Það er mikilvægt fyrir konur, og ekki síst ungar stúlkur, að eiga sér heilbrigðar og sterkar fyrirmyndir. Það styrkir sjálfsmynd þeirra og hvetur þær til dáða. |
– Yfirlýsing, að því er sýnist vera undirrituð af Lýðheilsustofnun, birt í auglýsingum fyrir „Kvennahlaupinu“. |
Af hverju er alltaf verið að tala við og um konur eins og börn? Af hverju þurfa þær sérstakar „fyrirmyndir“? Eru þær alltaf að smáþroskast þangað til þær einn daginn útskrifast sem konur en þurfa þangað til heilbrigða fyrirmynd sem styrkir sjálfsmynd þeirra? Og hvað með karla, þurfa þeir fyrirmyndir? Þarf kona að hafa konu sem fyrirmynd? Getur karlmaður bara notað karlmann sem fyrirmynd? Er nóg að fyrirmyndin standi sig vel á sínu sviði eða sé á annan hátt eftirbreytniverð, eða þarf hún líka að vera af ákveðnu kyni? Ung stúlka sem vill ná langt í knattspyrnu, getur hún haft Eið Smára Guðjohnsen sem sína fyrirmynd? Eða verður hún að finna einhverja knattspyrnukonu sem sína fyrirmynd? Og ef konur verða að hafa konu sem fyrirmynd, eru þá víðtækari skilyrði kannski líka sett? Getur hávaxinn karlmaður kannski aðeins notast við hávaxna fyrirmynd, eða er það bara kynferðið sem skiptir máli? Snýst kannski flest um kynferði nú á tímum? Konur konur konur.
Kvennadellan sem veður uppi hér og hvar í landinu, er með hreinum ólíkindum. Það er sjálfsagt að bæði karlar og konur vilji að einstaklingarnir séu jafnir fyrir lögum, að sömu lög og reglur gildi um karlmenn og konur. En þegar því sleppir, þá eru málin komin út yfir það sem hið opinbera getur látið sig varða. Karlar og konur eiga til dæmis að hafa sama rétt til þess að setja á stofn atvinnurekstur og stýra fyrirtækjum sínum eða velja þeim stjórnendur. Enginn á hins vegar að eiga rétt á að setjast í stjórn fyrirtækis annars manns, án vilja eigandans, en kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja er einmitt gott dæmi um atriði sem hinu opinbera kemur ekki við. Einstaklingar mega auðvitað vera þeirrar skoðunar að fólk úti í bæ eigi að velja þennan en ekki hinn, eða öllu heldur þessa en ekki hinn, í stjórn fyrirtækja sinna, en það væri einhver yfirnáttúruleg frekja ef þeir teldu sig hafa nokkurn minnsta rétt til þess að skipta sér af slíkum hlutum, hvað þá hvetja til þess að um þá yrðu settar opinberar reglur.
Það má búa til fjarstæðukennt dæmi. Segjum að dagblað, jafnvel blað sem til langs tíma hefði almennt verið jarðbundið og skynsamlegt, tæki skyndilega upp á því að fjalla um „kynjamál“ daginn út og inn. Auðvitað hefði blaðið rétt á því að lýsa þeirri skoðun að fólk sem á fyrirtæki ætti ekki að skipa þá í stjórn sem það helst vill heldur notast við einhverja samsetningu sem ritstjórn þessa merka blaðs fyndist vera „réttlátari“. Þannig gæti blaðið auðvitað ráðist á eigendur fyrirtækja eins og Árvakurs hf. fyrir að kjósa aðeins eina konu í stjórn félagsins og enga konu í ritstjórn blaðsins, en flestir heilbrigðir menn hljóta að sjá að ef blaðið teldi sig hafa einhvern rétt í málinu, umfram eigendurna, að þá er eitthvað að. Það er að segja, þeir sem ljá máls á einhverjum þvingunaraðgerðum eða opinberum reglum um hlutföll í stjórnum fyrirtækja – hvort sem hlutföllin yrðu miðuð við kyn, útlit, boltameðferð eða önnur slík atriði – þeir menn ættu að setjast niður og endurmeta lífið og tilveruna.
Eins og áður segir þá þykir Vefþjóðviljanum sjálfsagt að karlar og konur hafi sama rétt til þess að hefja atvinnurekstur. Ætli þeir, sem hafa áhuga á hlutföllum kynja í stjórnum fyrirtækja, hafi sama áhuga á kynjahlutföllum á gjaldþrotaskrám? Ætli þeir hafi áhuga á kynjahlutföllum í þeim hópi sem tekur áhættuna af að fara út í atvinnurekstur og byggja upp fyrirtæki? Það getur kannski verið, en það veit Vefþjóðviljinn að ekki hefur hann áhuga á slíkum upplýsingum. Kynjahlutföll skipta frá almennu sjónarmiði ekki máli. Svo lengi sem réttur fólks er jafn, þá kemur það ekki öðrum við hvort og þá hvernig hver og einn nýtir sér hann. Hið opinbera á að veita fólki jafnan rétt og láta það svo afskiptalaust hvernig hver og einn lifir sínu lífi, jafn lengi og hann gengur ekki á betri rétt annarra.