Þriðjudagur 31. maí 2005

151. tbl. 9. árg.
Hins vegar sýnir [launakönnunin] brúttólaun þeirra sem útskrifast og vissulega vantar þar að taka inn ákveðnar breytur eins og hlutastörf og annað slíkt en eigi að síður er þarna mjög mikill óútskýrður launamunur milli karla og kvenna og það er auðvitað lykilatriðið og menn þurfa að einblína á það hvurning menn ætla að leysa þau mál.
– Runólfur Ágústsson rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst í hádegisfréttum Bylgjunnar 30. maí 2005.

Það er eiginlega spurning hvort er verra; að rektor í háskóla flytji mál sitt með þessum hætti eða fréttastofur láti hann komast upp með það. Runólfur Ágústsson hélt því fram í ræðu við útskrift í skóla sínum um helgina að munur á launum karla og kvenna sem útskrifast frá skólanum hans væri 50% og vitnaði í einhverja símakönnun sem fram hefði farið á því. Í sumum fréttum af þessari könnun fór munurinn svo upp í 100% en það er kannski ekki að öllu leyti sök Runólfs. Í útskriftarræðu sinni sagðist Runólfur „skammast sín“ fyrir íslenskt atvinnulíf vegna launamunarins. Í kvöldfréttum RÚV laugardaginn 28. maí sagði hann „meginskýringu á þessum launamun vanmat atvinnulífsins á vinnukrafti kvenna“ og þessi kynbundni launamunur í íslensku atvinnulífi væri „hneisa“. Rektorinn setti enga fyrirvara við niðurstöðuna. Hann bara skammaðist sín fyrir þessa hneisu.

Þegar betur er að gáð – og það kemur fram í máli Runólfs í Bylgjufréttum í gær þótt hvorki hann né fréttamaðurinn virðist skilja það – segir niðurstaða þessarar könnunar ekki neitt. Það er eiginlega rangt að kalla þetta niðurstöðu og líklega á mörkunum að símhringingar Bifrastarmanna teljist vera könnun. Í  Bylgjufréttunum í gær upplýsti Runólfur nefnilega sjálfur að það vanti í launakönnunina að taka tillit til þess hvort menn vinna fullt starf eða hlutastarf. Hann viðurkennir með öðrum orðum að hann sé jafnvel að bera saman hlutastarf með lítilli ábyrgð og fullt starf með mikilli ábyrgð og rífandi yfirvinnu. Þar er kannski komin skýringin á þeim launamun sem kemur fram í könnuninni. Engu að síður heldur hann því til streitu að það sé mjög mikill „óútskýrður launamunur milli karla og kvenna“. Það er eiginlega alveg magnað að gera launakönnun án þess að taka tillit til þeirra þátta sem hafa áhrif á laun manna eins og starfshlutfall og notfæra sér síðan handvömmina til þess að draga stórbrotnar ályktanir um „óútskýrðan launamun“. Þessi launamunur sé „lykilatriðið“ og menn eigi að „einblína“ á að leysa málið. 

Hvernig getur maður sem veit að það vantar í launakönnun hvort menn voru að vinna fulla vinnu með mikilli yfirvinnu eða hlutastarf dregið nokkrar ályktanir af henni? Hvernig getur fréttamaður sem hlustar á háskólarektor lýsa því yfir að þær ályktanir sem hann dregur skorti allar forsendur til að vera marktækar látið hann komast upp með það? Eina skýringin sem Vefþjóðviljanum dettur í hug er að annar eða báðir fái full laun fyrir hlutastarf og haldi að það sé venjan.

Þessi málflutningur af launamun kynjanna er raunar ekki alveg nýr af nálinni en það kemur á óvart að stjórnandi stofnunar sem kennir sig við háskólamenntun skuli láta slíkt frá sér fara. Jafnvel þó þessi stofnun hafi nýlega verið notuð eins og hver önnur gólftuska til að skúra leiðina inn á Alþingi fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Vefþjóðviljinn minnir á að útgáfa hans og kynning á henni er kostuð með frjálsum framlögum lesenda.