Ádögunum kynnti meirihlutinn í bæjarstjórn Garðabæjar að hann hefði ákveðið að auka verulega niðurgreiðslur bæjarins vegna barna sem höfð eru hjá dagmæðrum. Í viðtali sagði nýr bæjarstjóri að með þessu væri verið að stórauka valfrelsi foreldra. Það má vafalítið til sanns vegar færa, að eftir þessar breytingar muni fleiri foreldrar en áður telja hagstætt að koma barni sínu til dagmóður. Einhverjir foreldrar munu nú fyrst telja þá leið færa fyrir sig. Það má segja að barnagæslumöguleikar þeirra foreldra hafi aukist. En valfrelsið ekki. Foreldrarnir eiga núna auðveldara með að velja dagmóður frekar en leikskóla – sem er gott – en þeir eiga erfiðara, eða að minnsta kosti ekki auðveldara, með að velja eitthvað annað en barnagæslu. Foreldrunum er gert auðveldara að eiga viðskipti við dagmóður en erfiðara að eiga einhver allt önnur viðskipti. Eins og venjulega með niðurgreiðslur frá hinu opinbera, þá færir þessi fé frá skattgreiðendum og til ákveðinnar þjónstu – en dregur um leið úr því að fé fari frá skattgreiðendum til einhverrar allt annarrar þjónustu. Aukning umsvifa dagmæðra, hún mun sjást. En aukning einhverra allt annarra umsvifa mun ekki sjást, af því að hún fær ekki að eiga sér stað.
Peningarnir sem þetta kostar bæjarsjóð, þeir koma frá skattgreiðendum. Ef bærinn hefði raunverulega viljað auka valfrelsi foreldranna, þá hefði hann lækkað útsvarið eða aðrar álögur sem hann leggur á bæjarbúa. Þá hefðu þeir haft meira fé milli handanna og getað notað það í það sem þeir teldu best. Það er í raun ekki verið að auka valfrelsi neins með því að leggja á hann skatt og nota skattinn til að niðurgreiða einhverja ákveðna þjónustu. Fyrir þann skattgreiðanda, sem greiðir minna í skattinn en hann fengi með niðurgreiðslunni, er valfrelsið ekki heldur aukið, þó tiltekinn möguleiki kunni að hafa opnast.
En þó Vefþjóðviljinn segi gjarnan að skattheimta hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, skerði möguleika fólks til að lifa lífinu eins og það vill, þá er ekki eins og blaðið viti ekki að hið opinbera gerir margt fyrir skattféð sem kemur borgurunum eða mörgum þeirra til góða og eykur aðra möguleika þeirra. Ríkið rekur sjúkrahús og skóla og ótal aðrar stofnanir sem gera auðvitað gagn, oft mikið gagn, skárra væri það nú. En þær gætu aðrir rekið og vafalítið oft með hagkvæmari hætti. Og svo rekur hið opinbera svo ótalmargt sem aðeins sumir hafa gagn af en allir eru látnir borga fyrir. Þeir sem vilja auka möguleika hins almenna manns til þess að njóta lífsins eins og hver um sig telur mikilvægast, þeir berjast fyrir því að hið opinbera stilli umsvifum sínum og skattheimtu í hóf. Og þeir sem vilja að borgarinn sé sem frjálsastur, þeir berjast fyrir því að hið opinbera stilli reglum sínum, boðum og bönnum, í hóf.