Miðvikudagur 18. maí 2005

138. tbl. 9. árg.
Fólkið sem trúir á loftslagsbreytingar af manna völdum hefur engar sannanir fyrir staðhæfingum sínum. Tölvulíkönin þeirra sanna ekkert. Þegar ég segi þetta er því jafnan svarað með því að ég hljóti að vera á launum hjá olíuiðnaðinum. Það er ég hins vegar ekki. Ég er hvorki launaður talsmaður eins né neins.
– David Bellamy prófessor í The Sunday Times 15. maí 2005.

Ádögunum máttu hin virðulegu tímarit Science og Nature sitja undir ásökunum nokkurra vísindamanna um að leyfa ekki lengur gagnrýni á kenninguna um loftslagsbreytingar af manna völdum eða það sem oftast er nefnt gróðurhúsaáhrif. Vefþjóðviljinn sagði stuttlega frá þessum titringi.

Þótt umdeilt sé hvaða áhrif kenningin um gróðurhúsaáhrifin hefur í náttúrunni er hún svo sannanlega farin að hafa áhrif í mannlífinu. The Sunday Times sagði frá því nú um helgina að David Bellamy prófessor muni að öllum líkindum verða settur af sem forseti tveggja náttúruverndarsamtaka. Ástæðan er að hann neitar að trúa á kenninguna um loftslagsbreytingar af manna völdum. Bellamy, sem er forseti bæði Plantlife International og Royal Society of Wildlife Trusts, varð frægur fyrir þætti sína um náttúruna á síðustu áratugum síðustu aldar auk þess sem hann hefur skrifað margar bækur um sama efni. The Sunday Times segir að hann hafi unnið hylli margra harðra umhverfisverndarsinna með baráttu sinni fyrir verndun ýmissa tegunda sem taldar voru í útrýmingarhættu. Eins og margra umhverfisverndarsinna er háttur hefur hann einnig unnið til handtöku með iðju sinni en Bellamy handtekin þegar hann reyndi að koma í veg fyrir skógarhögg. Maðurinn virðist með öðrum orðum fyrirmynd annarra náttúrverndarmanna.

En þessi afrek þykja léttvæg þegar menn hafa gengið efasemdum um gróðurhúsaáhrifin á hönd.