Rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst hélt því fram í síðustu viku að óútskýrður kynbundinn launamunur þeirra sem útskrifast hafa frá skólanum væri 50%. Rektorinn setti enga fyrirvara við þessa fullyrðingu sína en bætti því hins vegar við að þetta væri „hneisa“ og hann skammaðist sín fyrir íslenskt atvinnulíf. Þetta þótti nokkuð vel í lagt jafnvel þótt þetta flokkaðist sem umræða um jafnréttismál. Við nánari skoðun kom svo í ljós að rektorinn var að vitna í einhverja símakönnun með fáum svarendum og ekki var tekið tillit til þess hvaða störf var um að ræða, hvaða ábyrgð fylgdi þeim, starfsaldurs eða hvort um hlutastarf eða fullt starf væri að ræða.
Í gær voru sagðar fréttir af nýrri kjarakönnun Félags viðskipta- og hagfræðinga. Í frétt á mbl.is sagði eftirfarandi af þessari könnun.
Þegar launamunur kynjanna er svo leiðréttur með tilliti til fleiri þátta eins og menntunar, starfs, atvinnugreinar, aldurs, vinnuframlags, mannaforráðs og starfsaldurs kemur í ljós að kynbundinn launamunur hjá viðskipta- og hagfræðingum er nú 7,6% en var 6,8% árið 2003. |
Það er ansi langur vegur á milli fullyrðinga rektorsins um 50% launamun kynjanna og þann 7% mun sem birtist í könnun Félags viðskipta- og hagfræðinga. Raunar mætti halda því fram að munurinn í könnun FVH sé svo lítill að hann sé vart marktækur. Menn ná auðvitað aldrei að „leiðrétta“ fyrir öllum þáttum í svona könnunum. Sumir þættir í starfi manna eru svo óáþreifanlegir að það er ekki nokkur leið að mæla þá.
Annað sem vekur athygli í könnun FVH er að sá kynbundni launamunur sem félagið mælir í könnunum sínum hefur ekkert breyst frá árinu 2001. Það er forvitnilegt vegna þess að á þessu tímabili, frá 2001 til 2005, var ráðist í eina dýrustu tilraun til að jafna stöðu kynjanna sem þekkist í heiminum. Þar er átt við lög um fæðingarorlof og fæðingarorlofssjóð sem greiðir nú út bætur til foreldra í hlutfalli við laun þeirra. Menn með háar tekjur fá hæstu bæturnar og láglaunafólkið þær lægstu. Þótt sjóðurinn hafi einungis starfað í nokkur ár með þessu lagi hefur honum hvað eftir annað legið við gjaldþroti. Útgjaldaaukningin vegna hins nýja fyrirkomulags varð enda 180% meiri en ráð var fyrir gert. Kostnaðurinn af þessu ævintýri er nú kominn yfir 6 milljarða króna á ári.
Meginrökin fyrir þessum gríðarlega kostnaði voru þau að þannig mætti jafna kjör kynjanna á vinnumarkaði en menn gengu að því sem vísu að þau vöru mjög ójöfn. Ný kjarakönnun FVH sýnir hins vegar enga breytingu á stöðu kynjanna frá 2001 til 2005.
Er allur kostnaðurinn til einskis? Var staða kynjanna á vinnumarkaði kannski þegar orðin jöfn árið 2001?
Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi hefur lagt fram tillögu um að sameina sjö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Meðal þeirra röksemda sem Ólafur hefur nefnt er að hann telji sameiningu koma í veg fyrir keppni milli sveitarfélaganna enda sé sú samkeppni „kjánaleg“.
Vefþjóðviljinn hefur stundum velt því fyrir sér hvort yfirleitt sé þörf fyrir sveitarfélögin. Flest verkefni þeirra gætu venjuleg einkafyrirtæki leyst og það sennilega á hagkvæmari hátt. Það er til dæmis alveg furðulegt að allt sorpið sem borið er heim til Reykvíkinga, af þeim sjálfum og einkafyrirtækjum eins og blaðaútgefendum og pizzastöðum, skuli svo vera sótt og borið út af heimilum manna af opinberum starfsmönnum. Það eru meira að segja til einkafyrirtæki sem bjóða upp á þá þjónustu að sækja dagblöð, pizzakassa og annað sorp heim til fólks. Reykjavíkurborg hefur hins vegar ákveðið að sjá um þetta verkefni eins og svo mörg önnur sem venjuleg einkafyrirtæki gætu sinnt. Má þar nefna skóla, leikskóla og aðstöðu til íþrótta en mörg einkafyrirtæki bjóða einnig upp á slíka þjónustu.
Að því gefnu að menn vilji halda í sveitarstjórnarstigið þarf hins vegar að koma málum þannig fyrir að líklegt sé að sveitarstjórnarmenn hafi meira aðhald en bara í kosningum á fjögurra ára fresti. Þeir geta til dæmis haft aðhald hver af öðrum ef sveitarfélögin eru fleiri en eitt. Þótt viljinn til aukinnar skattheimtu sé mikill er kannski von til þess að þegar menn á næsta bæ hækka ekki útsvarið eða fasteignagjöldin að menn hugsi sig tvisvar um.