Fimmtudagur 14. apríl 2005

104. tbl. 9. árg.

Nú er um hálfur mánuður frá því fréttastjóramál Ríkisútvarpsins risu hæst – eða sigu lægst. Fréttastjóramálin eru eiginlega tvö. Ráðning Auðuns Georgs Ólafssonar sem fréttastjóra og svo „ráðning“ Óðins Jónssonar sem fréttastjóra. Fjölmiðlamenn höfðu gríðarlegan áhuga á þeirri fyrri. Reyndu allt til að finna út að hún væri ekki lögleg, ekki hefði verið rétt að henni staðið, hún væri ekki réttilega rökstudd og þannig fram eftir götunum. Allt annað var uppi á teningnum með síðari ráðninguna. Þá urðu fréttamenn einfaldlega hæstánægðir, fögnuðu sigri og héldu hátíð.

Nú hefur Vefþjóðviljinn og sjálfsagt margir aðrir beðið í tæpar tvær vikur eftir því að fréttamenn fjalli með sama hætti um síðari fréttastjóraráðninguna og þá fyrri. Velti fyrir sér þeirri aðferð sem var beitt og velti fyrir sér lögmæti ráðningarinnar. En þessi bið hefur verið árangurslaus. Hinn ráðni hefur einfaldlega gefið út einhliða yfirlýsingu um að eigin ráðning hafi verið afskaplega „fagleg“, og meira þurfa hlustendur útvarpsins ekki að vita. Fréttamenn fara bara og hlakka yfir veiðinni.

En úr því útséð virðist vera um að fréttamenn velti vöngum yfir málinu, þá tekur Vefþjóðviljinn það að sér. Niðurstaða blaðsins er sú, að það sé í meira lagi vafasamt, svo ekki sé meira sagt, að ráðning Óðins Jónssonar sem fréttastjóra sé lögmæt.

Samkvæmt lögum er útvarpsstjóra skylt að fá umsögn útvarpsráðs áður en hann ræður í starf sem þetta. Honum er ekki skylt að fara að umsögninni, en honum er ekki heimilt að ráða í starfið áður en hann fær hana. Og var nú þetta lagaskilyrði uppfyllt? Eins og flestir vita þá kom útvarpsráð saman og mælti með einum umsækjanda um starfið, Auðuni Georg Ólafssyni. Útvarpsstjóri réði hann og sagði meira að segja aðspurður að frá því væri ekki hægt að bakka, málið væri frágengið. Auðun Georg kom svo til starfa, útvarpsstjóri fylgdi honum á fréttastofuna og þar var tilkynnt að næstu vikurnar yrði Bogi Ágústsson ritstjóri fréttanna á meðan að Auðun Georg kæmist inn í starfið. Undir lok þessa fyrsta vinnudags síns, sem var föstudagur, sendi Auðun Georg svo frá sér póst og sagðist ekki taka við starfinu. Formaður útvarpsráðs lýsti því þá yfir að málið yrði strax tekið fyrir á næsta fundi útvarpsráðs, sem yrði næsta þriðjudag. Á sunnudeginum þar á milli réði útvarpsstjóri hins vegar Óðin Jónsson til að vera fréttastjóri. Jafnskjótt misstu fréttamenn áhuga á málinu.

Síðan þetta hefur gerst hefur útvarpsstjóri hafnað því að gera starfslokasamning við Auðun Georg. Útvarpsstjóri lítur nefnilega svo á að Auðun hafi ekki verið tekinn við starfinu. Með öðrum orðum, útvarpsstjóri lítur svo á að Auðun Georg hafi dregið umsókn sína til baka. Það eru eiginlega ekki margir möguleikar í stöðunni. Annað hvort var Auðun Georg tekinn við starfinu og þá gilda hefðbundnar reglur um starfslok hans; formleg uppsögn og svo framvegis. Hinn möguleikinn er að Auðun Georg hafi einfaldlega aldrei orðið fréttastjóri. Til þess að sú skýring gangi upp, þá þarf annað hvort að hafa átt sér stað, Auðun Georg dregið umsókn sína til baka eða þá að útvarpsstjóri einhliða afturkallað ákvörðun sína um ráðningu hans. Hið síðara á ekki við, enda giltu þá reglur um afturköllun stjórnvaldsákvörðunar og útvarpsstjóri hefur aldrei sagt að hann hafi afturkallað ákvörðunina eða að hann hafi veitt Auðuni Georg andmælarétt vegna slíkrar ákvörðunar. Skoðun Ríkisútvarpsins er því ekki sú að fréttastjórinn Auðun Georg hafi sagt upp starfi sínu, heldur hafi umsækjandinn Auðun Georg dregið umsókn sína til baka.

En – þá þarf að leita nýrrar umsagnar útvarpsráðs. Úr því að það var einmitt sá umsækjandi sem útvarpsráð mælti með sem dró umsóknina til baka, þá þarf að gefa ráðinu kost á að veita umsögn að nýju. Menn mega ekki láta það rugla sig, hvenær Auðun Georg dró sig til baka. Þetta skýrist kannski betur ef menn hugsa með sér að Auðun Georg hefði gert það strax að loknum fundi ráðsins, eða jafnvel meðan á fundinum stóð. Auðvitað sæju þá allir að þá þyrfti nýja umsögn og að ráðning án hennar væri ólögmæt. Ef hins vegar útvarpsráð hefði mælt með einhverjum allt öðrum en Auðuni Georg þá ætti útvarpsstjóri auðveldara með að óska ekki nýrrar umsagnar. En þegar það er fyrsti kostur útvarpsráðs sem dregur sig til baka, þá er ekki heimilt að ráða án þess að gefa ráðinu kost á að benda á annan kost.

Það er ekki eingöngu útvarpsráð sem á heimtingu á því að það komi að nýrri umsögn. Það eru allir hinir umsækjendurnir. Hvernig ætlar Ríkisútvarpið að svara ef einhver hinna umsækjendanna leitar réttar síns? Ef einhver þeirra krefst þess að útvarpsstjóri afturkalli ólögmæta ráðningu og leitað verði lögskipaðrar umsagnar? Eða krefst einfaldlega bóta?

Á meðan að beðið var þess að Auðun Georg kæmi til starfa reyndu fréttamenn að láta eins og þeir hefðu bara áhuga á hagsmunum Ríkisútvarpsins og lögum og reglum. Þeir hikuðu ekki við að kalla ráðningu Auðuns Georgs ólöglega. En þeir minnast ekki á að ráðning Óðins geti verið álitamál, hvað þá meira. En úr því slá má því föstu að nýráðinn fréttastjóri, eins og allir aðrir starfsmenn útvarpsins, eða að minnsta kosti 93 % þeirra, hafi aðeins áhuga á lögmæti ráðninga og hag ríkisútvarpsins, þá má stinga upp á leið sem gæti tryggt það að farið væri að lögum. Hinn nýráðni fréttastjóri gæti sagt sig frá því starfi og útvarpsstjóri fallist á það. Því næst myndi útvarpsstjóri fela Óðni Jónssyni fréttamanni að gegna fréttastjórastarfi þar til nýr hefði verið ráðinn. Að því búnu verði starfið auglýst að nýju.

En svo er líka möguleikinn að láta bara eins og menn sjái ekkert athugavert við neitt. Þá veit fólk það.