Í byrjun vikunnar voru fluttar af því fréttir að Kristinn H. Gunnarsson þingmaður legði til að færðar yrðu veiðiheimildir til sjávarbyggða sem ekki nytu góðs af atvinnuuppbyggingu vegna stóriðjuframkvæmda eða þenslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þegar betur er að gáð er þessi tillaga Kristins þó engin frétt og í raun hefði verið mun fréttnæmara ef hann hefði ekki lagt þessa tilfærslu veiðiheimilda til. Þessi tillaga er dæmigerð fyrir framgöngu þingmannsins, því að hún miðar ýmist að því að slá honum upp í fjölmiðlum eða vinna að sérhagsmunum kjördæmis hans, Norðvesturkjördæmis, nema hvort tveggja sé. Miðað við orðalag tillögunnar hefði allt eins verið hægt að gera tillögu um sérstaka færslu kvóta til kjördæmis þingmannsins, svo klæðskerasniðin var hún að hagsmunum þess. Kristinn H. Gunnarsson lætur gjarnan í það skína að hann sé mikill prinsipmaður í pólitík og stundi enga hentistefnu eða sérhagsmunapot. Þessu virðist fjölmiðlum þykja þægilegt að trúa og láta oft mikið með bægslagang Kristins og telja hann til marks um staðfestu. Staðfestan virðist þó aðallega felast í því að hægt er að treysta á að þingmaðurinn velur jafnan þann málstað sem þykir líklegur til vinsælda, hentar sérhagsmunum kjósenda hans og er líklegur til að koma honum í fréttatíma.
R
![]() |
Menningarelítuna munar ekki mikið um að láta skattgreiðendur greiða nokkra milljarða aukalega. |
ektor Listaháskóla Íslands ræddi „húsnæðisvanda“ skólans enn einu sinni við brautskráningu nemenda í lok síðasta mánaðar. Listaháskólinn er á þremur stöðum í Reykjavík og gæti vafalaust verið í betra húsnæði eins og svo mörg fyrirtæki og stofnanir. Og raunar er það svo að verið er að vinna að endurbótum á húsnæði skólans, en þær endurbætur telur rektorinn vera til bráðabirgða og að þær dugi skammt. Vitaskuld mætti gera fleiri sambærilegar endurbætur, sem gætu þýtt að skólinn væri í þokkalega góðu húsnæði til margra ára án þess að óhóflega miklu þyrfti að kosta til. En þetta er víst ekki nógu metnaðarfullt. Það nægir ekki bæta húsnæðið, starfsemin þarf líka að vera undir einu þaki og á tilteknum stað.
Í ræðu rektors kom fram að hann hefur „mjög skýra skoðun á því hvar best yrði að reisa skólann. Sá staður er á reitnum við hlið fyrirhugaðs tónlistarhúss á Austurhöfn, á milli Lækjartorgs og hafnarsvæðisins. Þar er nægt byggingarpláss og þar getur sá kraftur sem býr í starfsemi skólans flætt yfir til þeirrar starfsemi sem fyrirhugað er að koma fyrir á bakkanum.“ Og svo framvegis.
Kröfurnar um fleiri og meiri húsbyggingar hins opinbera eru óendanlegar, en hvergi þó meiri þessi misserin en á sviði menningarmála. Sumir telja að rétt sé að byggja tónlistarhús fyrir að minnsta kosti 8 milljarða króna, eða að minnsta kosti 12 milljarða króna ef rekstrarkostnaður út einkaframkvæmdartíma færður til núvirðis er reiknaður með. Aðrir telja þetta fráleitt, en ekki er víst að sjónarmið þeirra verði ofan á. Allt eins líklegt er að húsinu verði þröngvað upp á þá og þeir látnir greiða það gegn vilja sínum. En þessi ótrúlega dýra húsbygging dugar ekki öllum áhugamönnum um byggingar menningarhúsa og þeir kröfuhörðustu vilja byggja annað menningarhús við hlið þessa rándýra ferlíkis. Hversu mikið verða skattgreiðendur svo látnir greiða fyrir þann lúxus? Um það er minna sagt, en ef til vill tvo milljarða? Eða kannski frekar fjóra milljarða? Það er ekki gott að segja, en eitt er víst: Menningarelítunni er nákvæmlega sama.