Helgarsprokið 29. maí 2005

149. tbl. 9. árg.

Vangaveltur manna um jafnrétti kynjanna fá ætíð mikla athygli fjölmiðla. Engu máli skiptir hverjir það eru sem velta þeim málum fyrir sér eða af hvaða tilefni. Alltaf virðast hugmyndir manna um samkeppnisstöðu kynjanna eiga erindi í fréttir. Afstaða fjölmiðla til þessa málaflokks er reyndar þannig að það mætti láta detta sér í hug að menn leiti við ýmis tækifæri í smiðjur jafnréttisiðnaðarins til þess eins að vekja á sér athygli og komast á síður dagblaðanna. Sérstaklega hafa launamál átt upp á pallborðið hjá fjölmiðlafólki sem fjallar gagnrýnislaust um þær kenningar sem afar reglulega eru settar fram um gríðarlega mismunun í þeim efnum, körlum í vil.

„Hvað þýðir þetta? Trúir virkilega einhver, jafnvel rektorinn á Bifröst, því að drengur með viðskiptapróf úr Borgarfirði hafi sem gjaldkeri í banka 50% – eða 100% ef marka má fyrirsögn Fréttablaðsins – hærri laun en skólasystir hans sem vinnur á næsta gjaldkerabás?“

Um helgina voru fluttar fréttir af ræðu rektors Viðskiptaháskólans á Bifröst við útskrift skólans. Þar tjáði hann mönnum, reyndar þjóðinni allri því vissulega hafði hann í hyggju að senda út fréttatilkynningu um málið, að hann skammaðist sín fyrir þau skilaboð sem hann segir íslenskt atvinnulíf senda konum. Það hafi nefnilega komið fram að í nýrri könnun á kjörum lög- og viðskiptafræðinga sem útskrifast hafa á síðustu fimm árum frá Bifröst að karlar „geti gert ráð fyrir því“ að fá 50% hærri laun en skólasystur þeirra eins og Morgunblaðið sagði frá. Fréttablaðið sagði  í fyrirsögn rektorinn á Bifröst segja „konur með helmingi lægri laun en karlar þrátt fyrir sömu menntun“. En eru þá ekki karlar með 100% hærri laun en ekki 50% eins og Morgunblaðið sagði? Fréttir af þessari kenningu úr Borgarfirðinum rötuðu eins og vænta mátti í fréttir helstu fjölmiðla og hvergi virtist sami skilningur lagður í hver þessi launamunur er. Enginn fjölmiðill virtist gera reka að því að fá nánari upplýsingar um nefnda könnun. Það sem hefur nefnilega háð fréttum af þessu tagi er að þær eru fluttar gjörsamlega gagnrýnislaust. Fyrir vikið eru þær óskiljanlegar og langt frá því að vera til þess fallnar að draga ályktanir um eitt eða neitt. Hvað þýðir það til dæmis að karlar geti vænst þess að fá hærri laun en konur? Eða eins og það er orðað í Fréttablaðinu í dag um laun kvenna „…munar samt nær fimmtíu prósentum á launum þeirra og launum karla eftir útskrift.“ Hvað þýðir þetta? Trúir virkilega einhver, jafnvel rektorinn á Bifröst, því að drengur með viðskiptapróf úr Borgarfirði hafi sem gjaldkeri í banka 50% – eða 100% ef marka má fyrirsögn Fréttablaðsins – hærri laun en skólasystir hans sem vinnur á næsta gjaldkerabás? Ætli það séu margir karlmenn sem gangi um með þá grillu í huganum að þeir hafi 50% eða 100% hærri laun en samstarfskonur þeirra? Það kæmi svo sem ekki á óvart, það er ef fólk legði í vana sinn að taka mark á öllum þeim sjálfskipuð sérfræðingum sem um þessi mál fjalla. Hitt er þó kannski líklegra, og vonandi, að menn almennt átti sig á hvað liggur að baki slíkum málflutningi. Í áðurnefndum fréttum kom til að mynda fram að rektor Bifrastar hafi ásamt félagsmálaráðherra undirritað samning um sérstaka vinnu skólans í þessum málum. Það er væntanlega félagsmálaráðuneytið fyrir hönd skattgreiðenda sem á að bera kostnaðinn, og hefur þá Framsóknarflokkurinn bætt um betur eftir nýlega yfirlýsingu um kostun flokksins á einni prófessorsstöðu við skólann.

Önnur frétt um launamál kynjanna var á síðum dagblaðanna síðustu daga. Frá því var sagt að „svonefnd launaleynd væri ekki heppileg starfsmannastefna og þjóni hvorki hagsmunum eigenda, stjórnenda né starfsmanna fyrirtækja.“ Þetta var haft úr ályktun sem þátttakendur á ráðstefnunni Tengslanet II samþykktu á föstudaginn. Fram kom að hátt í tvö hundruð konur hafi verið á ráðstefnunni og í ályktun sinni skori þær á atvinnurekendur að endurskoða launaleynd. Ekki er með nokkrum hætti hægt að ráða beint af þessum fréttum hverjir stóðu að baki þessari ályktun. Nógu undarleg er sú fullyrðing sem hér er sett fram að ástæða hafi verið til að kanna hvaðan hún er upprunnin. Með smá fyrirhöfn má komast að því að Tengslanet II var nefnilega verkefni á vegum áðurnefnds Bifrastarskóla. Hvað fær þessar konur á Bifröst til þess að komast að þeirri niðurstöðu að launaleynd þjóni ekki hagsmunum starfsmanna? Nú eða hagsmunum eigenda? Hvaða tvö hundruð konur eru þetta sem vita betur en þessir aðilar sjálfir hvað þeim er fyrir bestu? Hvernig er bara yfirleitt hægt að alhæfa nokkuð á þennan hátt?

Það er einkennilegt að launabarátta kvenna í jafnréttisiðnaðinum virðist alltaf lúta að launum annarra en þeirra sjálfra. Í stað þess að leggja áherslu á eigin verðleika, og meta launakröfur sínar í samræmi við eigin þarfir og væntingar, virðist allt púður fara í samanburð við raunverulega og óraunverulega keppninauta. Þessi aðferðarfræði er einkenni minnimáttarkenndar og varpar ekki nokkru ljósi á óskir og markmið kvenna á vinnumarkaði.