Föstudagur 15. apríl 2005

105. tbl. 9. árg.

Ígær var sagt frá því í DV að á gamlársdag liðins árs hafi borgarstarfsmönnum verið sagt að kaupa þrennar hjólbörur og fara með þær heim til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem ætlaði að nota þær undir kampavín í fimmtugsafmæli sínu sama dag. „Vinkonur mínar áttu hugmyndina“, hefur DV eftir Ingibjörgu Sólrúnu. Þetta kemur á óvart. Vefþjóðviljinn hafði alltaf vitað að Ingibjörg væri úti að aka, en að það væri í hjólbörum, það er meira en búast mátti við.

Síðustu dagana hafa Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og fleiri notendur hugtaksins „samræðustjórnmál“ bent sigri hrósandi á dæmi sem þau telja að sýni hvað þau eigi við með þessu hugtaki. Þau telja góðan árangur af umræðustjórnmálunum sem fóru fram í fjölmiðlanefnd menntamálaráðherra. Í nefndinni urðu fulltrúar allra flokka sammála um niðurstöðuna. Þetta er svo borið saman við „átakastjórnmálin“ frá síðasta sumri þegar fjölmiðlamálið stóð sem hæst. Það þótt ekki góð snerra.

En bíðum nú aðeins við. Niðurstaðan af átökunum síðasta sumar var sú að engar nýjar hömlur voru settar á starfsemi fjölmiðla. Eftir öll munnræpustjórnmálin í fjölmiðlanefndinni í vetur stefnir hins vegar allt í að settar verði alls kyns vitleysisreglur um starfsemi fjölmiðla.

Má þá Vefþjóðviljinn frekar biðja um átakastjórnmál en samræðustjórnmál sem enda í samráði stjórnmálaflokkanna um að takmarka frelsi borgaranna.

Meira af hugtakanotkun. Í fyrradag var vikið að því á þessum síðum að allt stefnir í að ríkið kasti milljörðum króna í framkvæmd nokkra norður á Tröllaskaga. Þetta er mjög dýr og óarðbær framkvæmd sem einkaaðilar færu þar af leiðandi seint eða aldrei út í. Langvinnt og vel skipulagt hagsmunapot Siglfirðinga og Ólafsfirðinga hefur hins vegar skilað þeim loforði frá ríkinu um að setja 6 til 8 milljarða króna í verkið. Framkvæmdin hefur það í för með sér að hraðbraut verður lögð um fallegan eyðifjörð. Héðinsfjörður er einstakur fyrir það hve hann er afskektur og erfitt að komast þangað. Hann myndi því væntanlega falla undir hugtakið „ósnortin náttúra“ ef fletta ætti upp í hugtakabók Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Það vekur því auðvitað athygli að vinstrigrænir hafa ekki sett sig á móti því að firðinum sé spillt með því að gata fjöllin eins og svissneskan ost og leggja hraðbraut um hann þveran.

Ætli þessi þögn vinstrigrænna um þau „spjöll“ sem þarna fara fram á „ósnortinni náttúru“ hafi nokkuð með það að gera að formaður vinstrigrænna er þingmaður Ólafsfirðinga og Siglfirðinga?

ÍÍdag er fagnað 75 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Vinir hennar og aðdáendur, sem munu vera allmargir, hafa í tilefni afmælisins reynt að gera Vigdísi sem hæst undir höfði, meðal annars með mikilli alþjóðlegri ráðstefnu og veislu, forsetanum fyrrverandi til heiðurs. Það er svo auðvitað alger tilviljun að núverandi forseti Íslands efndi til opinberrar heimsóknar sjálfs sín til Akureyrar og nærsveita og var þar lungann úr afmælisvikunni. Ólafur Ragnar Grímsson hefur bara alls ekki séð fyrir að með því móti yrði hann sjálfur í fréttunum á hverju kvöldi, dagana fyrir stórafmæli fyrirrennara síns. Ólafi Ragnari finnst það leiðinlegt; ekki vill hann draga athyglina frá Vigdísi en að sér í afmælisvikunni.