Þriðjudagur 14. júní 2005

165. tbl. 9. árg.

Vefþjóðviljann langar að spá örlítið fyrir um framtíðina. Nánar tiltekið um áramótapistla formanna stjórnarandstöðuflokkanna í Morgunblaðinu um næstu áramót. Þá um áramótin heldur tekjuskattur einstaklinga áfram að lækka vegna lækkana á hlut ríkisins í skattinum. Reykjavíkurborg er búin að hækka útsvarið upp í topp svo að óbreyttum lögum getur hún ekki tekið skattalækkunina af mönnum með því að hækka útsvarið eins og hún hefur gert svo oft á undanförnum árum. En í pistlum leiðtoga stjórnarandstöðunnar verður þetta helst.

Tekjuskattslækkuninni sem verður 1% almenn lækkun munu þeir lýsa svo:

1. Skattalækkunin er aðeins fyrir þá efnameiri.

2. Skattalækkunin er gerð á röngum tíma.

3. Skattalækkunin er gerð með röngum hætti.

4.  Skattalækkunin veldur þenslu af því einstaklingar fá að ráðstafa fjármunum í stað stjórnmálamanna.

5. Skattalækkunin veldur verðbólgu og viðskiptahalla.

6. Skattalækkunin vegur að rótum velferðarkerfisins því tekjur ríkisins skerðast.

7. Skattalækkunin er skattahækkun því tekjur ríkisins hafa aukist við fyrri skattalækkanir.

Ástæðan fyrir því að Vefþjóðviljinn telur sig geta sagt svo nákvæmlega fyrir um afstöðu Samfylkingarinnar og VG til lækkana á tekjuskattinum er ekki aðeins að þeir hafa alltaf haft þessa skoðun á skattalækkunum heldur einnig vegna þess að þessi afstaða vinstrimanna til skattalækkana er alþjóðlegt vandamál. Í The Wall Street Journal í gær segir Stephen Moore frá skattalækkunum ríkisstjórnar George W. Bush í maí 2003. Þá lækkaði skattur á arðgreiðslur og fjármagnstekjur úr 39,6% og 20% niður í 15%, Þá hófst sami söngurinn frá demókrötum um rangan tíma, ranga aðferð, veikingu velferðarkerfisins og allt væri þetta gert fyrir auðmenn. Nasdaq hefur vissulega hækkað um 39% og Dow Jones um 24% frá því þessar skattalækkanir voru gerðar. En skatttekjur alríkisins og einnig einstakra ríkja hafa einnig aukist.

Það er svolítið kaldhæðnislegt að á meðan mæður voru einar um að fá greiddar bætur í fæðingarorlofi voru þær um 60 þúsund krónur á mánuði. Þegar „kvenréttindasinnar“ kröfðust bóta til handa karlmönnum voru þær tekjutengdar þannig að hátekjumenn gátu fengið milljónir króna á mánuði í bætur fyrir að eignast börn. Þetta þótti „kvenréttindasinnum“ mikið grundvallaratriði og kerfið myndi alls ekki virka samfélagsverkfræðilega rétt án þess að hátekjumenn fengju 80% launa sinni í bætur á meðan þeir iðkuðu fæðingarorlof. Svo mikill varð fjárausturinn úr ríkissjóði vegna þessa mikla prinsipps að í fyrra var sett þak á hvað menn geta fengið í bætur. Þakið er nú 480 þúsund krónur á mánuði sem er áttfalt það sem konur fengu áður. Prinsippið mikla um að allir fái 80% launa sinna er hins vegar  fokið út í veður og vind.

Annað sem var ekki síður sérstakt við þá breytingu sem gerð var á fæðingarorlofskerfinu árið 2000 var að í stað þess að allar konur fengju sömu upphæð í styrk frá ríkinu var ákveðið að þær fengju styrkinn í hlutfalli við laun sín. Nú fá konur því allt frá 41.621 krónu, sem tekjulausum mæðrum utan vinnumarkaðar er lagt til, og upp í 480 þúsund krónur. Áður fengu allar mæður jafnt. Nú er nær tólffaldur munur á því sem þær sem fá minnst og mest fá. Breytingin var kölluð „jöfnun réttar til fæðingarorlofs“.