Mánudagur 16. maí 2005

136. tbl. 9. árg.

Hvað myndi Vefþjóðviljinn gera, ef örlögin brygðu á það ráð að fela honum en ekki öðrum að velja milli þeirra tveggja sem nú keppa um formannsembætti Samfylkingarinnar? Þessari spurningu hefur blaðið velt fyrir sér undanfarið, og hefur loks komist að niðurstöðu sem því er ekki meira en svo vel við að deila með öðrum: Ef að Vefþjóðviljinn mætti einn ráða, þá yrði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kjörin formaður Samfylkingarinnar nú í vikulokin. Þetta segir blaðið í fullri alvöru, en telur sig þó verða að játa að sú niðurstaða þess helgast ekki af umhyggju fyrir Samfylkingunni eða möguleikum þess flokks til áhrifa á íslenskt þjóðfélag. Raunar þvert á móti. Þó Vefþjóðviljinn viðurkenni, að fagnaðarlæti helstu stuðningsmanna Ingibjargar Sólrúnar, bergmáluð í ótal hliðhollum fjölmiðlum, verði vissulega þreytandi, þá má umbera það með þeirri hugsun að undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur verður töluvert minni hætta en ella á því að Samfylkingin setjist í ríkisstjórn eða nái á annan hátt neinum verulegum áhrifum á gang stjórnmálanna. Þó flokkurinn verði sannarlega enn meira þreytandi en hann nú er.

Af hverju segir Vefþjóðviljinn þetta? Það vita allir sem vilja vita, að það er ekki aðeins kjörfylgi sem skiptir máli þegar kemur að helstu ákvörðunum stjórnmálanna. Traust milli manna, byggt á þeim kynnum sem hver hefur haft af öðrum og það orðspor sem hver og einn hefur getið sér, skiptir geysilega miklu máli. Það er miklu minni hætta á því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir komi Samfylkingunni í ríkisstjórn en að Össur Skarphéðinsson geri það. Þó Össur sé óttalegur vindhani þá er það ekki þannig að forystumenn annarra flokka séu í raun sannfærðir um að ekki megi eiga við hann farsælt samstarf. Sú er hins vegar mun fremur raunin með svilkonu hans. Og þá er ekki aðeins átt við Sjálfstæðisflokkinn, þó þar á bæ hafi menn auðvitað litla ástæðu til að hafa trú á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem samstarfsmanni, en eins og kunnugt er þá hefur Geir H. Haarde, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gefið mjög sterklega til kynna að slíkt samstarf sé nær óhugsandi. En það er einnig innan annarra flokka sem menn hafa lítinn áhuga á samstarfi við Samfylkingu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Og það áhugaleysi er meira að segja byggt á eigin reynslu. Þó helstu stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar láti sér vitanlega ekki koma til hugar, hvað þá meira, að nokkuð sé að framgöngu hennar, í stóru eða smáu, þá hafa forystumenn annarra flokka auðvitað ekki gleymt þeim lærdómi sem þeir drógu af framgöngu hennar innan R-listans, þar sem hún gekk gróflega á bak orða sinna við bæði kjósendur listans og samstarfsflokkana, en reyndi eins og hún gat að hanga áfram á borgarstjórastólnum þrátt fyrir að vera á sama tíma á leið í þingframboð gegn samstarfsflokkum sínum, þrátt fyrir ítrekuð loforð um að gera það ekki. Auðvitað muna forystumenn annarra flokka að af þessu öllu drógu þeir þann lærdóm að í samstarfi við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur má treysta því einu að hún geri það eitt sem hún telur koma sjálfri sér best. Og að helstu stuðningsmenn hennar undantekningarlaust krefjast þess að samstarfsmennirnir láti sömu hagsmuni eina ráða.

