Föstudagur 1. apríl 2005

91. tbl. 9. árg.

Er rétt að taka upp skólabúninga? Er rétt að byrja skóladaginn með bæn? Svona er stundum spurt eins og við þessum spurningum sé aðeins eitt rétt svar og stjórnmálamenn lumi á því. Það er ekki nóg með að menn telji aðeins eitt rétt svar við þessum álitamálum heldur má stundum ætla að fræðsluráð Reykjavíkur eða menntamálaráðherra hafi höndlað sannleikann í málinu.

Sannast sagna er það algjört smekksatriði foreldra hvort þeir vilja að börnin þeirra mæti í sérstökum búningum í skólann. Það er líka mál hvers og eins hvort hann vill bænahald í skóla barna sinna. Þessar spurningar eiga hvorki að varða Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra né Stefán Jón Hafstein formann fræðsluráðs.

Þessi spursmál eiga ekkert erindi til stjórnmálamanna. En hvers vegna eru stjórnmálamenn þá krafðir svara um mál á borð við þessi? Jú vegna þess að skólarnir eru meira og minna reknir af hinu opinbera.

Eitt það versta við opinberan rekstur er að með honum nær meirihlutinn – eða öflugasti hagsmunahópurinn – að troða smekk sínum upp á minnihlutann. Ein lausn er í boði fyrir alla. Þeir sem eru hræddir við að sá „sterkasti“ ráði öllu hljóta fyrst og fremst að eiga við ríkisvaldið.

Hvernig er það með íslenska fjölmiðamenn, ætla þeir virkilega að bæta metið frá því í fyrra í því að tala um og flytja fréttir af sjálfum sér? Í fyrra var þó verið að ræða um fjölmiðlana í víðu samhengi. Nú er rætt vikum saman um deildarstjórastöðu hjá ríkisfjölmiðli.