólk að koma á framfæri mótmælum sínum við virkjunarframkvæmdirnar“. Ólafur Páll Sigurðsson var í Spegli Ríkisútvarpsins á dögunum kynntur sem einn af skipuleggjendum tjaldbúðanna. Þar sagði hann meðal annars: „ Ja, þetta er auðvitað allt óttalega friðsamlegt og meinlaust en við jú jú við munum kannski ef við erum í skapi til þess þvælast eitthvað fyrir, en auðvitað reyna að gæta þess að skapa ekki einhverja sérstaka hættu.“ Þessi sami Ólafur Páll var einn þremenninganna sem sletti græna vökvanum í gær og í ljósi þess geta menn svo velt því fyrir sér hvað það þýðir að þetta verði allt „óttalega friðsamlegt og meinlaust“ en að mótmælendur muni kannski „þvælast eitthvað fyrir“. Og það er ef til vill líka ákveðin vísbending um það hvernig námskeið Náttúruvaktarinnar í „borgaralegu hugrekki“ gengur fyrir sig að á dögunum var í frétt Stöðvar 2 rætt við Paul Gill, breskan atvinnumótmælanda, sem kenndi á námskeiðinu hér, og Örnu Ösp Magnúsardóttur, sem var í fréttinni kynnt til sögunnar sem „hugrakkur borgari“, en þau voru hinir þátttakendurnir í árásinni á ráðstefnugestina í gær. Eiga menn svo að trúa því að skipuleggjendur tjaldbúðanna við Kárahnjúka ætli sér að þar verði allt „óttalega friðsamlegt og meinlaust“?

En hvernig er það nú ef að mótmælendurnir láta sér nægja að þvælast bara fyrir en stunda engin skemmdarverk eins og þremenningarnir gerðu í gær? Er allt í lagi að þvælast bara fyrir? Nei, vitaskuld ekki. Menn hafa enga heimild til að þvælast fyrir þeim sem stunda fullkomlega lögmæta starfsemi og breytir þar engu þó að þeir gangi undir fánum meintrar umhverfisverndar. Menn mega vitaskuld mótmæla en þeir verða að gera það án þess að skaða lögmæta hagsmuni annarra.