En er Vefþjóðviljinn ekki bara að segja þetta alltsaman vegna þess að hann óttist að Ingibjörg Sólrún muni auka fylgi Samfylkingarinnar og „breyta landslagi“ stjórnmálanna? Ónei. Sú er alls ekki raunin. Þar sem að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nýtur óvenjulega lítils trausts meðal forystumanna annarra stjórnmálaflokka þá má slá því föstu að formennska hennar myndi draga úr líkum þess að þeir gengju til stjórnarsamstarfs undir hennar forystu, og óháð því hvort fylgi Samfylkingarinnar yrði einum tveimur þreumur prósentum hærra eða lægra. Framsóknarflokkurinn er með mun minna fylgi en Samfylkingin en hefur mun meiri áhrif? Af hverju ætli það sé? Ætli persónulegt traust, sem menn ávinna sér með daglegum störfum, skipti máli? Ætli það skipti máli að um leið og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var tilkynnt sem „forsætisráðherraefni“ Samfylkingarinnar, þá varð sá flokkur um leið ósamstarfshæfur í augum annarra flokka? Halda menn að það sé út af engu sem Framsóknarflokkurinn hafnaði stjórnarmyndunartilboði Samfylkingarinnar eftir síðustu kosningar? Það tilboð gerði þó ráð fyrir því að Halldór Ásgrímsson yrði forsætisráðherra þegar í stað en þyrfti ekki að bíða hálft annað ár eins og hann þurfti að gera í ríkisstjórninni með Sjálfstæðisflokknum. Og alveg frá því að Framsóknarflokkurinn hafnaði tilboði Samfylkingarinnar um forsætisráðherrastól strax, þá hafa Samfylkingarmenn talað eins og Halldór samþykkti allt sem Sjálfstæðisflokkurinn færi fram á, bara svo hann „fengi stólinn sinn“. Og alltaf verða Samfylkingarmenn jafn hissa þegar aðrir vilja ekki ganga til samstarfs við þá.

En hvert er fylgi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur meðal kjósenda? Hvaða áhrif hefði það á fylgi Samfylkingarinnar ef hún yrði kjörin formaður flokksins? Það er ekki gott að segja. Er svo víst að þær breytingar yrðu miklar? Auðvitað á hún sína stuðningsmenn, einhvern fjölda fólks sem vill styðja hana til áhrifa, hvort sem það er vegna kynferðis hennar eða þeirra verðleika sem þetta fólk telur hana búa yfir. Þetta er sennilega talsverður hópur. En hvað með allt það fólk sem ekki treystir henni til forystu? Menn mega ekki gleyma því að Ingibjörg Sólrún dregur ekki aðeins að sér fólk – sem hún vitanlega gerir – heldur fælir einnig annað fólk frá. Enginn veit hversu margir eru í hvorum hópi. R-listinn vann glæsilega sigra í borgarstjórnarkosningum þar sem hún var borgarstjóraefni. En samkvæmt skoðanakönnunum hefur fylgi R-listans ekki minnkað við að hún er þar ekki lengur í forystu. Í síðustu gallup-könnun naut R-listinn fylgis 54 % kjósenda í Reykjavík. Í síðustu borgarstjórnarkosningum var fylgi listans 53%. Er svo víst að Ingibjörg Sólrún sé sá segull á atkvæði sem stuðningsmenn hennar halda?

Nú hugsar vafalaust einhver með sér, að Vefþjóðviljinn sé að telja þetta upp, í þeim tilgangi að hvetja Samfylkingarmenn til að kjósa Össur Skarphéðinsson og þar sem að blaðið er lítill stuðningsmaður Samfylkingarinnar þá sé það enn ein sönnun þess að hún yrði í raun betri formaður fyrir Samfylkinguna en hann. Það er samt ekki svo. Ef blaðið hefði hugsað sér að hafa áhrif á niðurstöðu formannskosningar Samfylkingarinnar, þá hefði blaðið vitanlega nefnt þetta allt saman fyrr, en ekki núna þegar flestir þeirra sem ætla að taka þátt í formannskosningunni eru búnir að því. – Nú og hvernig vita þeir nema blaðið sé bara svona útsmoginn stuðningsmaður Ingibjargar; tali svona einmitt til þess að sannfæra síðustu kjósendurna um það að Ingibjörg sé einmitt réttur kostur?

En svo má vel vera að blaðið hafi rangt fyrir sér. Kannski yrðu aðrir flokkar óðfúsir að ganga til samstarfs við Ingibjörgu Sólrúnu undir hennar forystu. Og sú ríkisstjórn yrði auðvitað verri en ríkisstjórn sem Össur Skarphéðinsson myndi leiða Samfylkinguna til. Menn þurfa ekki annað en að horfa á skuldasöfnun Reykjavíkurborgar, skattahækkanir, lóðaskort og svikin loforð á ótal sviðum til þess að sannfærast um það.