Föstudagur 29. apríl 2005

119. tbl. 9. árg.
Frá 1999 hefur Steinunn ítrekað reynt að frábiðja sér þessar sendingar. Hún hefur margoft hringt á skrifstofur Samfylkingarinnar og nokkrum sinnum sent tölvupóst. Ítrekað hefur því verið lofað að gengið verði í málið – en ALLTAF byrja póstsendingarnar aftur.
– Stefán Pálsson segir frá árangurslausum tilraunum konu sinnar til að ganga úr Samfylkingunni.

Svanfríður Jónasdóttir fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar bauð Hannesi H. Gissurarsyni og áhorfendum að Silfri Egils á Stöð 2 á sunnudaginn upp á námskeið í beinni útsendingu um lýðræðislegt flokksstarf. Í máli hennar kom fram að Samfylkingin hefði verið að þróa lýðræðislegt stjórnmálastarf þar sem kjósendur og félagar Samfylkingarinnar væru í lykilhlutverki. Ekki var þó ljóst af þessari lýsingu á enduruppfinningu lýðræðisins hvort bæði frjálsir og nauðugir félagar í Samfylkingunni hefðu sama hlutverki að gegna.

Sem von er spurði prófessorinn Svanfríði hvernig stæði þá á því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði verið gerð að forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar án þess að hinn almenni flokksmaður hefði haft nokkuð um það að segja. Sem kunnugt er segir Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar að hann sjálfur og stuðningsmenn Ingibjargar hafi tekið ákvörðun um þetta en Ingibjörg segir Össur einan hafa tekið ákvörðun um að tilkynna þetta. Það er með öðrum orðum ekki nóg með að ákvörðunin hafi verið tekið af afar þröngum hópi heldur liggur ekki fyrir hvernig hún var tekin eða hverjir stóðu að henni.

En það er jafnvel til enn betra dæmi um lýðræðislegt þróunarstarf Samfylkingarinnar. Og það sem er svo skemmtilegt við það dæmi er að Svanfríður Jónasdóttir kemur sjálf við sögu.

Árið 1999 hélt Samfylkingin prófkjör á Norðurlandi-eystra enda flokkurinn með lýðræðisslagorðin sín á hraðbergi. Í prófkjörinu varð Sigbjörn Gunnarsson í efsta sæti en Svanfríður Jónasdóttir númer þrjú. Flokksforustan var ekki ánægð með þessa niðurstöðu kjósenda og lét telja upp á nýtt. En sama niðurstaða varð. Sigbjörn fékk flest atkvæði. Því ákvað flokksforystan hinnar lýðræðislegu Samfylkingar að Svanfríður yrði númer eitt en Sigbjörn númer ekki neitt. Svanfríður fór á þing en Sigbjörn settist að í Skútustaðahreppi.