Helgarsprokið 15. maí 2005

135. tbl. 9. árg.

F

„Það væri eitthvað að í skóla sem ekki skorti fé öllum stundum,“ segir rektor Háskólans.

élag háskólakennara og Félag prófessora hafa sent frá sér ályktun þar sem segir að Háskóli Íslands búi við fjársvelti. Líklega finnst einhverjum að þeir hafi heyrt þennan söng áður frá ríkisstarfsmönnum enda eru þeir jafnan duglegir við að krefjast aukinna útgjalda ríkisins til þess málaflokks sem þeir starfa við. Þess má líka geta að þeir eru mun óduglegri við að krefjast aukinna ríkisútgjalda til annarra málaflokka og má það furðu sæta þar sem gagnrýnin hlýtur ævinlega að vera málefnaleg og kröfur hljóta að vera gerðar í samræmi við það hvar þörfin er mest. Eða hvað? Getur verið að ríkisstarfsmenn, jafnvel virðulegir prófessorar við Háskóla Íslands, taki eigin hagsmuni fram yfir almannahag? Að þeir vilji að útgjöld til málaflokks síns verði aukin meira en til annarra málaflokka, jafnvel þótt því væri ekki að neita að þörfin væri meira knýjandi annars staðar? Getur verið að eiginhagsmunir háskólaprófessora ráði einhverju um það að þeir krefjast aukinna útgjalda ríkisins til háskólakennslu en ekki til dæmis til reksturs heilbrigðiskerfisins, lögreglunnar, grunnskólanna og svo framvegis?

Vefþjóðviljinn hallast að því að eiginhagsmunir einstakra hópa ríkisstarfsmanna ráði mestu um afstöðu þeirra til fjárveitinga til þess málaflokks sem þeir starfa að og að litlar líkur séu á því að þeir máli trúverðuga mynd af stöðu mála. Á þessu eru hins vegar undantekningar og stundum kemur fram einstaka ríkisstarfsmaður og heldur fram sjónarmiðum sem stangast á við hávær sjónarmið eiginhagsmunapotsins. Eitt óvænt en ágætt dæmi um þetta mátti lesa í Fréttablaðinu þann 21. apríl síðast liðinn, en þá tjáði Páll Skúlason rektor Háskóla Íslands sig um sama málefni og Félag háskólakennara og Félag prófessora gerðu í liðinni viku og var tilefnið það sama, skýrsla Ríkisendurskoðunar  um Háskólann. Í blaðinu var haft eftir Páli:

„Það væri eitthvað að í skóla sem ekki skorti fé öllum stundum,“ segir Páll Skúlason, fráfarandi rektor Háskólans. Hann segir vanda skólans liggja í miklum vexti og meiri kröfur um fjármagn séu eðlilegur fylgifiskur þess. „Vanda Háskóla Íslands mætti kalla velmegunarvanda. Við erum að bæta við okkur verkefnum á sama tíma og nemendum fjölgar og þær aðhaldsaðgerðir sem við höfum farið í merkja ekki endilega að við séum að fækka verkefnum heldur hefur þeim þvert á móti fjölgað.“

Félög háskólakennara og prófessora tala um fjársvelti og krefjast aukins fjár til Háskólans ella muni „fagleg uppbygging hans staðna“ auk annarra hremminga sem þessi félög virðast álíta að vofi yfir Háskóla Íslands. Ætli lýsing Páls á vandanum sé ekki nær lagi og að rétt sé að túlka ályktun félaganna með hliðsjón af því að skóla hljóti öllum stundum að skorta fé. Og er þá ekki betra að búa við „velmegunarvanda“ sem Páll kallar svo en annars konar vanda?

Raunar er það svo ef að er gáð að það eru ekki einungis háskólar sem geta notað endalausa fjármuni og skortir þar með fé öllum stundum, eins og Páll orðar það. Heilbrigðiskerfið er ágætt dæmi um fyrirbæri sem ævinlega mun skorta fé og aldrei verður hægt að seðja. Ef horft er fram hjá kostnaði og þeim fjármunum sem til eru þá er óhætt að fullyrða að þarfirnar séu óendanlegar. Þar með verður alltaf hægt að halda því fram að sjúkrahús búi við fjársvelti eða að lyf séu ekki nægilega mikið niðurgreidd, svo dæmi sé tekið. Hið sama gildir vitaskuld um grunnskóla, þar má alltaf bæta og auka, byggja dýrari skóla, ráða meira menntaða kennara á hærri launum, kaupa fleiri tölvur og skjávarpa eða lengja skóladaginn og gera grunnskólann að dagvistarheimili fyrir unglinga. Sama má segja um lögregluna, það má endalaust bæta aðstöðu hennar, kaupa betri bíla, fjölga lögreglumönnum og greiða þeim hærri laun ef aðeins er litið á þarfirnar en ekkert á það fé sem til er.

Einn stærsti vandinn við rekstur hins opinbera er sá að þeir sem hjá ríkinu starfa hafa mikla hagsmuni af að ná til sín auknu fjármagni og hver þeirra eða hver hópur þeirra nýtir sérþekkingu sína á sínu sviði til að þrýsta á um aukna fjármuni til sín. Öflugt mótvægi við þennan þrýsting skortir, því að það hefur enginn beina og ríka hagsmuni af því að vinna gegn honum. Afleiðingin verður sú sem menn þekkja, útgjöld bæði ríkis og sveitarfélaga þenjast út. Gegn þessum vanda duga fáar aðgerðir, en sú sem er einna vænlegust til árangurs er að minnka það heildarfjármagn sem til skiptanna er með því að lækka skatta. Síðustu misseri hefur ríkið farið þá leið hér á landi að lækka skattana og þótt lækkunin dugi líklega ekki til að draga úr tekjunum verður hún til þess að minnka þær miðað við það sem þær annars hefðu orðið, sem er skref í rétta átt. Sveitarfélögin, sérstaklega Reykjavíkurborg, hafa hins vegar farið þveröfuga leið. Þau gera mörg hver allt sem þau geta til að fullnýta skattheimtuheimildir sínar og krefjast þess að auki að ríkið veiti þeim auknar heimildir. Sveitarstjórnarmenn hafa með öðrum orðum kosið að gera ekkert til að vinna á vandanum og leggja sig þvert á móti fram um að auka hann eftir megni.