Föstudagur 10. júní 2005

161. tbl. 9. árg.

Morgunblaðið er ein helsta uppspretta sósíalískrar hugmyndafræði á Íslandi um þessar mundir. Hvorki verkalýðsfélögin með sína nauðungaraðild né vinstriflokkarnir, Samfylking, Frjálslyndi flokkurinn og VG, áorka öðru eins í baráttunni gegn frjálsum markaði og fyrir auknum ríkisafskiptum og Morgunblaðið. Ef til vill þykir einhverjum Vefþjóðviljinn taka djúpt í árinni með þessum orðum en hann telur sig hafa fullt tilefni til þess. Það sem gerir Morgunblaðið ekki síst að svo skæðum liðsmanni sósíalismans, umfram vinstriflokkana, er að blaðið siglir undir fölsku flaggi. Margir eiga auðvitað bágt með að trú því að blaðið hafi tapað áttum með þessum hætti og það nýtur þess enn að hafa verið réttu megin hryggjar í Kalda stríðinu.

Þetta byrjaði líklega allt með afstöðu blaðsins gegn einkaeignarrétti og frjálsum markaði við nýtingu fiskimiðanna fyrir um 15 til 20 árum. Blaðið hefur á þessum tveimur áratugum farið hamförum gegn séreignarrétti og frjálsum viðskiptum með aflaheimildir. Bæði í ritstjórnarskrifum og fréttaflutningi. Stefna blaðsins hefur verið að ríkið taki að sér lykilhlutverk í mikilvægasta atvinnuvegi Íslendinga og útgerðarmenn verði leiguliðar ríkisins.

Fyrsti pistillinn sem birtist hér í Vefþjóðviljanum fyrir rúmum átta árum var raunar um það hvernig Morgunblaðið hagaði sér á þeim tíma gagnvart frjálsum viðskiptum í sjávarútveginum.

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Moggans að hann hefur farið hamförum síðustu misseri í umfjöllun sinni um fiskveiðistjórnunarmál. Hann lætur ekkert færi ónýtt til að reyna að skjóta rökum undir þá skoðun sína að nauðsyn sé að hækka skattbyrði í landinu með því að koma hér á veiðileyfagjaldi. Svo langt er gengið í áróðrinum að hósti einhver bæjarstjórn á Vestfjörðum gegn kvótakerfinu er því slegið upp á síðu 2, rétt eins og sú afstaða þeirra Vestfirðinga sé fréttnæm.

Eftir að hafa alið á öfund og öðrum illindum í öll þessi ár uppskar blaðið loks nokkurn árangur af erfiði sínu árið 2003 þegar lagður var sérstakur skattur á veiðiheimildir. Sama ár var kosið til Alþingis. Öllum að óvörum urðu sjávarútvegsmál að einu helsta deilumálinu í kosningabaráttunni. Það hefur án efa bjargað Frjálslynda flokknum frá því að þurrkast út hve vel Morgunblaðið hafði plægt jarðveginn fyrir gremju í þessum málum. Hinir stjórnarandstöðuflokkarnir nutu að öllum líkindum einnig góðs af og stjórnarandstaðan fór nærri því að fella þingmeirihluta ríkisstjórnarinnar.

Með þessum skrifum gegn einkaeignarrétti og frjálsum viðskiptum í sjávarútvegi hefur Morgunblaðið jafnt og þétt færst nær hugmyndafræði sósíalismans. Hægt og bítandi hefur blaðið tileinkað sér þankagang sósíalismans og málflutningur þess í fleiri málum litast af því. Þetta á jafnt við um svo ólík mál sem samkeppnismál og athafnafrelsi, umhverfismál, þróunarmál og svonefnd jafnréttismál. Morgunblaðið styður útþenslu ríkis og sveitarfélaga á flestum sviðum. Gildir einu hvort þar er um að ræða byggingu tónlistarhúss, hæstu félagslegu bætur Íslandssögunnar til hátekjumanna í fæðingarorlofi eða aðgerðir í umhverfis- og þróunarmálum.

Skrif Morgunblaðsins um svokölluð jafnréttismál kynjanna eru sérstakur kapítuli. Í gær mátti til dæmis lesa í leiðara blaðsins hugleiðingar um þann 50% launamun sem Runólfur Ágústsson rektor á Bifröst hélt svo ómaklega fram að væri milli kynjanna á dögunum. Þótt Morgunblaðið hafi haldið því fram á sínum tíma að tekjutengt fæðingarorlof myndi leiða til jöfnunar á þeim launamun sem menn telja sig geta mælt á kynjunum virðist það ekki hafa gengið eftir. Nú minnist blaðið ekki á þá aðgerð enda virðast nýjustu kannanir benda til að tekjutengda fæðingarorlofið hafi ekki haft marktæk áhrif á stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Í niðurlagi leiðarans segir:

Meginástæðan fyrir því að konur vinna styttri vinnutíma en karlar, hafa oft minni starfsreynslu vegna fjarvista frá vinnumarkaði, sækjast síður eftir annasömum stjórnunarstörfum og fara fram á lægri laun, er að ábyrgðin á barnauppeldi og heimilishaldi hvílir enn að meginhluta á þeim. Launamunur kynjanna á vinnumarkaðnum verður ekki jafnaður nema verkaskiptingin á heimilinu verði líka jöfnuð.

Dýrasta félagslega tilraun síðustu áratuga virðist farin fyrir lítið og Morgunblaðið leitar nýrra skýringa. Nú er „verkaskiptingunni á heimilinu“ alfarið um að kenna. En verkaskiptingin á heimilum landsmanna er ákvörðun og einkamál hverrar fjölskyldu. Það liggur í augum uppi að þeir, hvort sem það er móðir eða faðir, sem taka þá ákvörðun að verja tíma frekar með börnum sínum en úti á vinnumarkaði eru í flestum tilvikum að sætta sig við tekjutap. Það er bara þeirra ákvörðun og enginn ætti að hafa ástæðu til að efast um að svo persónuleg ákvörðun sé réttmæt. Morgunblaðið sýnir þeim sem slíka ákvörðun taka fullkomna lítilvirðingu með því að að stilla málinu upp sem einhvers konar hópþvingun sem annað kynið verði fyrir og leita verði allra leiða til að „jafna“ það hvernig fjölskyldurnar í landinu haga þessum málum. Þessi málflutningur er heildarhyggja og til marks um það hugarfar sem búið hefur um sig á ritstjórn blaðsins á síðustu árum.