Laugardagur 28. maí 2005

148. tbl. 9. árg.

Í sland hefur, fyrst Evrópuríkja, undirritað samkomulag við Kína um að hefja undirbúning fríverslunarviðræðna á milli ríkjanna. Á sama tíma og íslensk stjórnvöld vinna þannig að fríverslun verður umræða um haftabúskap gagnvart Kína æ háværari í tollabandalaginu á meginlandi Evrópu, Evrópusambandinu. Frakklandsforseti, Jacques Chirac, er meðal þeirra sem ekki vilja veg fríverslunar of mikinn og í umræðum um kosningar um stjórnarskrá sambandsins taldi hann að ef Evrópa „klofnaði“ – það er að segja ef einhverjir leyfðu sér að samþykkja ekki stjórnarskrána – yrði það vatn á myllu þeirra sem vildu sjá Evrópusambandið gert að fríverslunarsvæði.

Andstaðan við stjórnarskrána er einmitt talsverð innan Evrópusambandsins og nú er útlit fyrir að stjórnarskráin verði hugsanlega felld í Frakklandi og Hollandi. Ekki er þó hægt að segja að þetta sé mjög líklegt og þaðan af síður er líklegt að farið yrði að vilja kjósenda í þessu efni, enda hefur forseti Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, þegar sagt að fari svo að þessi ríki felli stjórnarskrána þá verði að láta þau kjósa aftur. Og svo vafalaust aftur og aftur og aftur. Þau munu hins vegar ekki verða látin endurtaka kosninguna fari svo að stjórnarskráin verði samþykkt, enda í samræmi við lýðræðishefð Evrópusambandsins að kjósa aðeins þar til vilji valdhafanna hefur verið knúinn fram.

V iðtal Brynhildar Björnsdóttur í fylgiriti Fréttablaðsins, Birtu, við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, hlýtur að vera Íslandsmetstilraun í drottningarviðtölum þó að Vefþjóðviljinn treysti sér ekki til að fullyrða að hún hafi tekist. Mærðartónn viðtalsins og aðdáun blaðamannsins Brynhildar á Ingibjörgu Sólrúnu leynir sér ekki og í keppninni við að upphefja viðmælanda sinn gleymir blaðamaðurinn jafnvel stöku staðreyndum. Þannig segir Brynhildur: „Fyrir tveimur árum tók Ingibjörg Sólrún þá gríðarlega umdeildu ákvörðun að hætta sem borgarstjóri og taka þátt í þingkosningunum.“

Var það svo? Tók Ingibjörg Sólrún þá ákvörðun að hætta sem borgarstjóri og taka þátt í þingkosningunum? Nei, hún gerði það reyndar alls ekki. Hún tók þvert á móti þá ákvörðun að halda áfram sem borgarstjóri og taka þátt í þingkosningunum, og á þessu tvennu er töluverður munur, að minnsta kosti í huga þeirra sem ekki líta á Ingibjörgu Sólrúnu sem fyrirmynd sína, eins og blaðamaðurinn segist gera í viðtalinu. Hitt gerðist svo, að framsóknarmenn og vinstri grænir, sem starfa með henni í R-listanum, sættu sig vitaskuld ekki við þessa framgöngu og knúðu hana til þess annaðhvort að hætta við þingframboð eða að segja af sér sem borgarstjóri, og hún kaus síðari kostinn. Að hún hafi ákveðið að hætta sem borgarstjóri og taka þátt í þingkosningunum er fjarstæða.

Þessi fullyrðing er hins vegar ekki eina fjarstæða viðtalsins. Aðra má til að mynda sjá í fyrirsögn þess þar sem segir: „Stjórnmálamenn verða að taka áhættu“. Þessi fyrirsögn gæti átt við um ýmsa stjórnmálamenn, en Ingibjörg Sólrún er einn þeirra stjórnmálamanna sem þessi fyrirsögn á hvað síst við. Hún verður seint talin mikill áhættufíkill í stjórnmálum og hefur til að mynda raðað sjálfri sér upp á lista í prófkjörum R-listans og beðið eftir úrslitum skoðanakannana áður en hún hefur tekið „áhættusamar“ ákvarðanir. Ein slík var framboðið gegn Össuri Skarphéðinssyni, sem Ingibjörg Sólrún lagði í eftir að ljóst þótti að Össur ætti enga möguleika.