Laugardagur 14. maí 2005

134. tbl. 9. árg.

Þ að er sífellt verið að búa til ímyndir. Sumar þróast næstum yfir í goðsagnir. Aðrar ná ekki svo langt, en hafa margar engu að síður mikil áhrif á þær skoðanir sem ýmsir búa sér til um menn og málefni. Það virðist til dæmis oft sennilegt, þegar stjórnmál koma til tals, að ýmsir láta ímyndir ráða miklu um það, í hvaða sveit þeir skipa sér. Ekki þá í þeirri merkingu að þeir láti ímynd ráða því hvaða lífsskoðun þeir hafa, eða ráða því hvað þeir telja mikilvægast að gert sé, heldur einkum því hverjum þeir treysta til að koma þeim málum fram, hvaða stjórnmálaflokki þeir treysta og hvaða flokki þeir vantreysta, og svo framvegis. Og merkilega oft virðist sem þessar ímyndir séu í litlu samræmi við veruleikann, og breytir þá litlu hvort fólk hefur fengið ímynd af innlendum eða erlendum málefnum. Tökum eitthvert dæmi.

Fjölmiðlar og kvikmyndagerðamenn hafa í bráðum hálfa öld haft mikið dálæti á John F. Kennedy, sem var forseti Bandaríkjanna um stutt skeið í upphafi sjöunda áratugarins. Hann er oft kynntur sem einhvers konar ímynd Leiðtogans. Sú mynd er mjög óréttmæt. John F. Kennedy var á margan hátt slakur forseti sem hélt illa á málum, eins og örnefni eins og Svínaflói og Berlín mættu minna menn á. Honum var þó ekki alls varnað og má vissulega eiga það að hann beitti sér fyrir skattalækkunum sem komu sér vel fyrir Bandaríkjamenn, en frammistaða hans í mörgum öðrum málum var þess eðlis að það er fráleitt að taka Kennedy sem dæmi um öflugan leiðtoga. Svínaflói til dæmis, er klúður sem kúbverska þjóðin hefur sopið seyði af í meira en fjörutíu ár. Kúbverskir útlagar gerðu í aprílmánuði 1961 innrás á Kúbu, frá Bandaríkjunum, með hálfvolgum stuðningi Kennedys. Bandaríkjamenn þjálfuðu útlagana og sáu þeim fyrir aðstöðu, en veittu þeim ekki nauðsynlega aðstoð, svo sem við að tryggja þeim yfirráð í lofti. Útlagarnir urðu á endanum auðveld bráð fyrir her Castros, birgðum upp af Sovétmönnum. Eftir innrásina notaði Castro tækifærið, lýsti yfir sósíalísku ríki á Kúbu og herti mjög tök sín á landsmönnum. Fullyrða má að Svínaflóaævintýrið hafi verið mikið axarskaft. Slík aðgerð hefði annað hvort átt að fara fram með fullum stuðningi og þátttöku Bandaríkjanna – eða þá alls ekki. Í skjóli þessara afglapa Kennedys herti Castro tökin á landsmönnum og hefur haldið þeim í greip sér í meira en fjörutíu ár. Svínaflóaævintýrið varð Sovétmönnum líka sönnun þess að þeir gætu gengið harðar fram í Evrópu. Sumarið 1961 horfðu Bandaríkjamenn aðgerðalausir á þegar Berlínarmúrinn var reistur og bak við það minnismerki um leiðtogahæfileika Johns Kennedys var milljónum manna haldið föngnum sem í stíu, í áratugi.

Kennedy var demókrati og vitaskuld var eftirmaður hans, Lyndon B. Johnson, það einnig. Það voru þeir tveir sem báru meginábyrgð á því að Bandaríkjamenn drógust út í stríð í Indó-Kína, stríð sem oftast er nefnt Víetnam-stríðið. Kennedy sendi fyrstu bandarísku hermennina til landsins í nóvember 1961 og tveimur árum síðar stóð hann meðal annars fyrir valdaráni, þar sem Ngo Dinh Diem, leiðtogi sunnanmanna, bandamanna Bandaríkjanna, var myrtur. Sú aðgerð var ein af fjölmörgum mistökum Kennedys, sem ótrúlega oft voru mislagðar hendur. Það var síðan í forsetatíð Johnsons sem Bandaríkjamenn drógust endanlega inn í átök, sem stóðu allt þar til Richard Nixon kom Bandaríkjamönnum út úr þeim. Þó er það svo, að í kvikmyndum og fræðsluþáttum er það yfirleitt Nixon sem er sýndur þegar minnst er á Víetnam-stríðið og þátttöku Bandaríkjanna í því. Johnsons mun sjaldnar getið og Kennedys enn sjaldnar, enda voru þeir voða góðir demókratar, ólíkir svíninu honum Nixon sem var líka með segulbönd á skrifstofunni hjá sér.

E n yfir í allt aðra sálma. Í dag á afmæli forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Vef-Þjóðviljinn óskar honum allra heilla á þessum merkisdegi.