R
Í draumaríki vinstri manna eru foreldrar sviptir allri ábyrgð og hið opinbera sér um allt fyrir alla frá vöggu til grafar. |
-listinn í Reykjavík er augljóslega farinn að hafa áhyggjur af næstu borgarstjórnarkosningum. Hann hefur nú spilað út helsta trompinu sem hann hefur, auknum útgjöldum, því að hann veit að það er nokkuð sem flokkarnir sem að honum standa geta auðveldlega sameinast um. Útspilið heitir á máli vinstri meirihlutans í Reykjavík „gjaldfrjáls leikskóli“ og gerir ráð fyrir því að foreldrar greiði ekkert beint fyrir að senda börnin sín á dagvistarheimili heldur verði skattgreiðendur látnir borga allan brúsann, ekki „aðeins“ meirihlutann eins og hingað til. Það þarf reyndar engum að koma á óvart að vinstri meirihlutinn í Reykjavík vilji stíga skref í öfuga átt í málefnum dagheimilanna rétt eins og í málefnum grunnskólanna, þar sem hann hefur reynt að kreista lífið úr þeim fáu einkareknu grunnskólum sem starfandi eru í borginni.
„Gjaldfrjáls leikskóli“ myndi hljóma mun minna aðlaðandi ef hann bæri réttnefni á borð við „opinber dagvistun“ enda er ekki víst að allir foreldrar myndu gleypa við þeirri hugmynd að hið opinbera, í þessu tilviki borgaryfirvöld, ætluðu sér að sölsa að fullu undir sig alla dagvistun barna þeirra og að þeir hefðu sjálfir ekkert um hana að segja. Ef markmiðið um „opinbera dagvistun“ heppnast eins og vilji vinstri manna stendur til þá verða áhrif foreldra á dagheimili barna þeirra enn minni og ástandið verður þá orðið enn nær draumaríki vinstri manna þar sem að hið opinbera sér um allt fyrir alla frá vöggu til grafar.
Í stað þess að stíga þetta draumaskref vinstri manna í öfuga átt í málefnum barna væri æskilegt að stigið yrði skref í þá átt að auka ábyrgð foreldra á uppeldi barna sinna. Börn eiga ekki að hljóta uppeldi sitt á stofnunum hins opinbera heldur í foreldrahúsum, auk þess sem þau óhjákvæmilega fá að einhverju leyti uppeldi hjá þeim sem foreldrarnir treysta fyrir börnunum um stundarsakir. Tilhneigingin hefur hins vegar verið sú að snúa þessu við og setja foreldrana í aukahlutverk. Þeir hafa í æ ríkari mæli látið „sérfræðinga“ hins opinbera sjá um uppeldi barna sinna og afleiðingin verður sú að þeim finnst ekki að þeir beri alla ábyrgð á uppeldinu heldur sé það í besta falli einhver samvinna þeirra og hins opinbera. Í uppeldi barna eins og í öllu öðru er hins vegar nauðsynlegt að ábyrgðin sé eins skýr og kostur er og þess vegna er óæskilegt að hið opinbera færi sig upp á skaftið í þessum efnum. Börn eiga að vera á ábyrgð foreldra sinna og í því felst meðal annars að þeir eiga að velja það dagvistarheimili sem börnin fara á, vilji þeir á annað borð að börnin fari á dagvistarheimili, og þeir eiga einnig að greiða fyrir vist barnanna þar. Einungis þannig hafa þeir eitthvað um það að segja hvaða þjónustu þeir kaupa og þetta er þess vegna líklegasta leiðin til að tryggja að börnin fái það uppeldi sem foreldrarnir vilja, bæði heima og að heiman.
En það að börnin eigi að vera á ábyrgð foreldra sinna felur fleira í sér en að dagvist þeirra sé á ábyrgð foreldranna en ekki hins opinbera og skattgreiðenda. Það felur einnig í sér að það eru foreldrarnir sem eiga að taka ákvörðun um hvað börnin hafa fyrir stafni á daginn, hvaða fjölmiðla þau horfa á, hvaða leiki þau leika og hvað þau borða, svo nokkuð sé nefnt. Áróður vinstri manna fyrir því að hið opinbera eigi að sjá um allt fyrir alla frá vöggu til grafar hefur heppnast það vel að ýmsir telja að hið opinbera eigi ekki aðeins að sjá fólki fyrir dagvist heldur eigi það einnig að gæta þess að fólk fari sér ekki að voða þegar af dagvistarheimilunum kemur. Þannig beita vinstri menn sér gjarnan fyrir reglum um hvaða auglýsingar megi eða megi ekki beinast að börnum, þeir ræða um skattheimtu á tiltekin matvæli sem börn sækja í, og þeir vilja opinbert eftirlit með sjónvarpi og tölvuleikjum, svo nokkuð sé nefnt. Allt segja þeir þetta gert í þágu barnanna, en þetta er vitaskuld ekkert annað en liður í því stjórnlyndi sem gerir vinstri menn að vinstri mönnum. Með umfangsmiklum reglum og eftirliti af því tagi sem hér hefur verið nefnt væri ábyrgðin í enn ríkari mæli tekin af foreldrum. Þeir fengju það enn frekar á tilfinninguna að uppeldi barna þeirra væri ekki á þeirra ábyrgð heldur hins opinbera og draumaríki vinstri manna væri einu skrefi nær því að verða að veruleika.