Helgarsprokið 27. mars 2005

86. tbl. 9. árg.
Er það ekki merkilegt að nokkrir af svokölluðum trúleysingjum virðast álíta sig hafa rétt og vald til að ákveða hvenær megi skíra börn, hvert innihald trúarinnar sé og hvernig við eigum að haga okkur o.s.frv? Ef hreyft er við andmælum er stutt í ásakanir um trúarofstæki og ofsóknir, en þegar bent er á „trúarofstæki“ sumra trúleysingja og trúboðsákafa þeirra, þá er svarað af enn meiri hörku og oftar en ekki litlum skilningi. Annars er einkennilegt hvað sumt fólk leyfir sér að fullyrða um kristna trú en álítur aftur á móti allt slíkt tal alls óviðeigandi um aðra og jafnvel önnur trúarbrögð. Og það er furðulegt að samtímis telur það sig vera gagnrýnið og fordómalaust.
Dr. theol. Sigurjón Árni Eyjólfsson, í Bjarma, 1. tbl. 99. árg., mars 2005.

S tundum er því slengt fram að ekki gildi hið sama um þá nafnana, Jón og sr. Jón. Ef tekið er mark á ofanrituðum orðum dr. Sigurjóns Árna Eyjólfssonar, þá er munurinn á vígðum og óvígðum Jónum ekki endilega prestinum í hag. Er ekki eitthvað til í þeim orðum að menn leyfi sér eitt og annað gagnvart kristnum og kristinni trú en þyki slíkt alls óviðeigandi um önnur trúarbrögð og það fólk sem þau aðhyllist? Hversu oft grípa menn ekki andann á lofti yfir einhverju sem gert hefur verið eða sagt, en reynist svo vera vanvirða við einhvern helgisið annarra en kristinna? Og á sama tíma finnst fjölmörgum það vera spurningu um tjáningarfrelsi og trúfrelsi að kvöldið fyrir páskadag sendi Ríkissjónvarpið út skemmtiþátt þar sem ekki er gert grín að nokkru öðru en páskaboðskap kristninnar? Og höfundarnir stæra sig af afrekinu árum saman á eftir. Og hversu oft heyrist ekki, að nú verði Íslendingar að breyta einhverju í siðum og venjum sem hér hafa viðgengist, þar sem að nú hafi einhverjir tilteknir flutt til landsins? Nú búum við sko í fjölmenningarsamfélagi.

En ef horft er út fyrir landsteina, þá sést jafnan af hvílíkri virðingu vestrænir fréttamenn tala um helgar borgir, helga staði og ritúal heimamanna og hversu hneykslaðir og sárir fréttamenn verða ef einhverjir, sem grunaðir eru um að vera bandamenn Vesturlanda, aðhafast eitthvað á helgistað annarra, og jafnvel þar að auki á helgum degi og á rangan hátt. En þó vestrænir fréttamenn hafi mikla sérþekkingu þegar kemur að því að fjalla um helgispjöll Vesturlanda, þá virðist sérþekkingin aldrei nægja til þess að upplýsa Vesturlandabúa um það hvernig hinir friðelskandi umburðarlyndu menn í öðrum heimshlutum tala um Vesturlönd. Aldrei nægja til að greina frá þeim áformum sem þeir berum orðum tala um í ræðum yfir fylgjendum sínum. Allir fréttamenn kunna sögur af því hvernig farið er á skítugum skónum yfir helga staði palestínumanna, og ekkert að því að segja frá því. Enginn fréttamaður telur hins vegar ástæðu til að segja frá því heima fyrir þegar söluhæsta bókin meðal palestínumanna nefnist Mein Kampf og er eftir Adolf Hitler, fyrrverandi kanslara Þýskalands. Vestrænir fjölmiðlar senda heim ensk viðtöl við forystumenn þar sem þeir tala um frið frið og meiri frið. En vestrænir fjölmiðlar senda aldrei heim enska þýðingu af arabískum ávörpum sömu manna þar sem heldur minna er fjallað um frið.

Hér heima hafa menn kannski engan tíma heldur til þess að velta sér upp úr slíkum aukaatriðum. Hér er nefnilega við stærri vandamál að glíma. Það er ekki enn búið að banna endanlega kristinfræðikennslu í skólum. Reglulega skýtur sú krafa upp kollinum. Þess er krafist að hætt verði að kenna kristinfræði – og kennslan jafnan nefnd trúboð. Varakrafan er sú, að námsgreinin nefnist trúarbragðafræði og þar verði öllum trúarbrögðum gert jafn hátt undir höfði. Kristinni trú, sem hér hefur ríkt í þúsund ár og enn yfir 9 af hverjum 10 eru skráðir til, og svo trúarbrögðum sem hingað hafa borist á síðustu árum. Sú krafa er absurd. Hitt er svo annað mál, að krafa sumra foreldra um að börn þeirra hljóti ekki fræðslu um kristin trúarbrögð, hún má vera til áminningar um mikilvægi þess að einkaskólar geti starfað í landinu og foreldrar valið þann skóla sem býður þá kennslu sem næst fer hugmyndum foreldranna um holla menntun fyrir barnið. Það er ótal hlutum haldið að börnum í skólum, ótal hlutum sem foreldrar eru ekki samþykkir. Óhætt er að fullyrða að á Íslandi aðyllist menn bæði trúfrelsi og skoðanafrelsi. En ef trúfrelsið á að leiða til þess, að ekki má fræða barn um trúmál öðruvísi en foreldrarnir óska, hindrar þá ekki skoðanafrelsið að barninu sé á öðrum sviðum kennt það sem foreldrarnir ekki samþykkja? Ef trúfrelsið hindrar að segja megi barni að kristnir menn trúi því að Jesús, sem sé sonur Guðs, hafi dáið fyrir þá á krossi og risið upp frá dauðum, má þá segja sama barni að margir vísindamenn telji að umhverfinu standi hætta af hinu og þessu og að mikilvægt sé að gera þetta eða hitt því til bjargar? Fjölmargir foreldrar efast um það sem ákafast er sagt um umhverfismál. Eiga þeir að una því að gagnstæðu sé haldið að börnunum? Hvað með þá foreldra sem telja að rétt sé að leyfa neyslu fíkniefna? Mega þeir ekki ráða því hvaða boðskap börnin heyra? Já hvað með öll þau ótal mál þar sem einhverjir foreldrar telja að eitthvað annað en skólinn kennir sé réttast?

