Föstudagur 27. maí 2005

147. tbl. 9. árg.

Þegar fréttamyndir frá landsfundi Samfylkingarinnar laugardaginn 21. maí í þann mund er tilkynnt var um úrslit í formannskjöri eru skoðaðar í samhengi við kosningar til varaformanns og ritara í flokknum lítur þetta svona út.

Klukkan 12.15
Tilkynnt var um úrslit í kjöri formanns og nýkjörinn og fráfarandi formaður fluttu ávarp. Fjölmargar fréttamyndir eru til af fundarsalnum. Þótt erfitt sé að telja af þessum myndum virðast ekki vera nema 300 til 400 manns á fundinum. Vonandi hafa ekki margir verið úti að reykja þegar þessi úrslit voru tilkynnt eftir tveggja ára kosningabaráttu. Á hátindi fundarins – þegar Ingibjörg felldi Össur –  voru því alls ekki fleiri en 500 fulltrúar.

Klukkan 13.00 til 14.00
Kosning til varaformanns fór fram. Samkvæmt landsfundarvef Samfylkingarinnar kusu alls 839 af 893 á kjörskrá eða 94% sem er frábær þátttaka. Kosið var í 40 tölvubásum. Hver kjósandi hafði því að meðaltali um 3 mínútur til að hlaupa að lausri tölvu, slá inn lykilorð sitt og kjósa. Þessi meðaltími er líka frábær árangur.

Klukkan 14.30 til 15.30.
Kosning til ritara fór fram. Alls kusu 507 eða 894 af kjörskrá samkvæmt landsfundarvef Samfylkingarinnar eða 57%.

Það virðist því sem fundarmönnum hafi fjölgað um allt að 100% á þeim tæpu tveimur tímum sem liðu frá úrslitum í formannskjöri og þar til varaformannskjöri lauk. Svo snarfækkaði þeim aftur þegar varaformannskosningunni lauk.

Nú er það auðvitað ekki útilokað að tvöfalt fleiri hafi áhuga á að kjósa varaformann en að verða vitni að úrslitum í formannskjöri eða fella Stefán Jón Hafstein í ritarakosningu. Vefþjóðviljinn væri jafnvel til í að leggja trúnað á þessi firn á á góðum degi. En það kemur fleira til.

Í frétt Blaðsins mánudaginn 23. maí segir:

Mörður Árnason þingmaður gerði fyrirspurn um það á landsfundinum í gær að hvort það væri í samræmi við reglur flokksins að unnt væri að skrá fulltrúa til fundar, útleysa kjörgögn og kjósa fyrir fjarstadda fulltrúa. Í svari kjörstjórnar kom fram að það væri óheimilt.

Blaðið vitnaði jafnframt í ónafngreindan þingmann Samfylkingarinnar sem sagði að sér skildist að greidd hefðu verið þinggjöld fyrir 286 þingfulltrúa í einu lagi. Ingvar Sverrisson framkvæmdastjóri flokksins sagðist ekki kannast við að greitt hefði verið fyrir slíkan fjölda í einu lagi en sagði þónokkuð um að einstök flokksfélög greiddu fyrir alla fulltrúa sína.

Morgunblaðið sagði einnig frá þessari fyrirspurn Marðar á mánudaginn og ræddi jafnframt við Lúðvík Bergvinsson keppinaut Ágústs Ólafs. Það eina sem blaðið hafði eftir Lúðvík var svo:

Þegar heilu bílfarmarnir af krökkum tóku að streyma í hús þá sá maður að út úr þessu gætu komið óvæntar niðurstöður.

Heimir Már Pétursson bauð sig einnig fram til varaformanns skömmu áður en framboðsfrestur rann út. Í frásögn Morgunblaðsins segir eftirfarandi:

Heimir Már segir að varaformannskosningin hafi því miður verið hafin þegar hann tilkynnti framboð sitt. Ákveðin mistök hafi orðið við framkvæmd kosninganna, en hann hafi ákveðið að kæra þær ekki.

Geir Guðjónsson formaður Samfylkingarfélags Akraness var í viðtali á Talstöðinni í gær. Þar sagði hann meðal annars samkvæmt Vísi:

Við viljum komast til botns í því hverju það sætir að rúmlega fjörutíu fulltrúar sem sannarlega voru skráðir í félagið hér á Akranesi skiluðu sér ekki í lokaskrána heldur enduðu skráðir sem Ungir Jafnaðarmenn.

Geir segir sömu sögu í DV í gær og þar er einnig vitnisburður landsfundarfulltrúans Ingimars Ingimarssonar.

Ingimar Ingimarsson varafulltrúi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og landsfundarfulltrúi staðfesti í samtali við DV í gær að hann hefði orðið vitni að því þegar menn voru í röðinni til að kosninga með fleiri en einn kjörseðil í höndunum.

Í Blaðinu í gær var svo haldið áfram að fjalla um hreppaflutninga Skagamanna í Unga jafnaðarmenn.

Blaðið hefur heimildir fyrir því að flokksfélög víðar um landið séu að kanna félagaskrár sínar og hvernig þessum málum var háttað fyrir landsfund. Leið menn líkum að því að starfsmaður UJ á skrifstofu Samfylkingarinnar hafi gerst fullákafur í félagaöflun fyrir hreyfinguna og tengja það kosningabaráttu Ágústs Ólafs Ágústssonar til varaformannsembættis flokksins.

Síðast en ekki síst hefur Sigríður Dögg Auðunsdóttir blaðamaður á Fréttablaðinu og fulltrúi blaðsins á fundinum ekkert fjallað um þessar alvarlegu ásakanir um víðtæk kosningasvik stuðningsmanna Ágústs Ólafs Ágústssonar. Þarf frekari vitna við?