Mánudagur 30. maí 2005

150. tbl. 9. árg.

Tvennt vakti athygli Vefþjóðviljans í fjölmiðlaumræðu síðustu viku. Annars vegar umræður um varaformannskjör Samfylkingarinnar, framgöngu Ungra jafnaðarmanna þar og áhugaleysi Samfylkingarforystunnar að málið yrði rannsakað – og hins vegar umræður um nýja bók Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðla 2004, þar sem birtir eru allir fjölmiðlapistlarnir sem hann skrifaði vikulega í Viðskiptablaðið á síðasta ári. Svo vill til, að þetta tvennt tengist á vissan hátt. Í pistli frá 27. ágúst í fyrra segir Ólafur Teitur meðal annars:

Stöð 2 þagði þunnu hljóði yfir óánægju margra ungra jafnaðarmanna með hvernig staðið var að landsþingi félagsins um síðustu helgi. Sagði ekki aukatekið orð um málið. Og ekki aukatekið orð um að á þetta þing – landsþing ungliðasamtaka næst stærsta stjórnmálaflokks landsins – mættu hvorki fleiri né færri en 30 manns! … Og Bolli Thoroddsen, frambjóðandi til formanns Heimdallar, fékk að fullyrða það athugasemdalaust í fréttum Stöðvar 2 að félagið hefði undanfarin ár verið í höndum „fámennrar klíku“. Bíðum við. Á aðalfund Heimdallar mæta iðulega um 1.000 manns. Þar ræður fámenn klíka. Á landsþing Ungra jafnaðarmanna mæta 30 manns. Óánægjan með fundinn er slík að halda þarf sérstakt aukaþing. Ekkert fjallað um það.

Já kannast einhver við það, að fjölmiðlar hafi rifjað það upp eftir landsfund Samfylkingarinnar, að á landsþing Ungra jafnaðarmanna hafi í fyrra mætt 30 manns? Og að ekki hafi verið meiri sátt um gang mála þá en að haldið hafi verið sérstakt aukaþing? Hefur nokkur rifjað þetta upp, núna þegar ungir jafnaðarmenn segja ekki skrýtið að hundruð manna hafi mætt á þeirra vegum til þess að kjósa á landsfundi Samfylkingarinnar? Þegar því er haldið fram að það sé svo mikill kraftur í starfi ungliðanna?

En fréttamenn ná að spyrja um annað. Þeir hafa til dæmis allir spurt Ólaf Teit hvort að það hafi ekki áhrif á mat hans á atburðum að hann sé hægrimaður. Sú spurning er ósköp eðlileg og bara gott að hún sé borin fram. En af hverju er Ólafur Teitur einn spurður um hugsanleg áhrif lífsskoðana hans á mat hans á málum? Af hverju er hin endalausa röð vinstrimanna, sem jafnt og þétt er kvödd til álits á hverju sem er, aldrei spurð um það hvort þar kunni stjórnmálaskoðanir álitsgjafans að hafa einhver áhrif á mat hans á stöðu mála?

Þetta yrði sennilega algengasta spurning Spegilsins.