Fimmtudagur 19. maí 2005

139. tbl. 9. árg.

Það er margt sem hægt er að kvarta yfir. „Íbúar í bryggjuhverfinu hafa ítrekað kvartað yfir þessum nágranna sínum“ sagði fréttamaður Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi og átti við fyrirtækið Björgun, sem er með starfsemi sína ekki langt frá þessu hverfi – sumum íbúum þar til ama, að því er virðist. Fréttamaðurinn hafði talsverða samúð með íbúunum en minni með fyrirtækinu og starfsmönnum þess, og virtist ekki telja ástæðu til að velta mikið fyrir sér hvor hefði nú komið á undan eða hvort það gæti verið að fólk hefði flutt í bryggjuhverfið alveg grunlaust um þá starfsemi sem fer fram uppi á höfða. Svona eins og fólkið sem flytur í Grjótaþorpið og kvartar hástöfum yfir hávaða af næturlífi Reykjavíkur.

En það er alltaf hægt að kvarta yfir einhverju og stundum mætti ætla af fréttatímum eins og brotið sé á fólki um allan heim, dag og nótt. Á biðlista eins vinsæls kvartanamóttakara, Mannréttindadómstóls Evrópu, eru núna um áttatíuþúsund mál og væri hægt að ímynda sér af slíkum tölum sem mannréttindi hefðu aldrei verið minna metin í veraldarsögunni en einmitt nú – á þeim tímum sem næstum hvaða lúxuskrafa sem er getur fengið mannréttindastimpil og allir komast í fjölmiðla með því að skeyta orðinu „mannréttindi“ framan eða aftan við annað hvert orð. Það er skoðun Vefþjóðviljans að mannréttindi hafi aldrei í manna minnum verið betur tryggð en nú. En hins vegar hafi hugtakið mannréttindi átt betri daga. Þegar næstum hvað sem er  er kallað „mannréttindi“ og hvaða tæknilega smáatriði sem er „mannréttindabrot“, þá fellur gengi mannréttinda sem hugmyndar. Mannréttindi eru einfaldlega nokkur grundvallaratriði, svo sem frelsi til lífs, verndun eignarréttar, heimild til þess að hafa og setja fram skoðun – trúarskoðun með talin – og réttur til þess að vera ekki hnepptur í fangelsi án dóms, réttur til að bera mál undir dómstóla. Á þessu eru geta síðan verið takmarkanir, sem ekki eru mannréttindabrot nema þau gangi yfir einhver mörk, sem þó er auðvitað erfitt að segja fyrirfram hver séu. Þannig getur verið nauðsynlegt að handtaka mann svo koma megi honum fyrir dóm eða stöðva hann við afbrot og svo myndu líklega flestir segja að hinu opinbera væri heimilt að heimta einhverja skatta af borgurunum án þess að það þýddi að brotið hefði verið gegn eignarrétti þeirra. Matsatriðið verður þá í þessum dæmum það hvað hversu lengi megi halda manni í gæslu án dóms og hversu hár skattur geti orðið svo hann teljist ekki hreint og klárt afnám eignarréttar. – Auðvitað geta menn sagt að skattgreiðandi sé sviptur eignarrétti á nákvæmlega þeim krónum sem honum er gert að greiða, en það er ekki það sem átt er við með því að eignarréttur teljist til mannréttinda. Þar er átt við hinn almenna rétt til þess að eiga eignir, ekki það að engin skerðing þeirra, svo sem með einhverri skattheimtu, geti komið til greina.

En á síðustu árum hefur mannréttindaumræða þynnst verulega á Vesturlöndum og mjög sennilega vegna þess að ástand mannréttinda er þar almennt séð mjög gott. Það er sennilega vegna þess að grundvallarmannréttindi eru vel tryggð, sem menn geta leyft sér að kalla hvað sem er mannréttindi. Ótrúlega hátt hlutfall af þeim málum sem berast stofnun eins og Mannréttindadómstól Evrópu á ekkert erindi þangað, eins og sést meðal annars af því hversu geysilega háu hlutfalli mála er vísað frá honum. Og mörg af þeim málum sem dómstóllinn tekur fyrir, eru líka mikið þunnildi. Þau mál sem að Íslandi snúa eru sárafá, en ganga kannski út á að dómarar við dómstólinn eru að gagnrýna íslenska dómstóla, þó þeir séu fyrir dómstólnum kallaðir „íslenska ríkið“. Íslendingar þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af mannréttindamálum enda eru mannréttindi að mestu leyti vel tryggð á Íslandi – og er þá ekki aðeins átt við grundvallarmannréttindi heldur líka allt jólatrésskrautið sem farið er að kalla mannréttindi.

En alltaf skal vera fullyrt að vegið sé að mannréttindum á Íslandi. Það nýjasta í umræðunni var þegar félag eitt, sem kallar sig Mannréttindaskrifstofu Íslands, fékk ekki sömu styrki og áður frá ríkinu. Þeir sem ræða um það mál, gæta þess vandlega að nefna ekki að á sama tíma og þeir styrkir lækkuðu þá hækkuðu meðal annars styrkir hins opinbera til Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands, en á milli þessara félaga hafði áður verið samstarf. Það hefur komið fram í fréttum að Mannréttindaskrifstofa Íslands hafði fengið styrki frá hinu opinbera sem það deildi með Mannréttindastofnun Háskólans samkvæmt sérstökum samningi. Þessum samningi rifti Mannréttindaskrifstofan ein og sér og hugðist sitja ein að peningunum. Eftir það ákvað hið opinbera að hætta að úthluta félaginu beint á fjárlögum en veita sama fé einfaldlega almennt til mannréttindamála. Í framhaldinu var auglýst eftir styrkþegum og gátu þar með allir þeir sem vinna að mannréttindamálum fengið styrki, en ekki eingöngu þetta eina félag. Framlög til mannréttindamála minnkuðu ekki um krónu. Það urðu bara fleiri sem gátu fengið styrki eftir að einkaréttur þessa eina félags var afnuminn. En það vildu ekki nútímalegir mannréttindamenn.