Á<!––> <!––> fimmtudaginn var dregið í lóðó. Undirbúningur að þessu einstæða happdrætti hefur staðið lengi. Hefur margt verið gert til að tryggja góða þátttöku. Meðal annars hefur lóðaframboð í Reykjavík verið takmarkað og gríðarlangar biðraðir eftir lóðum myndaðar. Í stað þess að taka til óspilltra málanna og gera nýtt land byggingarhæft efnir R-listinn til þessa happdrættis um örfáar lóðir. R-listinn hefur þannig dregið úr hömlu að gera Geldingarnes byggingarhæft og hefur einnig nýlega samið við ríkið um að flugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni næstu áratugi. Til að reyna að sýna að venjulegir Reykvíkingar geti enn fengið lóðir á viðunandi verði er svo efnt til happadrættis með flóknum reglum um örfáar lóðir við Lambasel í Breiðholti. En jafnvel framkvæmd happdrættisins er með ólíkindum.
Eitt af skilyrðum fyrir umsókn um lóð í Lambaseli var að hver aðili mætti einungis sækja um einu sinni og töldust hjón og sambúðarfólk eitt. Ekkert liggur fyrir að það hafi verið sannreynt hvort einhverjir hafi brotið gegn þessu skilyrði. Besta leiðin til þess að ganga úr skugga um að svo hafi verið var að tölvuskrá kennitölur allra umsækjanda. Það virðist ekki hafa verið gert. Því vaknar sú spurning hvort einhverjir hafi verið með fleiri en eina umsókn í bunkanum.
Í dagblöðum í gær birtust myndir af glaðhlakkalegum embættismönnum þar sem þeir lýstu því hvernig þeir hefðu dregið umsóknarnúmer úr „kökuboxi“! Þessi aðferð er stundum notuð í minniháttar happdrættum svo sem á starfsmannaskemmtunum og í barnaafmælum. En þegar jafn ríkir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi og í lóðó hlýtur að vera gerð krafa um vandaðri vinnubrögð. Ekki var sagt nánar frá því hvernig drátturinn fór fram og var hvorki fjölmiðlum né umsækjendum heimilað að vera við dráttinn. Það er þó ljóst að þessi aðferð er almennt líkleg til að leiða til þess að útdráttur verði ekki fullkomlega tilviljanakenndur. Erfitt er að láta blaðmiða í kassa blandast þannig að dreifing þeirra í kassanum sé óháð því hvernig þeir voru settir í kassann, auk þess sem miðar vilja loða saman. Þannig getur það hvernig sett er í kassann haft áhrif á hvaða miðar eru dregnir úr honum. Svo virðist einmitt hafa verið raunin í þessu tilviki. Þannig var umsókn númer 545 dregin út í 14. drætti og umsókn númer 546 í 15. drætti. Það er með ólíkindum að tvær samliggjandi umsóknir úr svo stórum bunka séu dregnar út í röð. Það er þó ekki jafn ólíklegt og að jafnmörg umsóknarnúmer á bilinu 1 til 1000 skyldu vera dregin út og raun ber vitni. Af þeim 30 sem fengu lóð voru 18 með númer á bilinu 1 til 1000. Alls voru dregin út 50 númer, 30 fengu lóð og 20 eru til vara.
Á myndinni hér að ofan sést dreifing þessara fimmtíu útdregnu umsókna á jafn stór númerabil. Áberandi flestir eru dregnir út með lágt umsóknanúmer og raunar eru 25 af útdregnum umsóknum með númer minna en 1000. Heildafjöldi umsókna var 5658. Til að gæta eins mikillar sanngirni gagnvart framkvæmdinni á útdrættinum og mögulegt er tók Vefþjóðviljinn varaútdráttinn með í reikninginn. Ef aðeins væru teknir þeir sem fengu lóðir liti grafið enn undarlegar út.
Myndin hér að neðan sýnir svo líkur á því að tiltekinn fjöldi umsókna sé á einhverju tilteknu 1000 númera bili, t.d. 1-1000. Eins og sést er líklegast að þær séu 8 eða 9 en nánast óhugsandi að þær séu fleiri en 20. Þær urðu samt 25 í útdrættinum í Lambaseli.
<!––>
Ef við berum það saman við þær 25 umsóknir sem dregnar voru út í Lambaselslóðó á bilinu 1-1000 er niðurstaðan sláandi. Líkurnar á því að 25 eða fleiri umsóknir séu á tilteknu 1000 númera bili þar sem dregið er úr 5658 umsóknum er um það bil einn á móti fimm milljónum (1:5000.000). Það eru líklega svipaðar líkur og á því að einhver annar en R-listinn hefði staðið sig verr við stjórn borgarinnar.