Laugardagur 30. apríl 2005

120. tbl. 9. árg.

Jæja, þá er Einar Kárason búinn að skila sér. Hann birtist alltaf þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þarf nokkurs við, og í gær úthúðaði hann svila hennar, Össuri Skarphéðinssyni, í grein í Morgunblaðinu. Lykilatriðið í grein Einars er þetta: Skýringin á því, að Einar Kárason getur ekki tekið Samfylkinguna alvarlega svo lengi sem Össur Skarphéðinsson er formaður, er sú að eftir síðustu þingkosningar stakk Össur upp á því að mynduð yrði ríkisstjórn Samfylkingar og Framsóknarflokks, en undir forystu Halldórs Ásgrímssonar. Össur reyndi sem sagt eingöngu að koma flokki sínum í ríkisstjórn, en hugsaði hins vegar ekki um það eitt sem Ingibjörgu Sólrúnu, Einari Kárasyni og öðrum slíkum þykir eitt nokkurs virði: að Ingibjörg Sólrún nái persónulega hæstu vegtyllum. Össur barðist fyrir leið sem hefði skilað Samfylkingunni mun meiri áhrifum á landsstjórnina en flokkurinn hefur nú, en þar sem sú gerð hans snerist fremur um flokkinn en Ingibjörgu, þá varð hún til þess að Einar Kárason sá í sjónhendingu að þessi maður mátti ekki vera formaður lengur.

Með tilboði sínu til Framsóknarflokksins fórnaði Össur engum málefnum, aðeins forsætisráðherrastól sem flokkurinn augljóslega átti enga möguleika á að fá, hvort eð var. Og vegna þessa getur Einar Kárason ekki stutt hann. Einar hefði betur kunnað að meta ef tilboðið hefði verið um að Framsókn fengi í stjórnarsamstarfi við Samfylkingu öllum sínum málum framgengt, en Ingibjörg Sólrún, Ingibjörg Sólrún, Ingibjörg Sólrún hefði orðið forsætisráðherra. Einar Kárason styður einmitt stjórnmálamann sem gefur baráttumálin eftir, strax að loknum kosningum, ef það gæti komið honum í ríkisstjórn. Skýrt dæmi eru alþingiskosningarnar 1991. Í þeim kosningum var baráttan gegn álveri stærsta kosningamál Kvennalistans. Álverið var hins vegar baráttumál ríkisstjórnarinnar sem þá sat, vinstristjórnar Steingríms Hermannssonar Á kosninganótt varð ljóst að ríkisstjórnin hefði ekki lengur meirihluta í báðum deildum þingsins, en Borgaraflokkurinn hafði þurrkast út, Stefán Valgeirsson var dottinn af þingi og Hjörleifur Guttormsson myndi aldrei styðja álver. En í beinni sjónvarpsútsendingu á kosninganótt lýsti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir því yfir, án samráðs við nokkurn félaga sinn, að Kvennalistinn myndi bara víst styðja álverið – sem hafði verið aðalmál flokksins að stöðva – ef það yrði til þess að hún sjálf kæmist í ríkisstjórn. Um þessa furðulegu framgöngu orti eitt allra þekktasta skáld landsins:

Brotin lá hækjan sem Borgaraflokkurinn var
á burtu var Stefán, og Hjölli á öðru máli.
En Ingibjörg Sólrún, hún birtist sem bjargvættur þar
og bauðst til að vera gervilöpp – úr áli.

Það er sérstaklega við hæfi að rifja þessa vísu upp í tilefni af grein Einars Kárasonar, enda notaði Einar í grein sinni það hefðbundna orðalag að Össur hefði fyrir tveimur árum boðið Samfylkinguna fram sem „hækju“ undir Framsóknarflokkinn. Það er einkenni á þeim sem hafa bara áhuga á titlum en ekki framgangi skoðana, að þeir telja alltaf að sá flokkur sem ekki fer með forsætisráðuneytið sé hækja undir hinn. Og Einar Kárason telur að ekki sé hægt að taka Samfylkinguna alvarlega undir forystu Össurar Skarphéðinssonar fyrst Össur hafi boðist til að sitja í ríkisstjórn undir forystu formanns Framsóknarflokksins. En ætli Einar taki Sjálfstæðisflokkinn alvarlega? Þetta gerir Sjálfstæðisflokkurinn og virðist rólegur.

Og þegar Framsóknarflokkurinn neitar að setjast í ríkisstjórn með Samfylkingu undir forystu Halldórs Ásgrímssonar; hvaða veruleikafirringu þarf þá til að halda að Framsóknarflokkurinn hefði samþykkt að setjast í ríkisstjórn með Samfylkingu en undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur? Hvað fær menn eiginlega til að skrifa í blöðin eins og Einar Kárason gerir?

Raunar þarf grein Einars Kárasonar ekki að koma neinum á óvart. Einar kemur alltaf þegar gefur á bátinn hjá Ingibjörgu. Fyrir hálfu þriðja ári mætti hann meira að segja í blöðin og það oftar en einu sinni, til að útskýra það að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þyrfti ekki að standa við loforð sín til kjósenda sinna í Reykjavík um að sitja kyrr sem borgarstjóri en fara ekki í framboð til alþingis. Skýring Einars var sú að það hefði sko bara „verið leikflétta sjálfstæðismanna að þráspyrja borgarstjórann um þetta málefni fyrir kosningar, og gera svo svör hennar að meginmáli stjórnmálabaráttunnar að kosningum loknum“. Og af því að það hefðu verið sjálfstæðismenn sem hefðu spurt – það voru raunar ótal fréttamenn sem spurðu – , þá væru svörin ómark og Ingibjörg Sólrún þyrfti ekki að standa við svörin ef það hentaði ekki Ingibjörgu Sólrúnu. Kjósendur R-listans sem hefðu tekið mark á svörunum, þeir gætu bara átt sig. Það hefðu verið einhverjir sjálfstæðismenn, holdsveikir eins og þeir eru allir, sem hefðu spurt. Þá má ljúga hverju sem er.

Nei, grein Einars Kárasonar kemur ekki á óvart, og ekki heldur hversu langt hann gengur í dellunni til að styðja Ingibjörgu Sólrúnu. Það hefði komið meira á óvart ef það hefði dregist lengur að fá grein frá Einari. Það fer á vissan hátt vel á því, að fyrir neðan grein Einars Kárasonar birtir Morgunblaðið sumarkveðju ljúfmennisins Árna Helgasonar frá Stykkishólmi. Stuðningur Einars Kárasonar við allt sem kemur frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur er einmitt jafn óviss og vaklandi og andstaða Árna Helgasonar við áfengið. Þann dag sem Einar Kárason sér eitthvað að Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur mun Árni í Hólminum fá sér einn.