„Nei, hvað fötin falla prýðilega að, og hvað þau fara dásamlega!“, sögðu allir. „Hvílíkt mynstur! Hvílíkir litir! Þetta er forkostulegur klæðnaður.“ |
Hans Christian Andersen, Nýju fötin keisarans, í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar. |
E itt af því fáa góða við atburðarás síðustu vikna innan Ríkisútvarpsins er það, að nú ættu mörg augu að hafa opnast fyrir mýtunum sem gengið hafa um Ríkisútvarpið og starfsfólk þess. Eitt skýrasta dæmið um slíka mýtu, er að „stjórnarliðar hafi fyllt Ríkisútvarpið af sínum mönnum“, að þar hafi verið „raðað inn flokksmönnum“ eða þá það vinsælasta, að stofnunin sé „full af sjálfstæðismönnum“. Hvað var það hátt hlutfall af starfsmönnum sem tók þátt í ofstækisfullum aðgerðum gegn lögmætri ákvörðun rétt skipaðs útvarpsstjóra? 93 % eða eitthvað álíka? Og sú ákvörðun var líka sögð vera um að koma inn „enn einum“ flokksmanninum, sem þó hefur aldrei verið í stjórnmálaflokki og er af vinum og kunningjum helst sagður vera Samfylkingarmaður. Ríkisútvarpið er svo sannarlega ekki fullt af flokksmönnum. Það er fullt af óflokksbundnum vinstrimönnum. Ofan á trónar svo sjálfstæðismaður eins og Markús Örn Antonsson, og fær yfir sig hatursgusur á fimm ára fresti, eða hvað hann er langur fresturinn milli þess sem hann reynir að gera eitthvað annað en undirmenn hans leyfa.
Það skýrasta um hvernig undirmennirnir hafa ráðið því sem þeir hafa vilja ráða, er orðalag einnar móðursýkisyfirlýsingar þeirra á síðustu dögum. Þar sögðu þeir, eins og þar væru sérstök tíðindi, að hinn nýi fréttastjóri væri ráðinn í umboði útvarpsstjóra eins! En ekki hvað? Í umboði G. Péturs Matthíassonar? Eða Gunnars Gunnarssonar?
Og hvernig er það, þegar fréttamenn hafa verið ráðnir hingað til , eftir atkvæðagreiðslu í útvarpsráði og svo framvegis, hefur það þá kannski ekki verið „faglegt“? Þegar allir gépétrarnir og gunnararnir hafa verið ráðnir inn, beint af Þjóðviljanum, var það þá kannski bara ekki „faglegt“? Það var í þessu sama kerfi. Af hverju er það bara Auðun Georg Ólafsson sem ekki má ráða?
Slagurinn um ráðningu Auðuns Georgs snerist ekki um hann eða hæfni hans – en vel að merkja hið „faglega innanhússálit“ sem fréttamenn heimtuðu að farið yrði eftir, sagði að Auðun Georg væri hæfur í starfið. Slagurinn stóð um það, hvort það væri búið að gefa frekustu starfsmönnum stofnunarinnar Ríkisútvarpið. Hvort fulltrúar eigenda mættu einhverju um það ráða, eða hvort starfsmenn ættu það einir og gætu sjálfir valið sér yfirmenn og þá tryggt að þeir fengju þá eina sem engum báti myndu rugga og gera allt eins og áður. Sú niðurstaða má ekki verða.
Talandi um niðurstöðu. Frá því var sagt í gær að Auðun Georg Ólafsson hefði ákveðið að þiggja ekki fréttastjórastöðuna. Það var heldur seint ákveðið hjá honum, því hann hafði þegar hafið störf. Engu breytir um það hvort hann var búinn að skrifa undir samninga eða ekki. Hann getur vitaskuld sagt starfinu lausu og reynt að semja við Ríkisútvarpið um að vinna ekki út uppsagnarfrest, en tölvupóstur til fréttamanna um að hann muni ekki þiggja starfið, hefur ekkert gildi. Ekki svo að skilja að neinn haldi þessu upp á hann – enda mun valkvæður áhugi fréttamanna á formsatriðum ekki nægja til að þeir nefni þetta – en Auðun Georg Ólafsson er enn fréttastjóri Ríkisútvarpsins.
Og hvaða endaleysa var þetta viðtal við hann í hádeginu í gær? Jú frammistaða hans var fáránleg, en það breytir ekki því að spurningar fréttamanns voru það líka. Af hverju að efna til þriðjugráðu yfirheyrslu um það hvort væntanlegur fréttastjóri hitti formann útvarpsráðs daginn fyrir upphaf starfs? Minnast menn þess að fréttamenn gangi almennt fram með sambærilegum hætti þegar þeir ræða við menn um mál sem snerta ekki prívathagsmuni þeirra sjálfra? Annar hver maður er búinn að tala um stríðsástand innan útvarpsins og hversu mikilvægt sé að finna leiðir til sátta. Hvað er óeðlilegt við það að Auðun Georg leiti ráða hjá þeim sem vel þekkja til innan útvarpsins? Af hverju reyndi fréttamaður Ríkisútvarpsins að gera þetta atriði að stórmáli þegar Auðun Georg fór í viðtal í hádeginu? Og Auðun fór á taugum og varð tvísaga um málið.
Önnur mýta sem fleiri og fleiri sjá í gegnum, er mýtan um fagmennskuna hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins. „Fagmennskan“ hefur birst í því hvernig fréttamennirnir hafa misnotað fréttatíma og þætti til að koma málstað sínum á framfæri en hleypa öðrum sjónarmiðum sem minnst að. Eitt dæmi mátti sjá kvöldið áður en Auðun Georg kom til starfa. Þá var málið til umræðu bæði í Íslandi í dag á Stöð 2 og í Kastljósinu á Ríkisútvarpinu. Ísland í dag taldi eðlilega að ástæða væri til að fá bæði fram sjónarmið með og á móti og ræddi við G. Pétur, fréttamann á Ríkisútvarpinu, og Eirík Bergmann Einarsson, varaþingmann Samfylkingarinnar, sem gagnrýndi framgöngu fréttamannanna og varði ráðningu Auðuns Georgs í starf fréttastjóra. Í Kastljósinu, þar sem enn meiri ástæða hefði verið til að fá viðmælendur sem héldu fram sjónarmiðum beggja, var rætt við tvo starfsmenn Ríkisútvarpsins sem töluðu einum rómi gegn ráðningu fréttastjórans.
Ef starfsmenn á fréttastofu Ríkisútvarpsins eru bara hlutlausir fagmenn, og ekki er slagsíða á Speglinum þeirra og öðrum ámóta þáttum, þá var keisarinn í raun og veru í gullfallegum fötum en þegnar hans heimskir allir.