Laugardagur 11. júní 2005

162. tbl. 9. árg.

S íðustu daga hafa nokkrir menn setið á rökstólum og reynt að finna leiðir til að fylgja ráðum alls konar poppara um að þróunarríkjum í Afríku sé mestur greiði gerður með því að fella niður allar skuldir þessara ríkja. Þetta er ekki ný viðleitni, því að síðustu áratugi hafa gríðarlegar fjárhæðir verið sendar til Afríku í þeim tilgangi að bæta fjárhag álfunnar og árangurinn er sá sem blasir nú við. Afríka hefur ekki orðið auðug af því að þiggja gjafir og hvers konar stuðning, nema að vísu nokkrir menn sem hafa komið sér upp þægilegum lífeyrissjóði á bankareikningum í Sviss og víðar. Vandi Afríku stafar ekki af of litlu fjármagni, heldur því að það fjármagn sem þar er og þangað hefur verið sent nýtist ekki eða er beinlínis sóað. Robert Mugabe mun ekki leiða þjóð sína út úr fátækt við það að skuldir ríkisins verði felldar niður. Eina sem gerist er að hann mun hafa meira svigrúm til að halda áfram að níðast á löndum sínum og hirða af þeim eigur þeirra. Svipaða sögu er að segja um fleiri spillt stjórnvöld í álfunni, þó að engin ríkisstjórn komist líklega með tærnar þar sem stjórn Mugabes hefur hælana í ofríki og óstjórn.

Ýmsir fræðimenn, til að mynda Deepak Lal, hagfræðiprófessor við Háskólann í Kaliforníu í Los Angeles, UCLA, hafa gagnrýnt þá stefnu sem rekin er á Vesturlöndum gagnvart Afríku og telja réttast að hætta fátæktaraðstoðinni. Lal hefur bent á að fátækt þriðja heimsins sé orðin atvinnuvegur fyrir ýmsa á Vesturlöndum en geri meira ógagn en gagn í þriðja heiminum. Lausnin á vandanum felist í bættu stjórnarfari í þróunarríkjunum og auknum viðskiptum en ekki andstöðu við alþjóðaviðskipti.

Annar áhugamaður um raunverulegar umbætur í þriðja heiminum er Moeletsi Mbeki, bróðir Thabo Mbeki forseta Suður-Afríku. Moeletsi Mbeki skrifaði nýlega grein þar sem hann benti á að nauðsynlegt væri að efla einkageirann í löndunum sunnan Sahara og að einkageirinn í þessum löndum sé aðallega bændur. Bændur þurfi að verða raunverulegir eigendur landsins sem þeir rækta, í stað þess að ríkið eigi í raun landið. Þá segir hann að bændur þurfi að fá beinan aðgang að mörkuðum heimsins í stað þess að vera neyddir til að selja framleiðslu sína í gegnum ríkisstýrða viðskiptaskrifstofu.

Einkaeignarréttur og aðgangur að frjálsum mörkuðum er það sem helst getur skýrt muninn á efnahag ríkra þjóða og fátækra í heiminum. Án vel skilgreinds og varins eignarréttar er borin von að íbúar fátækustu ríkja Afríku nái að brjótast úr fátækt til bjargálna. Skuldir sem verða felldar niður í dag, án þess að raunverulegar umbætur verði gerðar, munu hafa safnast upp aftur á morgun og ástandið verður þá jafn slæmt og það er nú. Það er ekki fjármagnið sem  hefur skort í Afríku heldur möguleikinn til að nýta það. Þetta er sá vandi sem leiðtogar Vesturlanda ættu að leita lausnar á, í stað þess að leitast við að aðstoða fátæku ríkin við að pissa í skóinn sinn.