Helgarsprokið 3. apríl 2005

93. tbl. 9. árg.

Það er víðar en á Íslandi sem „samkeppnisyfirvöld“ telja sig vita betur en neytendur hvað neytendum er fyrir bestu. Nýlega komu bandarísk yfirvöld í veg fyrir að myndbandaleigukeðjan Blockbuster keypti keppinaut sinn Hollywood Entertainment en Blockbuster hafði boðið einn milljarð dala í félagið. Blockbuster hefur undanfarið sagt upp starfsmönnum til að bæta rekstur félagsins. The Wall Street Journal sagði í leiðara um málið í vikunni að óvíst væri hvort kaupin á Hollywood Entertainment hefðu gert gæfumunninn fyrir rekstur Blockbuster en það væri hins vegar fráleitt að halda því fram að kaupin hefðu fækkað kostum neytenda.

Svonefnd samkeppnisyfirvöld virðast oft líta framhjá því að markaðir eru síhvikulir en ekki í kyrrstöðu. Það eru ekki aðeins ný fyrirtæki að spretta upp á hverjum degi heldur einnig nýjar vörur og þjónusta sem mæta þörfum neytenda. Það á ekki síst við um þann skemmtana- og afþreyingarmarkað sem Blockbuster starfar á. Samkeppnisyfirvöld í Bandaríkjunum virðast ekki gera sér grein fyrir því að hefðbundnar myndbandaleigur eiga ekki aðeins í keppni við aðrar myndabandaleigur. Kvikmyndahús, hefðbundnar sjónvarpsrásir, gervihnattastöðvar, kapalstöðvar og netleigur eru í harðri keppni um áhorfendur að sömu myndum. Þar við bætist að hefðbundnar verslanir eru farnar að selja DVD diska á verði sem er svo lágt að ef menn ætla að horfa á mynd oftar en einu sinni – eða lána öðrum í fjölskyldunni hana að áhorfi loknu – er það hagstæðara en að leigja myndina.

„Ólíkt því sem fylgismenn samkeppnislaga og afskipta stjórnvalda á grundvelli þeirra halda fram þá getur enginn búið yfir fullkominni þekkingu á markaðnum. Þessi þekking er dreifð úti á meðal neytenda og framleiðenda. Markaðshlutdeild fyrirtækja endurspeglar einungis hæfni fyrirtækisins í núinu til að sinna þörfum neytenda.“

Til að mæta þessari keppni hefur Blockbuster fellt niður dagsektir og sett upp netþjónustu. Það er því ekkert sem bendir til annars en að allt sé á fleygiferð á þessum markaði. Það er vandséð hvaða hlutverki embættismenn eiga að gegna. Þeir eru manna ólíklegastir til að sjá hvaða nýjungar og kostir bíða neytenda handan hornsins. Það má líka velta því fyrir sér hvað gerist ef Blockbuster fer einfaldlega á hausinn vegna þess að fyrirtækinu er meinað að kaupa önnur fyrirtæki í svipuðum rekstri. Þá fækkar einnig um keppendur á þessum markaði og við því geta samkeppnisyfirvöld ekkert gert. Bann við gjaldþroti væri þó ekkert fjarstæðukenndara en bann við samruna eða kaupum á öðrum fyrirtækjum.

Við þetta bætist svo að myndbandaleigur eiga auðvitað í keppni við aðra afþreyingu en kvikmyndir. Bækur, blöð, skemmtanir, íþróttaleikir, tölvuleikir, og tónlist eru svo fátt eitt sé nefnt auðvitað í keppni um athygli og eyri neytenda. Þetta á raunar við um flestar vörur og þjónustu. Samkeppni er – eða ætti að vera ef hún fengi að vera í friði fyrir samkeppnisyfirvöldum – ferli uppgötvana og sífelldra tilrauna í opnu markaðskerfi þar sem stöðug óvissa ríkir og menn eru látlaust að prófa nýjar vörur og aðferðir við að koma þeim á markað. Ólíkt því sem fylgismenn samkeppnislaga og afskipta stjórnvalda á grundvelli þeirra halda fram þá getur enginn búið yfir fullkominni þekkingu á markaðnum. Þessi þekking er dreifð úti á meðal neytenda og framleiðenda. Markaðshlutdeild fyrirtækja endurspeglar einungis hæfni fyrirtækisins í núinu til að sinna þörfum neytenda. Eins og dæmin sanna geta fyrirtæki náð og misst markaðshlutdeild á undraskömmum tíma. Það er svo til marks um hve vandamálið sem samkeppnisyfirvöld standa frammi fyrir er erfitt viðfangs að þau eru ýmist að skipta sér af fyrirtækjum sem bjóða hærra, lægra og sama verð og aðrir. Fyrirtæki sem bjóða hátt verð eru sökuð um okur, fyrirtæki sem bjóða sama verð og önnur eru sögð stunda samráð og þau sem bjóða betur en aðrir eiga á hættu að verða sökuð um undirboð. Jafnvel fyrirtæki sem gefa neytendum varning, eins og til dæmis Microsoft sem gaf neytendum Internet Explorer, eru hundelt af samkeppnisyfirvöldum og dregin fyrir dómstóla.

Einokun verður aðeins til með lögum og lagalegum höftum hvers konar. Þannig mætti skýra hugsanlegt samráð grænmetisdreifingaraðila á íslenskum markaði um árið sem tilburði aðila sem veitt hefur verið einokunaraðstaða með lögum sem hefta innflutning á tiltekinni vöru og koma þannig í veg fyrir samkeppni með því að loka markaðnum. Það er því sérkennilegt að horfa upp á starf einnar opinberrar stofnunarinnar, samkeppnisyfirvalda, sem felst í því að reyna að leiðrétta mistök annarrar opinberrar stofnunar, Alþingis. Arthur Shenfield orðaði það þannig í litlu riti sínu Myth and Reality in Anti-Trust að einokun sé komið á og samkeppni hindruð með hendi risans en með hendi dvergsins sé reynt að koma samkeppninni aftur á.