Þegar hið opinbera rekur skóla, þá er óhjákvæmilegt að börn fái í einhverjum málum fræðslu, upplýsingar, skoðanir, eða hvað menn vilja kalla það, sem foreldrar þeirra trúa ekki á. Það er einfaldlega ekki hægt að eltast við það. Það sem ber að gera, er að vinna að því að foreldrar hafi meira val um það í hvaða skóla börn þeirra fara, eins og Vefþjóðviljinn hefur áður nefnt í þessu sama samhengi. Það þarf að fjölga einkaskólum og fækka opinberum skólum. Sennilega verður þó aldrei hægt að reka þann skóla sem kennir það eitt sem allir foreldrar allra nemenda eru sammála um. Það er einfaldlega það gjald sem foreldrar greiða fyrir að senda börn sín til annarra eftir fræðslu. Þegar svo háttar til, þá er það hlutverk foreldranna að útskýra sína hlið fyrir barninu. Foreldrarnir verða þá einfaldlega að útskýra fyrir barni sínu hvað það er sem þeir telja réttara hjá sér en skólanum. Og hvað kristinfræðina varðar, þá hlýtur að blasa við, að kristindómurinn hefur í þúsund ár og mun lengi enn vera svo snar þáttur af íslenskum menningarheimi að sá Íslendingur fer mikils á mis sem ekki fær ákveðna undirstöðu í grunnatriðum hans. Hvort hann svo tekur þá lífsafstöðu að trúa því sjálfur sem kristnin boðar, það er ákvörðun sem hver og einn tekur fyrir sjálfan sig. Hver telur sig ekki frjálsan að slíkri ákvörðun, þó hann hafi fengið kristinfræðslu í barnaskóla?

Altaristafla Eyrarbakkakirkju, þangað gefin af málaranum, Louise drottningu, árið 1891. Myndin hér tekin úr 4. bindi Kirkna Íslands, ritraðar þjóðminjasafns, húsafriðunarnefndar og biskupsstofu.

Í gær hóf Ríkissjónvarpið endursýningu vinsællar þáttaraðar um konungafólk Evrópu. Eru konungsættirnar þar raktar frá Kristjáni IX. Danakonungi, en hann hefur oft verið kallaður tengdafaðir Evrópu, enda giftust börn hann inn í flestar helstu hirðir álfunnar. Kristján IX. var á margan hátt ráðsnjall og skynsamur konungur, þó Íslendingum hafi oft þótt hann heldur óviljugur til að færa þeim miklar stjórnarbætur, og ekki deildu allir Danir trausti konungs síns á forsætisráðherranum Estrúp. Bak við tjöldin var Louise drottning Kristjáns IX. honum traustur og ákveðinn ráðgjafi og hafði töluverð áhrif á konunginn. Henni var ýmislegt gefið og lagði meðal annars stund á listnám. Ekki síst naut hún góðrar kennslu í myndlist en margir af helstu málurum Dana kenndu drottningunni. Eitt sinn bar svo til, að íslenskur prestur, sr. Jón Björnsson (1829-1892) á Stokkseyri, kom til Kaupmannahafnar til fundar við Lefolii Eyrarbakkakaupmann, til að leggja á ráð um byggingu Eyrarbakkakirkju, sem var sr. Jóni mikið hjartans mál. Lefolii leiddi sr. Jón á fund Kristjáns IX. og varð sá fundur til þess að Louise drottning gaf til kirkjunnar altaristöflu sem hún hafði málað. Taflan sýnir Jesúm og samversku konuna við brunninn, en um skipti þeirra má til dæmis lesa í Jóh. 4.7-29. Jesús svaraði henni og sagði: „Þann þyrstir aftur, sem drekkur af þessu vatni, en hinn sem drekkur af því vatni, er eg mun gefa honum, skal að eilífu ekki þyrsta, heldur mun það vatn, sem eg mun gefa honum, verða í honum að lind uppsprettandi til eilífs lífs.“

Vefþjóðviljinn óskar lesendum öllum gleðilegra páska