Nú er ekki lengur hægt að setjast í Stýrimannaskólann. Það er að vísu ennþá hægt að læra til stýrimanns, en ekki í Stýrimannaskólanum. Því hann er ekki lengur til. Ekki fremur en Flugleiðir. Stýrimannaskólinn heitir víst núna Fjöltækniskólinn. Fjöltækniskólinn. Þetta nafn er víst meira lýsandi fyrir starfsemina í skólanum. Og þess vegna má ekki segja Stýrimannaskólinn lengur. Þetta er enn eitt dæmið um ímyndaráráttu nútímans. Það skiptir víst svo miklu máli hvað allt heitir.
Þessi nafnbreytingarárátta er hins vegar afar þreytandi. Ölfushreppur gat ekki lengur heitað Ölfushreppur og gaf þá skýringu að fólk myndi frekar flytja þangað ef hann tæki upp nafnið Sveitarfélagið Ölfus. Bessastaðahreppur tók upp nafnið Sveitarfélagið Álftanes – og hefur síðan talað hátíðlega um það að það hafi hreppurinn gert á fundi hinn 17. júní síðastliðinn, þó staðfesting félagsmálaráðuneytisins á nafnbreytingunni hafi raunar ekki birst þann dag. Og svona mætti áfram telja. Fóstrur kalla sig leikskólakennara, gangaverðir heita skólaliðar, línuverðir eru aðstoðardómarar, Ólafur Ragnar er forseti Íslands.
Er ekki kominn tími til að menn hlæi bara, næst þegar einhver tilkynnir um nafnbreytingu í ímyndarskyni? Og haldi svo áfram að nota gamla nafnið eins og ekkert sé? Það er hins vegar óþarfi að vera með slík skemmtiatriði þegar Háskólinn í Reykjavík, áður Viðskiptaháskólinn, verður fluttur í Garðabæ, því þá er nýja nafnið miklu skemmtilegra en það gamla.
Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekikennari, sú sem lýst hefur því yfir opinberlega að „lögmál kapítalismans [sé] stuldur“, kynnti í gær niðurstöður brýnnar könnunar á viðhorfum til ákveðinna atvinnugreina, eða viðhorfa til hugmynda um atvinnugreinar. Meðal niðurstaðna, og sú sem mest kapp var lagt á að kynna, var að ekki mjög stór hópur væri jákvæður gagnvart vinnu í stóriðju. Sigríði þótti það ekki undarlegt, enda væri það „karlmiðuð“ atvinnugrein.
Já, eins og til dæmis sjómennska.