Föstudagur 13. maí 2005

133. tbl. 9. árg.
Það er engin niðurstaða kosninga að Framsóknarflokkurinn eigi að leiða ríkisstjórn. Það er alveg fráleit hugmynd. … Niðurstaðan að Halldór yrði forsætisráðherra kom ekki upp úr kjörkössunum.
– Lúðvík Bergvinsson þingmaður Samfylkingarinnar á Útvarpi Sögu 12. maí 2005.

Þess gætir nú mjög í máli margra Samfylkingarmanna að það sé alveg galið að Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins sé forsætisráðherra. Það helsta sem þeir nota gegn Halldóri er að hann hafi aðeins haft um 12% kjósenda á bak við sig þegar hann var kjörinn á þing fyrir tveimur árum og Framsóknarflokkurinn hafi ekki nema 18% fylgi.

Gott dæmi um þetta óþol gagnvart forsæti Halldórs mátti heyra í spjallþætti á Útvarpi Sögu í gær. Þar lá nærri að Lúðvík Bergvinsson þingmaður Samfylkingarinnar gleymdi þeim helsta tilgangi lífs síns að tala máli starfsmanna Samkeppnisstofnunar svo mikið plagar það hann að Halldór Ásgrímsson 7. þingmaður Reykvíkinga skuli vera forsætisráðherra. En gefum okkur nú, Samfylkingarmanna vegna, að það sé gott og gilt sjónarmið að menn þurfi meira en 12% fylgi í þingkosningum til að verða forsætisráðherrar. Hvað má þá segja um þá sem ná ekki kjöri á þing? Er sanngjarnt að þeir verði forsætisráðherrar? Vefþjóðviljinn man ekki betur en að forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar hafi einmitt ekki náð kjöri á þing en margir Samfylkingarmenn hefðu þó engu að síður viljað að viðkomandi yrði forsætisráðherra í nýrri vinstristjórn. Hefði verið nær lagi að gera Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarfulltrúa að forsætisráðherra þegar niðurstöður alþingiskosninganna 2003 lágu fyrir? Hefði það verið sanngjarnari niðurstaða miðað við hvað kom upp úr kjörkössunum?

Nei auðvitað ekki. Enda var það fyrsta verk Samfylkingarinnar þegar úrslitin lágu fyrir að bjóða öðrum en Ingibjörgu borgarfulltrúa forsætisráðherrastólinn. Og ekki bara einhverjum. Og ekki heldur formanni stærsta stjórnmálaflokksins og ekki heldur eigin formanni sem var þó í næststærsta flokknum. Samfylkingin bauð Halldóri nokkrum Ásgrímssyni starfið og má því eiga allan heiðurinn af þeirri hugmynd að gera hann að forsætisráðherra

Síðan Gunnar Örn Örlygsson þingmaður sagði skilið við Frjálslynda flokkinn í fyrrakvöld og gekk í Sjálfstæðisflokkinn hafa fréttamenn og stjórnmálamenn klifað á því ríkisstjórnin hafi aukið meirihluta sinn á Alþingi um einn mann. Þetta er þó ekki alveg rétt því munurinn á stjórn og stjórnarandstöðu fór úr 5 þingmönnum í 7.

Þessi misskilningur er þó auðveldlega fyrirgefanlegur því síðast þegar þingmaður yfirgaf stjórnarandstöðu til að ganga til liðs við stjórnarliðið var það Kristinn H. Gunnarsson. Síðan hafa menn sjálfsagt haft á tilfinningunni að við slík liðhlaup aukist munur á fylkingum í þinginu vart um meira en einn.