Miðvikudagur 9. mars 2005

68. tbl. 9. árg.

N okkur hluti Íslendinga telur sig allgóða listamenn, eða að minnsta kosti ríflega 0,2% þeirra. Þetta er ekki nokkuð sem Vefþjóðviljinn finnur á sér heldur leyfir hann sér að draga þessa ályktun af því að þetta hlutfall landsmanna hefur sótt um listamannalaun síðustu árin. Alls sóttu 622 um listamannalaun fyrir þetta ár og launin fengu hátt á annað hundrað bestu listamanna landsins. Eða hvað, er þetta nú alveg víst? Er í fyrsta lagi víst að hátt á annað hundrað listamanna hafi fengið úthlutun? Getur verið að einhverjir í þessum hópi séu bara alls engir listamenn? Og svo er það hitt, getur verið að þeir sem fengu listamannalaunin séu bara alls ekkert bestu listamenn landsins? Er hugsanlegt að einhverjir listamenn, sem eru þeim sem launin fengu miklu fremri, hafi sótt um en ekkert fengið?

Í gær vakti Þorsteinn Guðmundsson grínisti og rithöfundur athygli á því ranglæti sem felst í úthlutun listamannalauna og aldrei slíku vant var athugasemdum hans ekki ætlað að kitla hláturtaugar hlustenda þótt sumum rótgrónum listamönnum þyki þær sennilega hlægilegar. Þorsteinn benti á að það væri sérkennilegt að opinber nefnd legði mat á listamenn í stað þess að almenningur mæti þá – en þess má geta að Þorsteinn er fremur ósáttur við að hafa ekki fengið styrk. Hann taldi að ef að ríkið ætti til að mynda að styrkja rithöfunda færi best á því að það styrkti mest þá sem mest seldu en minnst þá sem minnst seldu. Þannig væri það almenningur sem með kaupum sínum á bókum réði því hverjir hlytu styrki og hverjir ekki. Hann varð ekki skilinn þannig að hann væri að mæla sérstaklega með styrkjunum, fremur að ef ríkið vildi stunda styrkjastarfsemi þá bæri því að sýna þá sanngirni að styrkja þá vinsælu fremur en þá óvinsælu.

Það er margt til í þessari ábendingu Þorsteins og ánægjulegt að rithöfundur skuli leggja í slag um þetta mál, því að víst er að ýmsir kollegar hans verða honum ekki afskaplega þakklátir. Hitt er annað mál að þó að styrkur til hinna vinsælustu sé ef til vill að ákveðnu leyti skömminni skárri en styrkurinn til þeirra sem enginn kærir sig um að lesa, þá er hann engu að síður ranglátur. Styrkféð er nefnilega ekki aðeins tekið af þeim skattgreiðendum sem kaupa bækur íslenskra rithöfunda – enda væru þá engin rök fyrir styrknum – heldur einnig af þeim sem aldrei kaupa bækur og vilja gera allt annað í frístundum sínum en að lesa. Ekkert réttlætir að þetta fólk, sem ekki les bækur en kýs þess í stað að horfa á bíómyndir, ganga á fjöll eða stara út í loftið, sé látið halda kollegum Þorsteins uppi til að þeir geti stundað þá atvinnu sem þá langar til. Það er nefnilega alls ekki svo – og á alls ekki að vera svo – að allir geti einfaldlega gert það sem þá langar til án tillits til þess hvort að aðrir hafi nokkuð gagn af störfum þeirra. Menn verða vitaskuld að velja sér starf sem uppfyllir það skilyrði að einhver sé reiðubúinn til að greiða þeim fyrir að sinna því. Og þetta þykir raunar öllum sjálfsagt mál. Eða svona næstum því öllum, einstaka manni þykir verjandi að aðrir niðurgreiði störf hans.