Fimmtudagur 31. mars 2005

90. tbl. 9. árg.

Hvað er hægt að tala mikið um Robert Fischer? Það er að segja, um komu hans hingað, skoðun hans á ýmsum málefnum og ríkisborgararétt hans. Það var umdeilanlegt, eiginlega smekksatriði, hvort veita átti honum ríkisborgararétt, en það er búið og gert. Umræðan um Fischer heldur samt áfram, og margt vitlaust sagt. Eitt af því sem haldið er fram, er að ekki hafi átt að „veita Fischer sérmeðferð“. Sumir hafa lagt töluvert upp úr því hve Alþingi hafi verið fljótt að afgreiða mál hans. „Aðeins tólf mínútur“ er frasi sem hefur heyrst. Nú er allt í lagi að vera þeirrar skoðunar að ekki eigi að veita neina sérmeðferð varðandi ríkisborgararétt, en þá vaknar auðvitað spurningin um það af hverju þau sjónarmið heyrast ekki oftar. Í fyrra fengu 43 einstaklingar ríkisborgararétt með lögum frá Alþingi og allir samþykktir samhljóða. Allir voru í raun og veru að fá sérmeðferð, því ef menn uppfylla skilyrði um ríkisborgararétt þá má dómsmálaráðherra veita hann. Þannig kom fram í fréttum á dögunum að í fyrra veitti dómsmálaráðherra tæplega 600 útlendingum ríkisborgararétt. Ríkisborgararéttur með lögum frá Alþingi, hann er fyrir þá sem ekki uppfylla lagaskilyrði fyrir því að fá ríkisborgararétt. Þess vegna þurfa þeir sérlög. Robert Fischer er eins og þessir tugir manna sem ár hvert fá ríkisborgararétt frá Alþingi. Nema munurinn er sá, að í hans tilfelli segja ýmsir að menn eigi ekki að fá sérmeðferð.

Vefþjóðviljinn er hins vegar þeirrar skoðunar, að Alþingi eigi að gera mun minna af því en það gerir nú, að veita ríkisborgararétt með lögum. Nema þá að menn breyti alveg fyrirkomulaginu, og hafi bara þann sið að útlendingar fái einungis ríkisborgararétt með lögum, það má alveg hugsa sér það og þyrfti hvorki að leiða til fjölgunar eða fækkunar nýrra ríkisborgara, fremur en menn vildu. En vilji menn ekki gera slíka breytingu, þá leggur Vefþjóðviljinn til, að Alþingi dragi mjög úr ríkisborgararéttarveitingum sínum, en almennu skilyrðin, hver svo sem þau eru nú höfð hverju sinni, verði einfaldlega látin duga. Það hvort fallast átti á beiðni Roberts Fischers við núverandi venju, það er svo spurning sem er eiginlega smekksatriði að svara. Fischer er óneitanlega ákveðinn hluti af Íslandssögu síðustu aldar, og meiri en flestir útlendingar, en á móti kemur að hann hafði aðeins komið tvívegis hingað til lands og var á flótta undan refsivendi vinaríkis, en að vísu fyrir glæp sem fæstir Íslendingar eru líklegir til að velta mikið fyrir sér. Og svo verður að horfa til þess, að tugum manna er á ári hverju veittur ríkisborgararéttur frá Alþingi. En þetta er smekksatriði sem erfitt er að gefa eitt óumdeilanlegt og rétt svar við. Það er hins vegar misskilningur að það séu aðallega einhverjir íþróttamenn sem eru að fá ríkisborgararétt með sérlögum, þó þeir séu vissulega inn á milli. Þeir vekja bara meiri athygli en hinir.

Eitt af því sem nefnt er varðandi Fischer, og þá í sambandi við ásakanir hans á hendur óskilgreindum hópi gyðinga, er að hann er sjálfur af gyðingum kominn. Alls kyns spekingar hafa nefnt þetta og þá fabúlerað um „sjálfshatur“ Fischers og annað slíkt. En hvað með það þegar til dæmis Halldór Kiljan Laxness gagnrýndi landa sína harkalega, svo sem fyrir skort þeirra á háttvísi, slakan klæðaburð og almennt slæma siðu? Hefði átt að vera í gildi hegningarlagaákvæði sem hefði heimilað mönnum að ákæra hann og dæma? En það er svo skondið að minnast þess, í sambandi við gagnrýni Roberts Fischers á gyðinga, að á ólympíumótinu í skák, á Kúbu árið 1966, áttu Bandaríkjamenn að tefla við Sovétmenn. Fischer krafðist þess að umferðinni yrði frestað um tvær klukkustundir, Sovétmenn neituðu og þá mætti enginn Bandaríkjamaður til leiks. Sovétmönnum var þá dæmdur 4-0 sigur. Eftir að í ljós kom að Bandaríkjamönnum hafði, áður en mótið hófst, verið lofað að hliðrað yrði til með umferðatíma á föstudögum og laugardögum, féllust Sovétmenn hins vegar á að tefla umferðina. Og af hverju vildi Fischer láta fresta umferðinni? Jú, af trúarástæðum.