Föstudagur 17. júní 2005

168. tbl. 9. árg.

Í Morgunblaðinu í gær var prýðileg viðhorfsgrein eftir Kristján Jónsson blaðamann. Greinin hefst á þessum orðum: „Líklega skiptir engu hve oft er bent á að það sem helst geti lyft íbúum bláfátækra landa upp úr eymdinni sé á endanum lýðræði og kapítalismi. Öll reynsla sýnir að ef til er meginregla í ringulreiðinni er hún að réttarríkið, kosningar, frjálst framtak einstaklinga og mikil viðskipti við umheiminn eru yfirleitt skilvirkasta leiðin fram á við. En við eigum samt eftir að heyra áfram ótölulegan fjölda yfirlýsinga um að það sé bara skepnuskapur auðhringanna, áþján nýlenduherranna í gamla daga eða eitthvað annað sem valdi misskiptingu auðs milli þjóða í heiminum.“ Þessi ábending Kristjáns um það hvað gagnast íbúum bláfátækra landa best er afar þörf því að mikils misskilnings gætir víða um þessi mál. Og það þarf ekki að leita lengi eða víða að dæmi um slíkan misskilning, því að hann er að finna – einnig í gær – í viðskiptablaði Morgunblaðsins, sem leggur tæplega hálft blaðið undir afar sérkennilega umfjöllun um hnattvæðingu.

Í umfjöllun viðskiptablaðs Morgunblaðsins er stuttlega vikið að því að hugsanlegt sé, og að einhverjir álíti, að hnattvæðing, það er að segja aukin viðskipti á milli landa, geti verið jákvæð fyrir íbúa fátækari ríkja veraldar. Þó að á þetta sé minnst eru þær efasemdir sem settar hafa verið fram um hnattvæðinguna og afleiðingar hennar í algeru aðalhlutverki. Gagnrýnendur hnattvæðingar fá nær allt rýmið, en sjónarmiðum annarra er nánast enginn gaumur gefinn. Engin alvöru tilraun er gerð til að útskýra hvað valdi því að sum ríki séu efnuð og önnur fátæk, aðeins látið nægja að rifja upp gamlar og gagnslausar klisjur, svipaðar þeim sem að Kristján Jónsson varaði við í viðhorfspistli sínum. Sem dæmi má nefna að ekki er minnst á fyrirbæri á borð við eignarrétt, þó að fullyrða megi að vel skilgreindur eignarréttur sé ein meginforsenda þess að fátækustu ríkin geti brotist til bjargálna. Þetta er engin einkaskoðun Vefþjóðviljans því að um þetta hefur verið mikið fjallað. Allir þeir sem kynna sér umræður um fátæk ríki hljóta að verða varir við þessi sjónarmið, en höfundum umfjöllunar viðskiptablaðs Morgunblaðsins tókst að leiða þau hjá sér.

Nú má vera að höfundar þessarar umfjöllunar Morgunblaðsins og aðrir þeir sem efast um kosti frjálsrar verslunar í heiminum telji sig ekki þurfa að taka við ráðleggingum frá Vefþjóðviljanum eða kollega sínum Kristjáni. En hver veit nema efasemdamenn hugsi sig aftur um – þó ekki væri nema í tilefni dagsins – ef að vitnað er í orð Jóns Sigurðssonar forseta, sem taldi frjálsa verslun grundvöll framfara og velgengni mannkynsins, eins og hann orðaði það. Hann sagði einnig: „Ekkert land í veröldinni er sjálfu sér einhlítt, þó heimska mannanna hafi ætlað að koma sér svo við, að það mætti verða, en ekkert er heldur svo, að það sé ekki veitanda í einhverju og geti fyrir það fengið það, sem það þarfnast. En þegar það getur fengið það, og það veitir einmitt verzlanin þá er það eins og það hefði sjálft þessi gæði. Þegar nú verzlanin er frjáls, þá leitar hver þjóð með það, sem hún hefir aflögu, þángað sem hún getur fengið það, sem hún girnist, eða hún færir einni þjóð gæði annarrar“.

Hnattvæðing og fátækt eru hvort tveggja verðug umfjöllunarefni fjölmiðla og mikið er í húfi að sú umfjöllun sé skynsamleg og stuðli að umbótum sem raunverulega verða til gagns, ekki síst hinum fátækustu. Lítið gagn er hins vegar í umfjöllun af því tagi sem viðskiptablað Morgunblaðsins bauð upp á í gær því að hún bætti engu við þá brengluðu mynd sem alls kyns öfgahópum – með hjálp sumra fjölmiðla, sérstaklega þeirra sem lifa á æsingafréttum – hefur tekist að draga upp á síðustu árum.