Þriðjudagur 15. mars 2005

74. tbl. 9. árg.

H ljómurinn var mjög góður“, sagði söngvarinn Placido Domingo við sjónvarpsfréttamann að loknum tónleikum sem hann hélt í Egilshöll í fyrrakvöld. Domingo var greinilega yfir sig ánægður með tónleikana og sá ástæðu til að hrósa tvennu sérstaklega; tónleikagestunum og hljómnum í húsinu. Álit eins frægasta söngvara allra tíma, manns sem sungið hefur í helstu tónleikahöllum heims, mun hins vegar engu breyta um kröfur tiltekins sérhagsmunahóps hér á landi um að hér verði að reisa tónlistarhús sem kosti skattgreiðendur milljarða króna. Þessi litli en háværi hópur sér ekkert að því að skattgreiðendur verði neyddir til að greiða fyrir áhugamál hans. Þessi sérhagsmunahópur hefur talað sig upp í það að áhugamál hans sé svo miklu merkilegra en áhugamál annarra, að þeim beri að sinna áhugamálum sínum minna svo að hann geti sinnt áhugamáli sínu meira. Einhvern tímann hefði framganga þessa hóps þótt yfirgengileg frekja. Og hún þykir það raunar enn.

S igurður Kári Kristjánsson flutti í gær framsögu á Alþingi vegna frumvarps sem hann og ellefu aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram og felur í sér að hætt verði að birta álagningar- og skattskrár landsmanna eins og tíðkað hefur verið. Í greinargerð frumvarpsins segir meðal annars: „Veigamestu rökin að baki frumvarpinu eru þau að telja verði að birting álagningar- og skattskráa samkvæmt ákvæðum núgildandi laga brjóti gegn rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs. Fjárhagsmálefni einstaklinga eru meðal viðkvæmustu persónuupplýsinga í nútímasamfélagi sem eðlilegt og sanngjarnt er að fari leynt. Ljóst má vera að með framlagningu álagningar- og skattskráa fer fram birting á upplýsingum sem gefa glögga mynd af tekjum nafngreindra einstaklinga.“ Í framsögu sinni og þeim umræðum sem fylgdu lagði Sigurður Kári mesta áherslu á þetta atriði. Umræðurnar urðu þó minnst um það, enda kusu stjórnarandstæðingar að drepa málinu á dreif með því meðal annars að telja birtingu álagningarskráa framlag til baráttunnar gegn meintum launamun kynjanna.

Á Alþingi sitja þingmenn sem geta ekki hugsað sér annað en að fá áfram að gægjast í gegnum skráargatið hjá almenningi.

Eins og von er gaf Sigurður Kári lítið fyrir þennan málflutning og sagðist hvorki telja að álagningarskrárnar nýttust í þessu augnamiði né að þetta réttlætti birtingu þeirra. Þá varpaði hann því fram, ef að einhverjir væru þeirrar skoðunar að birta ætti upplýsingar um skattgreiðslur, hvort þeir væru þá ekki einnig þeirrar skoðunar að birta ætti upplýsingar um styrki og bætur frá hinu opinbera, til að mynda úr Fæðingarorlofssjóði. Pétur H. Blöndal, sem er einn meðflutningsmanna frumvarpsins, gekk enn lengra. Hann sagðist beinlínis telja að ástæða væri til fyrir þingmenn að hugleiða það hvort að ekki ætti að hefja birtingu slíkra bótaskráa.

Þingmaður Samfylkingarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, hafði ýmsar efasemdir um frumvarpið, en andstaðan var enn meiri hjá þingmönnum vinstri grænna, eins og við var að búast. Ögmundur Jónasson og Atli Gíslason fundu frumvarpi Sigurðar Kára flest til foráttu og töldu það einungis til marks um vilja flutningsmanna þess til að hygla hinum efnameiri. Þetta taldi fyrsti flutningsmaður fráleitt. Annars vegar vegna þess að um grundvallarafstöðu til friðhelgi einkalífsins væri að ræða og hins vegar vegna þess að þetta kæmi sér ekkert betur fyrir þá tekjuháu en hina tekjulágu. Vísaði hann til erlendra rannsókna sem sýndu að börn hinna efnaminni hefðu stundum ama af því að tekjur foreldra þeirra væru birtar, en að börn hinna tekjuhærri þyrftu ekkert að óttast í þessu sambandi.

Meginatriði málsins er þó vitaskuld það, eins og Sigurður Kári Kristjánsson lagði áherslu á, að þær upplýsingar sem skattstjórar hafa verið að birta árlega, eru einkamál hvers og eins. Sigurður Kári benti réttilega á að hvorki honum né öðrum kæmi við hvað menn úti í bæ væru með í tekjur. Þetta er aðalatriðið. Frumvarpið er þess vegna fagnaðarefni og verður vonandi til þess að sú ömurlega hnýsni – sem sumir telja til fréttamennsku – að birta lista yfir tekjuhæstu einstaklinga tiltekinna landshluta eða atvinnugreina, heyrir brátt sögunni til.