Helgarsprokið 1. maí 2005

121. tbl. 9. árg.

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur sett sér þá reglu að þingmenn sitji ekki í stjórnum opinberra fyrirtækja og ráða. Þess vegna situr Helgi Hjörvar áfram í stjórn Landsvirkjunar eftir að hann var kjörinn á þing árið 2003 og settist einnig í stjórn annars af fasteignafélögum Reykjavíkurborgar, Fasteignastofu Reykjavíkur, sama ár til að undirstrika hvað er mikið mark takandi á reglum þingflokksins. Rannveig Guðmundsdóttir situr auðvitað í stjórn Norræna menningarmálasjóðsins. Ekki hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir heldur sagt af sér sem bankaráðsmaður í Seðlabanka Íslands eða sagt sig úr stjórn Aflvaka þótt hún hafi setið reglulega á þingi frá kosningum 2003, sé varaformaður í flokki sínum og á leiðinni inn á þing í haust í stað Bryndísar Hlöðversdóttur. Eiga ekki að gilda sömu reglur um þá sem eru með annan fótinn á Alþingi og þá sem eru þar alla jafna? Jafnvel Kristinn H. Gunnarsson, eini þingmaður Samfylkingarinnar í Framsóknarflokknum, situr í Tryggingaráði.

En Samfylkingin er ekki ein um lýðskrumið. Framsóknarflokkurinn hefur tekið saman upplýsingar, sem flestar eru hvort eð er opinberar, um þingmenn sína og birt á lýðnetinu. Þar vantar upplýsingar um skuldir þingmannanna og greiðslustöðu þeirra gagnvart lánveitendum. Þetta framtak er því sama marki brennt og svo margt annað sem stjórnmálamenn og -flokkar eru að gera til að „opna“ bókhald og fjármál sín. Það fæst engin heildarmynd sem mark er takandi á.

Í sunnudagsblaði Fréttablaðsins er rætt við Lúðvík Bergvinsson þingmann Samfylkingarinnar um þetta framtak Framsóknarflokksins og hann spurður um þá staðreynd að Framsóknarflokkurinn er að hluta til að gera það sem Samfylkingin hefur lofað að gera frá því flokkurinn var stofnaður. Svör Lúðvíks vekja auðvitað athygli.

Við viljum að þingið setji lög um þessi efni því við óttumst að ef hver flokkur geri þetta fyrir sig verði þetta marklaust. Hver á að fylgja eftir siðareglum Framsóknarflokksins? Ætlar þingflokksformaðurinn hverju sinni að lesa skattskýrslur þingmanna og fylgjast með hvort menn hafi keypt og selt hlutabréf? Við í Samfylkingunni settum okkur starfs- og siðareglur 1999 en eftirfylgni þeirra hefur fjarað út því það er enginn til að fylgja þeim eftir.

Já það er hætt við að eftirfylgni verði lítil þegar enginn fylgir málum eftir. Það er ekki vitlaus kenning hjá þingmanninum. Þetta hefur bara fjarað út hjá þeim í Samfylkingunni. Og þeir sem eru svo áhugasamir um að hafa svona reglur, allt kemur fyrir ekki. Samfylkingarmenn hafa sett sig á háan hest gagnvart öðrum flokkum með því að vísa í þessar reglur sínar. Nú játar þingmaður Samfylkingarinnar að þessar miklu grundvallarreglur hafi bara „fjarað út“.

Reyndin er auðvitað sú að reglur um fjármál flokka og frambjóðenda hafa í mesta lagi þau áhrif að einhverjir hætta við að bjóða sig fram til stjórnmálastarfa vegna þess að þeir vilja ekki bera fjármál sín og sinna á torg. Líklega munu svo þeir sem hvort eð er eru með allt sitt á þurru gefa allar upplýsingar sem máli skipta upp. Hinir munu finna leiðir til að breiða yfir það sem þolir ekki dagsljósið.

Það sama á við um fjármál stjórnmálaflokkanna. Víða um lönd hafa menn reynt að setja reglur um þau en jafnvíða hafa menn fundið leiðir framhjá slíkum reglum. Það var ekki fyrr búið að breyta reglum um fjármál stjórnmálaflokka í Bandaríkjunum fyrir nokkrum misserum en upp komu kröfur – frá þeim sömu og höfðu forgöngu um breytingarnar – að breyta reglunum á nýjan leik því þegar voru komnar leiðir í ljós leiðir til að sniðganga þær. Það liggur heldur ekkert fyrir um að spilling sé minni í þeim löndum þar sem slíkar reglur eru en í þeim löndum þar sem þær eru ekki staðar.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þegar stjórnmálaflokkunum er sniðinn þröngur stakkur að þessu leyti leitar fjárstuðningurinn í annan farveg. Þá stofna menn bara stuðningsfélög fyrir flokkana og þau beita sér í þeirra þágu fyrir kosningar. Dæmi um það er þegar „Ungt fólk í Samfylkingunni“ lét þrýstihóp í landbúnaðarmálum kosta auglýsingar fyrir sig í kosningarbaráttu.

Menn geta líka velt því fyrir sér hvort stjórnmálaflokkar verði óháðir við það að geta ekki aflað fjár án þess að gefa upp hverja krónu. Það blasir við að slíkar reglur um birtingu fjárframlaga minnka möguleika flokkanna til fjáröflunar. Þar með auka menn afl alls kyns þrýstihópa í umræðunni.

Síðast en ekki síst er það atlaga að tjáningarfrelsi hins almenna manns að geta ekki stutt við starf að hugsjónum sínum – já sumir telja það mögulegt með því að styrkja stjórnmálaflokka – án þess að það sé birt opinberlega.