Þriðjudagur 17. maí 2005

137. tbl. 9. árg.

Meðferð fjölmiðla á úrsögn Gunnars Arnar Örlygssonar úr Frjálslynda flokknum og inngöngu hans í Sjálfstæðisflokkinn hefur verið athyglisverð. Hingað til hafa íslenskir fjölmiðlar lítt hirt um að láta stjórnmálamenn standa við fyrri orð sín og yfirlýsingar. Það hefur jafnvel þótt ómálefnalegt „skítkast“ og „neikvæður áróður“ að rifja fyrri skoðanir manna upp þegar þeir hafa hlaupist frá þeim. Enginn hefur heldur verið látinn gjalda þess að skipta um flokk og Íslandsmetshafinn í þeim efnum er nú forseti lýðveldisins. Þegar hann bauð sig fyrst fram til forseta hurfu jafnvel heilu ritstjórastörfin úr fortíð hans án þess að fjölmiðlar hefðu nokkuð við það að athuga.

En nú er þetta allt breytt. Hvert orð sem hrotið hefur af vörum Gunnars Arnar Örlygssonar fram til þessa hefur nú verið birt að nýju honum til háðungar. Fréttamenn Ríkisútvarpsins og Fréttablaðsins virðast skyndilega hafa farið á námskeið hjá Norræna blaðamannaskólanum í notkun Google og leitarvélar Alþingis og standa sig nú með mikilli prýði í notkun þeirra. Allt gott um það að segja ef að þessi góða kunnátta verður ekki með öllu gleymd næst þegar eitthvað gerist.

Fyrir nokkrum árum gekk Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi úr Sjálfstæðisflokknum og síðar til liðs við Frjálslynda flokkinn, einkum á þeirri forsendu að Sjálfstæðisflokkurinn iðkaði of „harða hægristefnu“. Þetta var fyrir þá tíð er íslenskir blaðamenn sóttu námskeið í notkun leitarvéla. Enginn hváði þegar Ólafur yfirgaf flokk sinn heldur fékk hann miklu fremur klapp á bakið fyrir að fylgja sannfæringu sinni. Síðan hefur Ólafur komist upp með það óáreittur að halda því fram að hann sé fulltrúi mannúðar og mildi í veröldinni en fyrrum félagar hans í Sjálfstæðisflokknum séu erindrekar hörkunnar og ofstopans, einkavæðingaræðis og nýfrjálshyggju.

En fyrir hvað ætli Ólafs F. Magnússonar verði einkum minnst í Sjálfstæðisflokknum? Ætli hann verði talinn hafa lagt að félögum sínum að fara rólega í einkavæðingunni? Ætli Ólafur F. Magnússon, félagi í Sjálfstæðisflokknum, hafi sagt við þáverandi félaga sína að það væri kannski í lagi að einkavæða fyrirtæki eins og banka og fiskimjölsverksmiðjur með tíð og tíma en einkavæðing velferðarkerfisins kæmi aldrei til greina?

Nei, þegar betur er að gáð verður Ólafs F. Magnússonar líklega einkum minnst fyrir það í Sjálfstæðisflokknum að hafa boðað einkavæðingu í hinu svonefnda velferðarkerfi, nánar tiltekið í heilbrigðiskerfinu. Hann má jafnvel eiga það að hann var á vissan hátt brauðryðjandi í Sjálfstæðisflokknum fyrir slíkum sjónarmiðum og gagnrýndi flokkinn harðlega fyrir að hafa ekki gengið nógu vasklega fram í þessum málum. Ólafur skrifaði til að mynda grein í Gjallarhorn, blað Heimdallar í mars 1993 þar sem hann viðraði þessi sjónarmið.

Sérfræðiþjónusta lækna utan sjúkrahúsa er mestu leyti einkarekin hérlendis. Án hennar væri aðgengi almennings að hágæðalæknisþjónustu ekki eins gott og raun ber vitni. Hér er um að ræða mikið þjónustumagn á góðum kjörum, enda er rekstur sérfræðiþjónustunnar í höndum einstaklinga og félaga mun hagkvæmari en opinber rekstur. … Ekkert hefur dregið úr miðstýringu í heilbrigðis- og tryggingamálum, eftir að Guðmundur Bjarnason yfirgaf ráðherrastólinn og æviráðnir embættismenn eru áhrifamiklir í stefnumótun ráðuneytisins sem fyrr. Úrlausnir þeirra eru yfirleitt á nótum miðstýringar og eru því víðs fjarri sjálfstæðisstefnunni í heilbrigðismálum. … Sem fyrrverandi starfsmaður heilsugæslustöðva í opinberum rekstri, bæði hér heima og erlendis, er ég ekki íminnsta vafa um það, að þjónusta þeirra er mun dýrari en í höndum einkaaðila.

Það var auðvitað engin tilviljun að þessi grein Ólafs „Nýtum kosti einstaklingsframtaks í heilbrigðisþjónustunni“ birtist í blaði Heimdallar. Það var af því að Ólafur átti mestan hljómgrunn í þessum málum meðal Heimdellinga og þeir munu margir hafa stutt hann með ráðum og dáð í prófkjörum innan flokksins því þannig væri von til þess að einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar eignaðist málsvara meðal kjörinna fulltrúa. Þeir eru nefnilega vandfundnir öflugri málsvarar einkareksturs í heilbrigðiskerfinu en Ólafur F. Magnússon var á meðan hann var félagi í Sjálfstæðisflokknum.

Einokun opinberra aðila á rekstri heilbrigðisþjónustunnar hefur hvarvetna leitt til minni afkasta, verra aðgengis að þjónustunni, lengri biðlista og skerðingu á valfrelsi sjúklinga. Íslendingar eiga annað og betra skilið.

Þetta hefur auðvitað enginn rifjað upp en ef Ólafur F. Magnússon gengur aftur í Sjálfstæðisflokkinn getur Vefþjóðviljinn lofað að blaðamenn munu grípa til hinnar nýfengnu kunnáttu sinnar.