Mánudagur 28. mars 2005

87. tbl. 9. árg.
Zuroff minnir á að Íslendingar hafi í fjóra áratugi skotið skjólshúsi yfir eistneska stríðsglæpamanninn Eðvald Hinriksson. Með því að veita Bobby Fischer ríkisborgararétt haldi þeir áfram að vera athvarf fyrir illræmda gyðingahatara.
– Fréttir Ríkisútvarpsins, klukkan 22 að kvöldi páskadags.

Zuroff minnir á þetta. Eistneska stríðsglæpamanninn, með ákveðnum greini, Eðvald Hinriksson. Þessi Zuroff er ekki að halda fram neinni umdeilanlegri skoðun, hann bara minnir á þetta. Svona erins og hverja aðra staðreynd sem stundum er minnt á.

Svona vinna þeir nú fagmennirnir á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Hver öðrum hæfari. Engir fyrirvarar af hálfu fréttastofunnar. Ekki orð um það í fréttinni að „eistneski stríðsglæpamaðurinn“ hafi raunar hvorki verið ákærður né dæmdur fyrir stríðsglæpi. Ekki orð um að engar sannanir hafi verið lagðar fram fyrir stríðsglæpum hans. Hann er bara „eistneski stríðsglæpamaðurinn Eðvald Hinriksson“ og erlend stofnun „minnir á“ að Íslendingar hafi í fjörutíu ár skotið yfir hann skotið yfir hann skjólshúsi. Já vel að merkja, skotið yfir hann skjólshúsi. Það er ekki eins og Eðvald hafi komið hingað, eignast hér fjölskyldu og unnið fyrir sér og sínum vandræðalaust áratugum saman; nei nei, hér var „skotið yfir hann skjólshúsi“. Og með því að veita Fischer ríkisborgararétt, sem af ýmsum öðrum ástæðum er undarleg ákvörðun, þá eru Íslendingar að „halda áfram að vera athvarf fyrir illræmda gyðingahatara“. Þannig að Eðvald var líka gyðingahatari og illræmdur sem slíkur.

Já það er eins gott að þessi bévítans Auðun Georg fái ekki að koma á fréttastofuna og draga úr fagmennskunni þar.

Og alltaf heldur barátta fréttamannanna gegn væntanlegum fréttastjóra áfram. Fullkomlega löglega skipaður fréttastjóri, sem yfirmaður fréttasviðsins taldi hæfan til að gegna stöðunni, er úthrópaður í blaðagreinum og auglýsingum frá væntanlegum samstarfsmönnum sínum og ofstækið gengur svo langt að fengin er yfirlýsing frá alþjóðasambandi blaðamanna gegn ráðningu Auðuns Georgs. Hvar endar þetta eiginlega? Fyrst fellir þetta lið á fréttastofunni niður fréttatíma, næst stytta þeir tímann um tvo þriðju eða svo og síðan halda þeir áfram með opinbera fýlu dag eftir dag eftir dag. Þarf ekki að fara að útskýra fyrir þessum mönnum að það er ekki formlega búið að gefa þeim fréttastofuna, jafnvel þó þeim hafi lengi haldist uppi að fara með hana eins og sína eign og hafa á fréttunum þá slagsíðu sem þeim sjálfum finnst passleg og fagleg?