Miðvikudagur 16. mars 2005

75. tbl. 9. árg.
Í ræðu sinni fór Össur yfir tilurð Samfylkingarinnar og þær væntingar sem samfylkingarsinnar bera til hinnar nýju hreyfingar. Össur sagði m.a. að í kosningunum þann 8. maí væri í fyrsta skipti möguleiki á því að kona, og það vinstri sinnuð kona, Margrét Frímannsdóttir, gæti orðið forsætisráðherra Íslands.
Frétt á heimasíðu Samfylkingarinnar um fund á vegum flokksins á Selfossi 21. apríl 1999.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að Samfylkingin, og ég með pínulitlum hætti, sé hér að brjóta í blað því þetta er í fyrsta sinn sem stjórnmálaflokkur býður upp á konu sem forsætisráðherraefni.
– Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar á Stöð 2 12. janúar 2003 þegar ljóst var orðið að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yrði forsætisráðherraefni flokksins.

Þingkonur Kvennalistans tóku þátt í stjórnarmyndunarviðræðum eftir þingkosningar árið 1987 og einhver þeirra hefði hæglega getað orðið forsætisráðherra. Árið 1991 var líka kosið til Alþingis og þá var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir einn af frambjóðendum Kvennalistans en hann var mjög á móti samningum um álver við erlend stórfyrirtæki. Í sjónvarpsþætti á kosninganótt, þegar fyrir lá að ný vinstri stjórn yrði ekki mynduð án þátttöku Kvennalistans, sneri Ingibjörg stefnu Kvennalistans í málinu og lýsti því yfir að Kvennalistinn gæti samþykkt álver. Eftir að Ingibjörg sporðrenndi álverinu hefði því allt eins getað farið svo að einhver þingmaður Kvennalistans yrði forsætisráðherra. Jóhanna Sigurðardóttir var formaður og forsætisráðherraefni Þjóðvaka í kosningunum 1995. Margrét Frímannsdóttir var talsmaður og forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í þingkosningum árið 1999. Þá lýstu Samfylkingarmenn því yfir að hún væri fyrsta konan sem ætti möguleika á því að verða forsætisráðherra. Það var gleymt og grafið fjórum árum síðar. Þrátt fyrir að konur hefðu getað orðið forsætisráðherrar eftir að minnsta kosti undangengnar fjórar kosningar lýstu Samfylkingarmenn því aftur yfir fyrir þingkosningar árið 2003 að landsmönnum gæfist nú í fyrsta sinn í sögunni tækifæri til að gera konu að forsætisráðherra því í fyrsta sinn væri kona, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, forsætisráðherraefni flokks.

Katrín Júlíusdóttir þingmaður Samfylkingarinnar skrifaði grein í Morgunblaðið í gær þar sem hún andmælir tveimur stuðningsmönnum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarfulltrúa og formannsframbjóðanda í Samfylkingunni. Guðrún Ögmundsdóttir og Ásgerður Jóna Flosadóttir hafa báðar haldið því fram á opinberum vettvangi undanfarna daga að með því að gera Ingibjörgu Sólrúnu að formanni Samfylkingarinnar verði þau tímamót í íslenskum stjórnmálum að kona verði í fyrsta sinn í forystu stjórnmálaflokks sem eigi möguleika á að leiða ríkisstjórn.

Katrín hefur líklega séð að eina leiðin til að koma í veg fyrir að Samfylkingarmenn haldi áfram að segja ósatt um þessi mál sé að hafa bara karl sem forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í næstu kosningum. Hver veit líka nema það dygði til að koma flokknum loks í ríkisstjórn?

ÞÞað deilir enginn um að margir frétta- og dagskrárgerðarmenn á Ríkisútvarpinu er mjög hallir undir Samfylkinguna og útvarpið sé á stundum Ríkisútvarp Samfylkingarinnar. Það kemur því heldur engum á óvart að samkvæmt nýju frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið mun það framvegis heita Ríkisútvarpið sf.